Höfnum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu

Hvort umræddir greinarhöfundar og skoðanabræður þeirra muni nokkurn tíman geta sett sig í spor annarra og sýnt réttindum kvenna til fóstureyðinga skilning veit ég ekki. Og fyrst þeir þykjast vera málsvarar ófæddra barna, hversu langt vilja þeir ganga í að skerða sjálfsforræði þungaðra kvenna? Á að banna þeim að borða óhollan mat, keyra bíl eða stunda áhættusamar íþróttir? Hvað sem líður þeirra afstöðu styð ég rétt kvenna til þess að ráða yfir eigin líkama og eigin framtíð. Karlmenn eiga ekki að ráða yfir líkömum kvenna þótt þeir hafi vissulega gert það í gegnum aldirnar í krafti karlaveldsins. Það er eitthvað sem frjálslynt fólk hlýtur að vera sammála um að verður að breyta. Síðastliðinn þriðjudag sat Michael Meacher, þingmaður breska Verkamannaflokksins fyrir svörum í Kastljósinu. Hann er sannarlega enginn nýliði í flokkum þar sem hann hefur setið á þingi frá árinu 1970 og verið ráðherra í ríkisstjórnum þriggja leiðtoga flokksins. Hann talaði um þróun hans og ég vona að sem flestir jafnaðarmenn hafi hlýtt á hans frásögn og einsetji sér að draga einhvern lærdóm af henni. Meacher benti á að stefna flokksins hefði gjörbreyst á þessum rúmlega 30 árum frá því að hann gekk til liðs við hann og sé nú komin mun lengra til hægri en æskilegt geti talist fyrir jafnaðarmannaflokk.

Í ráðherratíð Tonys Blairs hefur flokkurinn orðið sífellt vilhallari markaðsöflunum og dregið úr stuðningi við launþegahreyfingarnar. Hann hefur smám saman aukið hlut einkareksturs í heilbrigðis- og menntageiranum og misskipting auðs fyrir vikið aukist gríðarlega. Á sama tíma hefur vald lýðræðislega kjörinna fulltrúa orðið hjóm eitt sökum þess að valdhöfum hefur tekist að víkja sér fimlega undan pólitískri ábyrgð gjörða sinna og vegna þess að vald hefur færst á hendur eignamanna. Í kapítalísku samfélagi gildir jú ekki sú meginregla lýðræðisins að einn maður jafngildi einu atkvæði. Þvert á móti þýðir ein króna eitt atkvæði og því hafa þeir ríkustu öll tögl og hagldir í samfélaginu. Þar er ekkert sem heitir „félagsleg réttindi“ enda fær fólk ekki nema það sem það getur borgað fyrir í peningum.

Það er að vísu rétt sem Meacher benti á að það að leggja áherslu á réttindi launafólks þýði ekki að ekki væri hægt að hlú að markaðnum í leiðinni. Það er hins vegar verra þegar menn einblína svo á markaðslausnir að þeir skella skollaeyrum við félagslegum réttindum þar sem hægt er að tína til rök fyrir því að þau geti á stundum stuðlað að óhagkvæmni á einhverjum sviðum markaðarins.

Kratar á Íslandi líta margir á verkamannaflokka í nágrannalöndunum sem sína systurflokka. Miðað við lýsingu Meachers á hinum „nýja“ verkamannaflokki Tonys Blairs getur hann ekki talist góð fyrirmynd fyrir Samfylkinguna. Því miður er hins vegar ekki annað að sjá en að töluverður fjöldi flokksmanna eigi sitthvað sameiginlegt með Tony Blair og hans mönnum.

Í Samfylkingunni eru þingmenn og aðrir flokksmeðlimir sem hafa mælt digurbarkalega fyrir aukinni hlutdeild markaðarins í grunnstoðum velferðarkerfisins. Á landsfundum Samfylkingarinnar hefur jafnan verið ályktað að æskilegt sé að aukin hlutdeild einkaaðila í heilbrigðiskerfinu verði skoðuð. Í þessari staðhæfingu kristallast firring hins „nýja“ breska Verkamannaflokks. Bæði er með henni verið að mæra markaðslausnina og hagkvæmni þess á sviði, sem hefðbundnir verkamannaflokkar eiga að vernda frá markaðnum, og auk þess sem orðalagið felur í sér algert ábyrgðarleysi. Það er ekki verið að taka afstöðu með eða á móti nokkrum sköpuðum hlut. Ef ríkisstjórnin gengur skrefinu of langt í markaðsvæðingu velferðarkerfisins er ekki hægt að gera Samfylkinguna ábyrga fyrir neinn stuðning þar sem hún sagðist eingöngu hafa viljað skoða slíkar lausnir. Og með því að vilja gera það er hún ekki líkleg til þess að veita ríkisstjórninni neitt aðhald eða spyrna gegn slíkum tilburðum af neinni alvöru. Það fylgir því ábyrgð að vera í stjórnarandstöðu og hana verður ekki axlað með svona yfirlýsingum.
Í rökræðum mínum við aðra jafnaðarmenn um dásemdir eða ekki dásemdir einkaframtaksins í heilbrigðiskerfinu hefur mér jafnan verið bent á þrennt; 1) það að margir nútímalegir og framsæknir jafnaðarmenn styðji það, 2) að kostnaður heilbrigðiskerfisins hafi aukist á undanförnum árum, og 3) menn megi ekki festa sig í þeirri afstöðu að vera á móti því að skoða hlutina hluti til þess eins að vera á móti.

Hinu fyrsta hef ég vel tekið eftir. Hægrimönnum hefur tekist með skeleggum hætti að stjórna umræðunni í íslenskri pólitík með farsakenndri slagorðapólitík og fá fólk til þess að trúa því að þeir séu málsvarar framfara og framtíðarinnar. Því telja hægrikratar sig framfarasinnaða ólíkt okkur vinstrisinnuðu afturhaldsseggjunum, og nú er svo komið að 44% þjóðarinnar segist, samkvæmt Gallup, hlynntur aukinni aðkomu einkaaðila í heilbrigðiskerfinu. Jú, og kostnaður heilbrigðiskerfisins hefur aukist til muna á undanförnum árum, en á sama tíma hefur hlutur einkareksturs líka aukist til muna. Það er ekki að sjá að reynsla okkar á Íslandi af einkarekstri í heilbrigðiskerfinu sé sú að þjónustan verður ódýrari fyrir ríkiskassann eða aðgengileg öllum sjúklingum.

Og allt í lagi, ég skal gútera það að maður eigi ekki að vera á móti því að skoða bara til þess að vera á móti. Því skulum við snöggvast skoða reynslu annarra þjóða af einkarekstri. Á síðasta ári hélt Göran Dahlberg, sænskur sérfræðingur í lýðheilsumálum, erindi hér á landi um reynslu annarra þjóða af einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Meðal þess sem hann komst að í sínum rannsóknum var það að aukinn einkarekstur yki kostnað við þjónustuna, vaxandi einkafjármögnun drægi úr aðgengi hinna efnaminni að heilbrigðisþjónustu og hefði áhrif á aðgengi fólks að henni eftir búsetu, stytti ekki biðtíma og minnkaði yfirleitt val sjúklingana. Ekkert af þessu er í stefnuskrá jafnaðarmanna en ég hef ekki heyrt neinn koma með skynsamlega lausn á þessum leiða fylgifiski annarra þjóða af einkarekstri í heilbrigðiskerfinu.

Kannski er í alvöru sniðugt að reyna að höfða til miðjufylgisins til þess að krækja í atkvæði. En það er ekki sniðugt ef það þýðir sjálfkrafa að við þurfum að gefa einhvern afslátt af jafnaðarstefnunni. Til þess að vera jafnaðarmaður er nefnilega ekki nóg að vera hægri-miðjumaður sem hefur tileinkað sér orðræðu félagshyggjumanna. Á meðan við reynum að gefa okkur út fyrir að vera framfarasinnuð, hagkvæm og nútímaleg, munum samt á meðan um hvað það snýst að vera jafnaðarmaður!

Áhugaverðir tenglar:
niðurstöður Görans Dahlbergs á rannsóknum á einkarekstri í heilbrigðiskerfinu
Grein eftir Meacher um skaðsemi markaðsvæðingar heilbrigðiskerfisins
Grein eftir Meacher um ábyrgðarleysi valdhafa í Bretlandi
Grein eftir Meacher um stefnubreytingu Verkamannaflokksins á stjórnartíð Blairs

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið