Jafnaðarstefnan er mjög skýr hugmyndafræði, þó að hægrikratar séu oft langt frá því að vera með skýra stefnu og sýn á þjóðfélagið og ríkisvaldið. Vonandi munu þeir þó einhvern tíman staldra við og rifja upp um hvað það snýst að vera frjálslyndur jafnaðarmaður. Í augum frjálshyggjumanna er frelsi mjög auðskilgreinanlegt hugtak. Þeir líta á frelsið og ríkisafskipti sem tvo andstæða póla sem takmarkast ætíð hvor af öðrum og hið eina sannarlega frelsi í þeirra huga er frelsi undan ríkisvaldinu. Við frjálslyndir jafnaðarmenn tökum undir þetta á ýmsum sviðum, en þó ekki á öllum. Einstaklingar eiga að fá að vera frjálsir til orða og athafna, en það er tómt mál að tala um frelsi fólks ef það hefur ekki um leið tækifæri. Á þeim sviðum sem við viljum beita ríkisvaldinu er það einmitt til þess að veita fólki frelsi frá fátækt, mismunun og misrétti auk þess að veita fólki jöfn tækifæri til að njóta menntunar og heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Við sjáum ekki að kapítalisminn geri okkur öll skilyrðislaust frjáls og tökum því sjaldnast undir þá skoðun hægrimanna að þeir séu boðberar frelsis ólíkt okkur vinstrimönnum.
Hitt er aftur á móti gagnrýniverðara þegar hægrimenn eru svo blindaðir af trú sinni á eigin frelsisstyttur að þeir afneita öllum öfgum á hægrivængnum og reyna að klína þeim yfir á vinstrivæng stjórnmálanna. Oft sér maður hægrimenn halda því fram á hinum ýmsu miðlum að nasistaflokkur Hitlers og nútíma hægriöfgaflokkar í Evrópu og víðar hljóti að vera vinstriflokkar sökum ófrelsis og forræðishyggju sem þeir boða, rétt eins og þeir geri sér ekki grein fyrir því að þjóðerniskennd þeirra og íhaldssemi geti farið í öfgar og bitnað á frelsi innflytjenda og kvenfrelsi svo dæmi séu tekin. Því þótt það geti farið saman að vera hægrisinnaður og frjálslyndur þá er samt ekkert sjálfkrafa samasemmerki þar á milli.
Eins mikið og þessi einfeldnislega skilgreining á frelsi og blinda trú á frelsisboðun hægrimanna er ámælisverð, þá er í mínum augum enn verra að sjá ,,svokallaða” jafnaðarmenn svo snortna af boðskap þessara hægrisinnuðu frelsisfrömuða, að þeir fara að trúa því að þeir geti ekki kallað sig frjálslynda nema þeir séu um leið hægrisinnaðir. Hægrikratar þess ágæta flokks sem ég er skráð í og hef kosið frá árinu 1999 fá mig stundum til að staldra við og efast um að ég sé í alvöru að styðja þá stefnu sem ég aðhyllist sjálf, sem er jafnaðarstefnan. Hvort sem þeir eru svo snortnir af kraftmiklum áróðri hægrimanna eða undir áhrifum hins ömurlega ,,New Labour” flokks Tonys Blairs í Bretlandi þá verður að segjast að þeirra stefna gengur oft þvert gegn markmiðum jafnaðarstefnunnar. Þeir blaðra gjarnan um gildi þess að markaðsvæða meira og minna allt velferðarkerfið með manni og mús og skreyta mál sitt með orðum eins og ,,einkarekstri” og ,,einkavæðingu” svona eins og til þess að friðþægja frelsisstytturnar á hægrivængnum. Því miður hefur hægrimönnum og hægrikrötum tekist allt of vel að láta umræðuna um frjálslyndi og einstaklingsfrelsi snúast um að markaðurinn leysi flest vandamál og alltaf skuli þeir sem meira hafa vera fyrstir að veisluborðinu áður en hinir fá. Þess vegna fáum við vinstrimenn þann stimpil á okkur að vera leiðindapúkar sem viljum hefta frelsið, þegar við erum í raun að halda því fram að ójöfnuðurinn, einkavæðingin og markaðshyggjan séu óvinir frelsisins.
Jafnaðarstefnan er mjög skýr hugmyndafræði, þó að hægrikratar séu oft langt frá því að vera með skýra stefnu og sýn á þjóðfélagið og ríkisvaldið. Vonandi munu þeir þó einhvern tímann staldra við og rifja upp um hvað það snýst að vera frjálslyndur jafnaðarmaður.