Hún er að byrja, -helgin, Verslunarmannahelgin. Ég er á leiðinni útúr bænum eins og svo margir aðrir, er í fyrsta skipti í langan tíma að komast með á árlegt fjölskyldumót móðurleggsins, sem verður á Suðurlandi þetta árið. Hún er að byrja, -helgin, Verslunarmannahelgin. Ég er á leiðinni útúr bænum eins og svo margir aðrir, er í fyrsta skipti í langan tíma að komast með á árlegt fjölskyldumót móðurleggsins, sem verður á Suðurlandi þetta árið. Vinir mínir verða flestir í bænum, ætla að halda krokketmót í kvöld og grilla síðan hina dagana. Það ætlar enginn á útihátíð, þær virðast einhvern veginn verða meira og meira óspennandi eftir því sem tíminn líður. Alltaf verið að nauðga einhverjum og svona, já eða misneyta!
Núna seinustu dagana fyrir helgina hefur verið mikil umræða í kringum mig, og í þjóðfélaginu öllu, um nauðganir. Kannski ekki skrýtið þar sem að það skellur yfirleitt yfir fljóðbylgja slíkra misyndisverka á þessum árstíma. Mig rámar í að hafa séð um árið landakort í fréttatímanum þar sem á voru límdar tölulegar staðreyndir um tíðni og dreyfingu nauðgana yfir Verslunarmannahelgina, svona í veðurfréttastíl.
En þetta byrjaði sem sagt í síðustu viku þegar það barst í tal í einu kaffihúsaspjallinu að það hefðu orðið hugtakaskipti í heimi kynferðisafbrota. Þegar einstaklingur hefði samfarir við rænulausa manneskju sem gæfi ekki samþykki sitt héti það misneyting en ekki nauðgun. Ekki veit ég hvort dómar fyrir misneytingu séu almennt vægari en fyrir nauðgun,- kannski þeir sem hrasi um og detti ofan á áfengisdautt fólk núna um helgina þurfi að tína upp ruslið eftir útihátíðirnar í stað þess að sitja inni í mánuð eins og áður var? Eftir sem áður gátum við mörg ekki séð annað en misneyting væri nauðgun og breytt orðanotkun ekki líkleg til að draga úr ofbeldi né skýra málið.
Upp úr þessu spratt síðan umræða um ábyrgð kvenna í nauðgunum þar sem mikið var fussað og sveiað á alla kanta. Það má bara eiginlega ekkert ræða um ábyrgð kvenna yfir höfuð. Síðan fór ég í garðpartý þar sem við töluðum um áhrif klámvæðingarinnar á kynferðisofbeldi og þá fékk ég að heyra af hópi vaskra karla sem stefnir að því að heimsækja skólapilta og tala um, meðal annars, sjálfsmynd karla. Núna seinast sat ég í stofunni með mömmu og pabba og reyndi að koma einhverju skipulagi á allar þessar nauðgunarpælingar. Það reyndist mér afar erfitt og eiginlega kviknuðu bara fleiri spurningar ef eitthvað er.
Það litla sem ég hef komist að fyrir mitt leyti er að nauðgun er glæpur sem á engan hátt er hægt að réttlæta. Það er ekki aðeins verið að ráðast á líkama manns, heldur ekki síður inn á sálina. Nauðgun hefur varanleg áhrif á líf þess sem verður fyrir henni (og örugglega gerandans líka). Það hefur enginn rétt til að hafa samfarir við einhvern sem ekki hefur áhuga á því, -ekki heldur þegar viðkomandi er ekki með rænu til að láta vita hvort hann vilji það eða ekki, -það er ekki um neinn mis-skilning að ræða þegar maður er sofandi! En það sem ég er að vandræðast með er þetta með ábyrgðina. Af hverju eru fleiri nauðganir tilkynntar um þessa helgi á einni lítilli útihátíð heldur en á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku þar sem saman koma 80.000 manns? Af hverju getur samfélagið gengið út frá því að fjöldi einstaklinga verði beittur þess konar ofbeldi eins og það sé eitthvað sem ekki verði komist hjá? Hefur það kannski eitthvað með menninguna okkar að gera? Hefur það kannski eitthvað með drykkjuna okkar að gera? Hefur það kannski eitthvað með samskiptamynstur kynjanna í þessu landi að gera?
Ég fór að velta því fyrir mér hvort að það sem á sér stað um þessa blessuðu Verslunarmannahelgi sé svo ólíkt því sem á sér stað í öllum bæjum og þorpum á landinu hverja einustu helgi. Fólk drekkur sig blindfullt og fer heim með einhverjum sem það þekkir ekki og sefur hjá án þess að vita í rauninni hverjum það er að sofa hjá og vaknar upp með móral og sjálfsvirðinguna í molum.
Fólk drepst áfengisdauða í partýum og vaknar upp eftir að hafa „óvart“ sofið hjá einhverjum. Ég er bara að spá hvort að línan sem er á milli þess sem á sér þarna stað og þess sem á sér stað á útihátíðunum sé ekki í mörgum tilfellum óskýr. Ég er bara að spá hvort að áfengisneyslan og þessi áfengisvædda kynlífshegðun sem er orðin viðtekin í samfélaginu –að „hözzla“ á djamminu- útskýri ekki upp að vissu marki það sem á sér stað þessa helgi (og aðrar). Það virðist vera allt í lagi að drekka sig blindfullan um Verslunarmannahelgina,-það má, en það er svo sannarlega ekki í lagi að nauðga eða vera nauðgað. Gerendurnir eru vondir og þolendurnir kærulausir (segir almenningsálit). Auðvitað er engin réttlæting fyrir nauðgun og auðvitað eru sumar aðstæður hættulegri en aðrar, -t.d. að vera áfengisdauður innan um fullt af fólki sem þú þekkir ekki, en ég held að ábyrgðarinnar beri líka að leita dýpra heldur en í því.
Ég spyr hvort það sé ekki eitthvað athugavert við samfélag þar sem fólk getur að stórum hluta ekki haft samskipti við hitt kynið án þess að vera undir áhrifum áfengis? Er ekki eitthvað mis í því að við lítum einfaldlega á kynlíf sem endi á góðu djammi? Er ekki eitthvað mis í því að við berum ekki meiri virðingu en það fyrir bæði sjálfum okkur og öðrum? Er ekki eitthvað bogið við að þess háttar samkipti séu almennt viðurkennd?
Mér finnst það, og ég held að fjöldi nauðgana, vægir kynferðisafbrotadómar og tregi kvenna til að tilkynna slík afbrot haldist í hendur við kærulaust viðhorf samfélagsins til áfengisvæddra samskipta kynjana.
Það liggur í augum uppi að þessu viðhorfi þarf að breyta, umræðan verður öðrum þræði að snúast um samfélagslega ábyrgð samfara þeirri ábyrgð sem við berum á okkur sjálfum og hvert öðru.