Er partýið að verða búið?

Í stjórnmálayfirlýsingu stofnfundar Ungra jafnaðarmanna var tekin skýr afstaða í ýmsum málaflokkum og til dæmis var lýst yfir vilja til að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ennþá dag í dag eru Ungir jafnaðarmenn eina ungliðahreyfingin sem telja að sæki skuli um aðild að Evrópusambandinu en samtökin hafna jafnframt einangrunarhyggju hinna ungliðahreyfinganna. Ýmsar blikur hafa verið á lofti í efnahagslífinu síðustu vikur. Ýmsar hrakspár og svartar skýrslur hafa riðið yfir þjóðina við misjafnar undirtektir. Ekki ætla ég að fara að gefa mig út sem einhvern fjármálavitring og kryfja þessar spár og skýrslur til mergjar en þó bendir, að manni finnst, margt til þess að ekki sé endilega mikil ástæða til bjartsýni.

Í kvöldfréttum NFS 3. apríl s.l. var dómsdagsfrétt að hætti hússins um að samdráttur í íslensku efnahagslífi myndi hrinda af stað fyrstu dóminókubbunum í átt til alheimssamdráttar. Viðtal var tekið við virtan breskan fjármálamann sem hélt þessu fram. Þessi frétt var nokkuð áhugaverð og nokkuð í stíl við katastrófu fréttaflutning stöðvarinnar. Maður getur víst samt ekki skellt skollaeyrum við öllum neikvæðum fréttum og haldið því fram eins og sumir að þær séu aðeins settar fram af öfund og illkvittni nágrannaþjóða okkar. Það er farið að hrikta í undirstoðunum.

Vaxtahækkun Seðlabankans ætti að verða fólki til umhugsunar og viðvörunar um frekari skuldsetningu. Glórulausar skuldsetningar fólks við fasteignakaup og neyslulán er gríðarlega alvarlegt mál og ljóst er að margir hafa spennt bogann til hins ítrasta. Ekki má neitt útaf bregða svo að illa fari. Enn er mikil þensla á fasteignamarkaði þótt talið sé að hámarkinu sé náð. Hækkað fasteignaverð hefur auðvitað verið mikil búbót fyrir fasteignaeigendur en það er nánast martröð fyrir ungt fólk að stíga sín fyrstu skref í fasteignakaupum eins og staðan er í dag að mínu mati. Ekki treysti ég því t.d. að fasteignaverð haldist svona hátt til lengdar og væri það því ekki sniðugt að fara í miklar lántökur fyrir íbúðakaupum sem gætu síðan endað í því að verð fasteignarinar rýrnaði meðan lánið stæði í stað. Þannig held ég einmitt að staðan sé hjá mörgum. 90-100% áhvílandi á fasteign og yrði því lækkun fasteignaverðsins skelfileg fyrir það fólk.

Ný hverfi spretta upp með miklum hraða um allt höfuðborgarsvæðið og eru farnar að heyrast raddir innan byggingargeirans þess efnis að fyrr eða síðar mettist markaðurinn og að þá gæti myndast offramboð. Þá gæti farið illa fyrir mörgum verktökum sem hafa farið of geyst og fasteignaverð myndi væntanlega lækka.

Annað lýsandi dæmi um hina gríðarlegu þenslu er sala á nýjum bílum en met er nánast slegið í hverjum mánuði. Á meðan hrannast notaðir bílar upp á bílasölum og eflaust margir sem reiða sig á að selja gamla bílinn sem fyrst til að geta borgað af þeim nýja. En í þessu gríðarlega framboði er ekki hlaupið að því að selja bílinn sinn.

Ég er af þessari ungu „dekurkynslóð“ sem ekki man eftir óðaverðbólgu og kreppum. Manni finnst maður vart muna annað en uppgang en þó hefur mér verið gerð grein fyrir því að allt sem fer upp kemur líklega einhvern tímann niður aftur. Heyrði tvo eldri menn um daginn ræða saman um ungu kynslóðina sem ég tilheyri víst sjálfur. Við þurfum að eignast allt á sem skemmstum tíma. Helst að búa jafnflott og flottar en eldra fólkið sem hefur verið tugi ára að vinna sér inn fyrir sínu húsnæði og eignum.

Kannski er kominn tími til að horfa öðruvísi á hlutina.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand