Enn um skólagjöld

,,Það má heldur ekki líta framhjá þeirri staðreynd að ekki nándar nærri allar greinar eru tryggingar fyrir hærri tekjum í framtíðinni, og ekki allir stúdentar velja að fara í Háskóla til þess að verða ríkir, þótt eflaust flestir óski þess að munu geta lifað mannsæmandi lífi eftir að á vinnumarkaðinn er komið.” – Segir Hildur Edda Greinin birtist áður sem aðsend greinNú þegar fjárhagsstaða Háskóla Íslands er afar erfið og umræðan um möguleg skólagjöld hefur verið í algleymingi, hafa stúdentar tekið sig saman og mótmælt harðlega öllum hugsanlegum áformum um að laga fjárhag skólans með að seilast í vasa stúdentanna sjálfra. Á sama tíma hafa Heimdellingar sent frá sér ályktun um að skólagjöld séu bæði tímabær og nauðsynleg, þar sem þeir vara einnig sérstaklega við framlagi vinstrimanna í umræðuna um upptöku skólagjalda. Fámennur hópur stúdenta hefur einnig stofnað félag stúdenta með skólagjöldum, sem þeir telja rétta og góða leið til að bæta kennslu, aðbúnað og fleira, auk þess sem þau styrki samkeppnisstöðu Háskóla Íslands. En eru skólagjöld skynsamleg og sanngjörn lausn?

Á Háskólinn í harðri samkeppni við aðra háskóla hér á landi?
Skólagjaldasinnar benda gjarnan á þá staðreynd að Háskólinn eigi í erfiðri samkeppni við aðra háskóla á landinu. Staðreyndin er hins vegar sú að það eru einungis nokkrar deildir í HÍ sem eiga í samkeppni hér á landi. Deildir eins og til dæmis Félagsvísinda-, Heimspeki-, Lækna-, og Hjúkrunarfræðideildir í HÍ eru einu sinnar tegundar á landinu, og eru ekki í samkeppni nema við svipaðar deildir í háskólum erlendis, ekki síst á Norðurlöndunum þar sem engra skólagjalda er krafist og allur aðbúnaður er til fyrirmyndar.

Ekki nándar allar greinar eru tryggingar fyrir háum tekjum að námi loknu
Það má heldur ekki líta framhjá þeirri staðreynd að ekki nándar nærri allar greinar eru tryggingar fyrir hærri tekjum í framtíðinni, og ekki allir stúdentar velja að fara í Háskóla til þess að verða ríkir, þótt eflaust flestir óski þess að munu geta lifað mannsæmandi lífi eftir að á vinnumarkaðinn er komið. Það fara semsagt ekki allir í viðskiptafræði eða hagfræði til þess að vera betur í stakk búnir til þess að stofna fyrirtæki og græða á tá og fingri. Táknmálstúlkar, hjúkrunarfræðingar, uppeldisfræðingar, svo að einhver dæmi séu tekin, hafa hingað til ekki talist til hátekjustétta, en störf þeirra eru gríðarlega mikilvæg fyrir þjóðfélagið allt. Með því að ríki styrki menntun þessa fólks er það að fjárfesta í þekkingu og góðri þjónustu sem nýtist þegnunum vel, og því er óskynsamlegt að láta nemendur eina bera kostnað af menntun sinni. Og ef stúdentar í þessum greinum þurfa að greiða skólagjöld fyrir nám sitt er það ekki trygging fyrir að bestu nemendurnir sækjast eftir að fá að stunda þetta nám heldur einungis þeir ríkustu. Þeir háskólamenntuðu einstaklingar sem nýta menntun sína til þess að verða ríkir greiða á sama tíma hærri skatta en lágtekjufólk, þannig að sá peningur sem ríkið kostaði til fyrir menntun þeirra kemur margfalt til baka án þess að nokkur þurfi að greiða skólagjöld.

Er skortur á kostnaðarvitund meðal háskólanema?
Skólagjaldasinnar hafa líka bent á að ef stúdentar fái að greiða fyrir sína menntun sjálfir muni kostnaðarvitund þeirra aukast og þeir fara að stunda nám sitt betur. Staðreyndin er hins vegar sú að þeir stúdentar sem falla á prófum eða flosna úr námi eru sjaldnast að gera það að gamni sínu eða af því að þeir hafi ekki nógu miklu að tapa. Ástæðurnar fyrir því að sumir falla á prófum eða flosna úr námi eru í sumum tilfellum þær að það reynist þeim of þungt. Í öðrum tilfellum missa þeir áhugann á náminu þar sem það stendur ekki undir þeim væntingum sem þeir höfðu til þess í byrjun. Í enn öðrum tilfellum ná stúdentar ekki að sinna námi sínu af fullum krafti af því að þeir þurfa að vinna með því til að eiga fyrir fullri framfærslu, en LÍN lánar einungis fyrir 70% af áætlaðri framfærslu meðal námsmannsins. Það er semsagt afar sjaldgæft að stúdentar sinni náminu sínu ekki af því að þeir hafi ekki nógu að tapa. Manneskja á námslánum hefur alveg nógu að tapa þó að ekki bætist skólagjöld við skuldirnar.

Ekki allir í þeirri aðstöðu að geta tekið lán
Það er heldur ekki gefið mál að þeir sem eru fátækir geti ,,vitanlega” tekið lán fyrir skólagjöldum. Það eiga ekki allir stúdentar foreldra sem eiga fasteignir og geta gerst ábyrgðarmenn fyrir lánunum. Sumir eru af fátækum foreldrum komnir og aðrir eiga ekki einu sinni foreldra. Þar fyrir utan er ekki eins og lánastofnanir keppist um að veita nemendum lán, þar sem LÍN er eini raunhæfi möguleikinn fyrir stúdenta.

Aðgengi að góðri menntun óháð efnahag er mikið hagsmunamál fyrir þjóðina í heild
Í samanburði við önnur OECD ríki eyða Íslendingar skammarlega litlu í menntun, og sá samanburður kemur okkur sannarlega við ólíkt því sem skólagjaldasinnar vilja viðurkenna. Og skólagjöld eiga ekki að vera skilyrði fyrir því að stúdentar geti krafist góðrar þjónustu og toppmenntunar. Aðgengi að góðri menntun er hagsmunamál fyrir allar stéttir þjóðfélagsins.

Við stúdentar við Háskóla Íslands erum ekki fámennur sérhagsmunahópur, börn ríka fólksins og blóðsugur á skattborgurum. Það er öllum í hag að sem flestir geti öðlast menntun sem skilar sér í þjóðfélagið í formi góðrar þjónustu og/eða hagvaxtar.

Hildur Edda Einarsdóttir, stjórnmálafræðinemi við Háskóla Íslands.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand