Ekkert vesen og allt í góðu lagi

,,Lýðræðisleg þátttaka á ekki bara að felast í að kjósa fulltrúa á fjögurra ára fresti. Þegar fulltrúarnir misbjóða almenningi, sem ræður þá í vinnu, finnst mér kjósendur ekki bara hafa rétt á heldur skyldu til að mótmæla í hlutfalli við hversu stór hnúturinn í maganum er orðinn.“ Segir Anna Pála Sverrisdóttir formaður UJ.

Það er ömurlegt hvernig sumir dagar geta boðið manni upp á óþægindi og hnúta í magann. Stundum af minni háttar ástæðum eins og að vera orðin of sein að skila smáverkefni en svo koma dagar þar sem er verið að segja upp félögum allt í kringum mann á vinnustaðnum, fyrrverandi er byrjaður að deita aftur eða aðrar ástæður eru fyrir að dagarnir verða svartir og óþægindahnútarnir þvælast fyrir.

Verstu hnútarnir eru þeir sem maður veit upp á sig sökina að hafa hnýtt sjálfur. Maður er ekki að standa sig eða kemur ömurlega fram við þá sem maður elskar. Við ófullkomna fólkið höfum stundum lent í að verða fyrst ömurleg þegar okkur er bent á mistökin. Maður þolir illa að heyra að maður hafi rangt fyrir sér.
 

Flestir muna eftir Orkuveituauglýsingunni umdeildu. Eitthvað sem okkur dreymir líklega öll um í starfi er það sem hún boðaði: Ekkert vesen og allt í góðu lagi. Fyrir starfandi stjórnmálamann væri þannig kannski þægilegast að mæta í vinnuna, fá sér kaffi, kíkja í blöðin og hringja nokkur símtöl. Sitja snittufundi og fá sitt í gegn. Umfram allt vill maður auðvitað ekki að það sé óþægilegt í vinnunni.
 

Það var frekar óþægilegt í vinnunni hjá nýjum meirihluta í borgarstjórn núna 24. janúar. Skríllinn öskrandi á pöllunum svo fundurinn tafðist. Þið þekkið söguna. Myndir náðust af borgarfulltrúum að horfa upp á pallana með kjálkann niðri í bringu. Þennan dag fannst meirihluta kjósenda blasa við að átta borgarfulltrúar sem starfa í umboði almennings, væru að gera stór mistök. Borgarfulltrúarnir þoldu hins vegar ekki að láta segja sér það, frekar en stuðningsmenn þeirra sem eyddu mörgum púðurtunnum í að skjóta niður mótmælin sem urðu vegna þessara mistaka, frekar en fagna nýja meirihlutanum.
 

Sjálfri finnst mér þetta með mótmælin frekar borðleggjandi. Lýðræðisleg þátttaka á ekki bara að felast í að kjósa fulltrúa á fjögurra ára fresti. Þegar fulltrúarnir misbjóða almenningi, sem ræður þá í vinnu, finnst mér kjósendur ekki bara hafa rétt á heldur skyldu til að mótmæla í hlutfalli við hversu stór hnúturinn í maganum er orðinn. Ef það á stundum að vera óþægilegt í vinnunni hjá einhverjum, þá er það hjá stjórnmálamönnum. Og ef það er aldrei neitt vesen, þá fyrst er örugglega ekki allt í góðu lagi.

                            Greinin birtist í nýjasta tölublaði Nýs Lífs

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand