,,Það þarf að ræða betur, svo eitthvað sé nefnt, þátttöku ríkisins í námsgagnakostnaði framhaldsskólanema, stúdentsprófið og samræmd próf, sem ættu að hverfa með öllu.“ Segir Guðlaugur Kr. Jörundsson í grein dagsins
Álitamál eru þó fjölmörg, bæði pólitísk og tæknileg. Nú þegar hefur farið fram mikil umræða um frumvörpin hjá Samfylkingunni og UJ. Hefur það komið sér mjög vel fyrir þingmenn Samfylkingar í menntamálanefnd að hafa aðgang að svo góðri ráðgjöf sem slík umræða skilur eftir sig. Frumvörpin geta án nokkurs vafa orðið enn betri ef fleira gott fólk kynnir sér frumvörpin og kemur á framfæri ábendingum til batnaðar. Það er svo sannarlega kominn tími til að hefja ítarlega umræðu í þjóðfélaginu og fjölmiðlum um frumvörpin.
Helstu kostir þessara frumvarpa eru að skólastofnanir fá meira sjálfstæði og skil á milli skólastiga eru orðin sveigjanlegri. Þá breytast samræmd lokapróf í 10. bekk í könnunarpróf á haustönn. Einna mest er deilt um framhaldsskólafrumvarpið. Stúdentsprófið þarf að ræða ítarlega áður en frumvarpið er samþykkt því námstími til stúdentsprófs er ekki skilgreindur. Þó ber að nefna að tegundum lokaprófa er fjölgað í framhaldsskólanum, m.a. er bætt við tveggja ára framhaldsskólaprófi.
Kennaranám leik- og grunnskólakennara er lengt um tvö ár og skal ljúka með meistaragráðu. Frumvörpin kveða þó ekkert á um innihald kennaranámsins. Það verður að endurskoða kennaranámið í heild. Gera það að meiri gæðum og auka kröfurnar. Kennaranámið má ekki hafa á sér framhaldsskólastimpil sem gerir það að verkum að menntun kennara fær ekki þá virðingu sem nauðsynlegt er að slík menntun beri.
Það þarf að ræða betur, svo eitthvað sé nefnt, þátttöku ríkisins í námsgagnakostnaði framhaldsskólanema, stúdentsprófið og samræmd próf, sem ættu að hverfa með öllu. Þá þarf ríkið að koma að fjármögnun listnáms á framhaldsstigi og auka þarf tækifæri brottfallsnemenda til að hefja nám að nýju.
Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag, 29 febrúar 2008