Ertu maður eða mús?

,,En mér er þá spurn, hélt Jón Sigurðsson virkilega að það tæki nokkra mánuði að rífa flokkinn upp? Eða hefur honum ekki heldur dottið í hug að sýna það hugrekki að sitja áfram þrátt fyrir erfiðleika og sitja áfram sem formaður flokksins og rífa flokkinn upp?“ Segir Sölmundur Karl Pálsson í grein dagsins.

Eitt af því sem ég elska við körfuknattleik er þegar leikir eru jafnir og spurningin er hvort leikmaður verði hetja eða skúrkur. Það er alltaf gaman að sjá þegar menn þora að taka af skarið, þegar það heppnast hrósar maður einstaklingi, en ef það klikkar þá blótar maður honum og stundum vorkenni maður honum um leið. En það skemmtilega við íþróttir er að annað hvort ertu maður eða mús og verður því annað hvort hetja eða skúrkur. Sama á við um pólitíkina, annað hvort ertu maður eða mús.


Tveir stjórnmálamenn koma upp í huga mér þegar ég hugsa um þessi mál, og hvorugur get ég talið sem menn heldur mýs. Báðir hafa þessir menn koma úr röðum Framsóknarflokksins og þeir verða sjaldnast þekktir í Íslandssögunni fyrir hetjudáðir sínar á hinum pólitíska vígvelli. Þessir menn eiga það sameiginlegt að hafa gegnt formennsku í Framsóknarflokknum og eru þetta að sjálfssögðu þeir kumpánar Halldór Ásgrímsson og Jón Sigurðsson.


Halldór Ásgrímsson þekkja nú allir, fyrrverandi utanríkis- og sjávarútvegsráðherra, og einnig var hann forsætisráðherra í 1 ½ ár. Mér líkaði svo sem ágætlega við kauða, þrátt fyrir að hann talaði ósköp hægt en þó skiljanlega. Hins vegar þegar á reyndi, kikknaði hann í knjánum og fór með skömm út úr forsætisráðuneytinu og úr formannastól framsóknarmanna. Halldór Ásgrímsson tók á sig alla ábyrgð fyrir því afhroði sem Framsóknarflokkurinn galt í sveitarstjórnarkosningunum 2006, sem er fínt. En Halldóri datt líklega aldrei í hug að sýna það hugrekki að sitja áfram sem formaður og rífa flokkinn upp úr öldudalnum, heldur kaus hann að fara auðveldu leiðina með skömm og skildi flokkinn eftir í sárum sem varð orðið að sökkvandi skipi. Maður eða mús?


Hin kumpánann þekkja nú flestir, Jón Sigurðsson tók við af Halldóri og var hlutverk hans að rífa flokkinn upp og bjarga því sem bjarga varð. Hann þóttist við upphaf formennsku sinnar vera kaldur kall, en þegar á reyndi kikknaði hann í hnjánum rétt eins og forveri hans Halldór Ásgrímsson. Nú, eftir Alþingiskosningarnar og ljóst er að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur náðu saman í ríkisstjórn hyggst hann segja af sér sem formaður Framsóknaflokksins. En mér er þá spurn, hélt Jón Sigurðsson virkilega að það tæki nokkra mánuði að rífa flokkinn upp? Eða hefur honum ekki heldur dottið í hug að sýna það hugrekki að sitja áfram þrátt fyrir erfiðleika og sitja áfram sem formaður flokksins og rífa flokkinn upp? Hins vegar ef hann myndi velja seinni kostinn og sitja áfram og rífa flokkinn upp, þá fyrst gæti maður borið virðingu fyrir Jóni Sigurðssyni sem stjórnmálamanni.


En þó eru ekki allir stjórnmálamenn á Íslandi eins og þeir kumpánar Halldór og Jón. Hver man ekki eftir því þegar Ingibjörg hætti sem borgarstjóri og tók sæti á lista Samfylkingar 2003, en náði ekki inn á Alþingi og þurfti að þola stanslausar árásir andstæðinga sína. Hún ákvað að standa á sínu, og í staðinn fyrir að velja auðveldu leiðina þ.e.a.s. að hætta og fara að gera eitthvað annað, þá ákvað hún að velja erfiðu leiðina. Í dag sér hún ekki eftir þeirri ákvörðun, hún er formaður næst stærsta stjórnmálaflokks landsins og er að leiða flokkinn í fyrsta skipti inn í ríkisstjórn. Þarna sýndi hún hugrekki að flýja ekki af hólmi þegar mest á reyndi, og ég er nokkuð viss að hún er mjög stolt af sjálfum sér vegna þessarar ákvörðun sinnar.


Stjórnmálamenn verða að hafa það í huga að það er ekki alltaf rétt að velja auðveldustu leiðina, heldur hljótum við að vilja fara erfiðu leiðina bara af því að hún er erfiðari, taka áskorun. Við verðum ávallt stolt af okkur sjálfum þegar við ljúkum við erfiðu leiðina því við vitum að hún er erfiðari. Og því verðum við að spyrja okkur sjálf af því hvort við séum menn/konur eða mýs? Og hvort við viljum verða hetjur eða skúrkar? Það skiptir engu hvort við erum íþróttamenn eða stjórnmálamenn, eða bara almennur borgari að taka ákvarðanir í daglegu lífi. Að velja erfiðari leiðina af því að hún er erfiðari sýnir hugrekki, sem hver og einn vill sýna, og svo þegar okkur tekst tiltekið verkefni þá fáum við þessa góðu tilfinningu sem er að ljúka erfiðu verkefni og þá getum við sagt ,, mér tókst það, komið með næsta verkefni.”


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið