Erindi um samgöngumál

,,Ungir Reykvíkingar, og aðrir sem þrá borgarlíf, sjá fyrir sér möguleikann á styrkingu miðborgarinnar með byggð í Vatnsmýri. Aukin byggð miðsvæðis dregur úr umferðarálagi í borginni og eykur þannig lífsgæði borgarbúa.“ Segir Guðlaugur Kr. Jörundsson

Ágætu félagar

Ég var fenginn til að tala hér sem ungur Reykvíkingur og ætla hér að reyna að bergmála sýn unga Reykvíkinga á samgöngumál. Ég hef mikla og langa reynslu af því að vera ungur Reykvíkingur. Ég hef verið það alla mína tíð. Stórfjölskyldan mín var öll að flytjast á mölina á 8. og 9. áratugnum og settust flestir að í Breiðholtinu. Breiðholtið var minn heimur í barnæsku. Ég kom ekki í miðborgina nema nokkrum sinnum á ári. Foreldrar mínir áttu einn bíl og var strætó notaður sem bíll númer tvö. Það þótti ekki óeðlilegt. Ég man eftir einni strætóferð þegar amma tók okkur öll barnabörnin með sér til að fara að skoða Perluna. Hún náði nú eitthvað að semja við vagnstjórann um fargjaldið. Síðan þegar kom að stoppistöðinni skammt frá Perlunni þá stöðvaði strætisvagninn ekki þar, heldur keyrði hann alveg upp að dyrum Perlunnar. Amma kunni sko lagið í vagnstjórunum.

Síðan hafa liðið þónokkur ár. Staða strætó í Reykjavík hefur breyst mikið. Amma mín hefur alveg misst tökin á strætó eftir allar leiðakerfisbreytingarnar. Þá er amma ekki mjög sleip í pólsku og getur því ekki alltaf spjallað við vagnstjórana. Fimm manna fjölskyldan úr Breiðholtinu er nú komin á fimm bíla. Hefur þetta gerst þrátt fyrir að fjórar góðar strætóleiðir liggi að heimilinu. Þjóðfélagið hefur breyst. Aukin velmegun og aukin samkeppni um tíma fólks hefur aftrað vexti almenningssamgangna í Reykjavík. Þá hefur verið haldið einkennilega á spilunum hjá Strætó bs. þar sem reynt hefur verið að fjölga farþegum með því að skerða þjónustu.

Ég ólst upp í borg Davíðs og tók út þroska undir stjórn R-listans. Slíkt hið sama gerði borgin okkar. Á síðustu áratugum hefur verið að myndast borg í okkar litla landi. Við yfirgáfum torfbæina, fluttum í þorpin og loks á mölina. Alveg óvart sköpuðum við borg. Borgin hefur verið skipulögð sem sveitasamfélag og hefur því aldrei myndast borgarlíf í Reykjavík. Það er fólk sem skapar borgarlífið. Fólk kemur saman í miðbæjum borga og úr verður menning. Í Reykjavík sést ekki fólk nema rétt á meðan það gengur út úr húsi og inn í bíl. Einn stærsti þátturinn sem ræður þróun borgarlífsins er skipulag samgangna í borginni. Þar sem almenningssamgöngur eru svo gott sem lamaðar og þar sem ótakmarkaður fjöldi einkabíla getur flætt um götur miðborgarinnar, þá myndast ekki borgarlíf.

Borgarstjórnir Reykjavíkur hafa verið duglegar við að skipuleggja borgina okkar. Nýjum íbúum Reykjavíkur hefur verið fundinn samastaður í borgarlandinu. En lítið hefur verið hugað að borgarlífi í skipulagi borgarinnar. Laugaveginn er fyrir löngu búið að eyðileggja með uppbyggingu sem skorti framtíðarsýn og sýn á borgarlíf. Nú er svo komið að miðborgin þarf nýtt líf. Ungir Reykvíkingar, og aðrir sem þrá borgarlíf, sjá fyrir sér möguleikann á styrkingu miðborgarinnar með byggð í Vatnsmýri. Aukin byggð miðsvæðis dregur úr umferðarálagi í borginni og eykur þannig lífsgæði borgarbúa.

Sem ungur jafnaðarmaður geri ég þá skyldu mína að minna á samþykktir af okkar síðasta landsþingi. Þar segir:

„Framtíð höfuðborgarinnar er ungu fólki í Samfylkingunni sérstaklega hugleikin. Landsþing Ungra jafnaðarmanna telur það brýnt úrlausnarefni að finna Reykjavíkurflugvelli heppilegri stað en í Vatnsmýrinni. Skýrsla samráðshóps Reykjavíkurborgar og samgöngumálaráðherra, sem kynnt var [síðasta] vor, sýnir, svo ekki verði um villst, að fórnarkostnaður þess að fresta brottför flugvallarins nemi að minnsta kosti 3,5 milljarði kr. á ári. Skv. sambærilegri úttekt Samtaka um betri byggð nemur fórnarkostnaðurinn 14 milljörðum kr. á ári.“

Þetta eru engar smá tölur og ég minni á að fulltrúar af landsbyggðinni voru í þeim hópi sem greiddu atkvæði með þessari samþykkt. Ungir jafnaðarmenn vilja byggð í Vatnsmýri!

Þá styðja Ungir jafnaðarmenn þá stefnu sem var mótuð af síðustu ríkisstjórn að stofnæðar til og frá höfuðborgarsvæðinu séu brýnustu verkefnin. Í samþykkt frá landsþingi UJ segir:

„Suðvesturhornið er í dag orðið eitt atvinnusvæði, allt frá Snæfellsnesi til Árborgar. Mikilvægt er að gera miklar umbætur á samgöngumálum á þessu svæði og bæta og stórauka framboð og gæði almenningssamganga. Frá árinu 1996 hefur Sundabraut verið í undirbúningi. Þessi sameiginlega framkvæmd ríkis og Reykjavíkurborgar hefur dregist úr öllu hófi. Mikilvægi þessarar samgöngubótar er engum hulin og því löngu tímabært að ríki og borg bretti upp ermarnar og hefjist handa við lagningu Sundabrautar án tafar. Þá er einnig mikilvægt að hraða öðrum samgöngubótum á höfuðborgarsvæðinu eins og tvöföldun Suðurlandsvegar og mannvirkjagerð til að draga úr umferðarhnútum á álagstímum.“

Nú hyllir undir tvöföldun Suðurlandsvegar en ekkert bólar á Sundabraut. Ég undrast að samgönguráðherra skuli ekki hafa unnið að því hröðum höndum að koma framkvæmdum við Sundabraut af stað. Hefur ráðherrann fengið endalausan stuðning við það að koma málinu áfram. Þverpólitísk samstaða er um málið. Ráðherra man eflaust mæta vel eftir því að þingmenn úr öllum flokkum töluðu skýrt um mikilvægi Sundabrautar í fyrirspurnatíma þann 16. Janúar á Alþingi.

Við verðum að breyta því hvernig við nálgumst samgöngumál. Ég hef hér talað miklu fremur sem ungur Reykvíkingur frekar en ungur jafnaðarmaður. Pólitísk stefnumótun í samgöngumálum virðist vera engin. Það vantar alla pólitíska hugsjón í samgöngumál. Það er ekki sjálfsagt mál að einungis hagsmunahópar karpi um samgöngumál á meðan þau fara svo þvert á alla flokka. Ráðherrann virðist einungis vera verkstjóri sem sér um að forgangsraða verkefnum. Samgönguáætlun er einungis forgangsáætlun verkefna. Vöntun er á alvöru markmiðum og framtíðarsýn í samgöngum Íslendinga. Eina umræðan sem skilar sér til landsmanna er karp um framkvæmdaröð. Kynna þarf betur vandamálin og framtíðarsýnina. Þá ætti öllum að vera betur ljóst á hverju forgangsröðun ráðuneytisins byggir. Þá eru líka minni líkur á að vandamálin safnist upp á einum stað eins og þau hafa gert á höfuðborgarsvæðinu. Þá ættu einnig dylgjur um landsbyggðarpot þingmanna að hverfa. Eða eru það ekki annars bara dylgjur, að samgönguráðherra sé að deila út bitlingum til duglegra landsbyggðar þingmanna og jafnvel í eigið kjördæmi? Nei, við skulum vona að t.d. Vaðlaheiðagöng séu komin á áætlun vegna raunverulegra þarfa.

Það að Vaðlaheiðagöng séu nú komin á áætlun veldur mér þeim áhyggjum að ekki verði til vinnuafl til framkvæmda við Sundabraut og að þensla af slíkri framkvæmd gæti einnig tafið Sundabraut. Sem ungur Reykvíkingur sé ég enga þörf fyrir þessi göng. Ég hef ekki fundið neinar upplýsingar um hvaða vandamál Vaðlaheiðagöng leysa. Mjög skortir á kynningu á því verkefni. Ég gæti frekar hugsað mér að skoðuð yrðu göng í gegnum Hellisheiði eða vegurinn þar hreinlega hitaður upp með hita frá því hitasvæði. Ófærð um Hellisheiði hefur verið til mikilla trafala nú í vetur.

Ég vonast til þess að ráðherrann geri samgöngumálin pólitískari og setji fram framtíðarstefnu með mælanlegum markmiðum. Þá vona ég einnig að hann taki mið af jafnaðarstefnunni í sínu starfi, en Vaðlaheiðagöng með veggjöldum finnst mér ríma þar illa við. Það þarf að taka veggjaldaumræðuna sterkum tökum og ljúka henni. Ráðherrann fær þó hrós fyrir frumvarp um breytingar á lögum um Samgönguáætlun. Ný lög munu veita tækifæri til þess að gera betur, t.d. í stefnumörkun fyrir almenningssamgöngur.

Ég minni að lokum á setningu úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem hljóðar svo:

„Ríkisstjórnin mun beita sér sérstaklega fyrir úrbótum á samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins.“

Ég hefði viljað sjá þessa setningu koma betur fram í þeim viðauka sem nýlega var gerður við gildandi samgönguáætlun. Slíkur viðauki var einmitt gott tækifæri fyrir ráðherrann að beita sér sérstaklega.


– Erindi flutt á Samgöngumálafundi Samfylkingarinnar á Grand hótel miðvikudaginn, 26 mars, 2008.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand