Eiginhagsmunagæsla framsóknarmanna fyrr og nú

sjavarutvegur2PISTILL Framsóknarmenn eru litlir eftirbátar Sjálfstæðismanna þegar kemur að því að verja eiginhagsmuni þröngs hóps kvótahafa. sjavarutvegur2PISTILL Framsóknarmenn eru litlir eftirbátar Sjálfstæðismanna þegar kemur að því að verja eiginhagsmuni þröngs hóps kvótahafa. Allt frá því á tímum Halldórs Ásgrímssonar hafa Framsóknarmenn staðið vaktina, en setning kvótakerfisins í núverandi mynd var sem kunnugt er helsta kappsmál Halldórs sem var þáverandi sjávarútvegsráðherra og „móðir hans“ var útgerðarmaður. Í ævisögu Steingríms Hermannssonar sagði Steingrímur sér hafa verið það ljóst að af frumvarpinu til laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 myndi leiða byggðaröskun sem afleiðing af frjálsa framsalinu. Var hann ákveðinn í að breytingar yrðu gerðar á frumvarpinu og tilkynnti Halldóri um það. Halldór var óánægður með þessa afstöðu Steingríms. Halldór sagði að smærri plássin sem neyddust til þess að selja kvóta frá sér gætu einfaldlega keypt hann til baka þegar betur áraði! Sagði Steingrímur að kvótakerfið væri nær alfarið smíð LÍÚ, en Hallóri var málið löngu runnið í merg og bein. Tók Halldór málið persónulega og rauk út af fundi þar sem reynt var að fá hann til að fallast á tilslakanir í málinu. Rétt fyrir þinglok náðist loksins að neyða Halldór til þess að fallast á breytingu sem Aþýðuflokkurinn setti fram, en án hennar hefði Halldóri og félögum hans í LÍÚ tekist að festa eignarrétt manna yfir aflaheimildum líkt og ætlunin var. Breytingin fólst í að bætt var þriðja málsliðnum við 1. gr. laga um stjórn fiskveiða sem hljómar svo:

„Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Hefði þetta ákvæði ekki verið sett inn í lög um stjórn fiskveiða hefðu aflaheimildirnar verið í óafturkallanlegri eigu útgerðarmannanna og þær þannig verið varðar af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Steingrímur sér þó eftir að hafa ekki gengið lengra í andstöðu sinni við frjálsa framsalið og þær afleiðingar sem það hefur leitt af sér. Í síðasta bindi ævisögu hans segir Steingrímur: „Þegar ég hugsa til þess hvernig kvótakerfið hefur leikið margar blómlegustu byggðir landsins iðrast ég þess helst að hafa ekki barist af meiri hörku fyrir breyttu fiskveiðistjórnunarkerfi.“ Þá sagði Steingrímur jafnframt um afleiðingar hins frjálsa framsals: „Enginn sá hins vegar fyllilega fyrir hinar alvarlegu afleiðingar þess. Nú þegar þær eru komnar fram þarf að hafa kjark til að horfast í augu við þær og leita leiða til lagfæringa, þótt seint sé.“ Þetta mættu aðrir Framsóknarmenn taka sér til fyrirmyndar, enda virðast þeir, ekki frekar en Sjálfstæðismenn, hafa heyrt af því hverjar afleiðingar þessa kerfis hafa orðið.

Er Halldór enn á bak við tjöldin?

Gunnar Bragi Sveinsson sem skipar fyrsta sæti Framsóknarflokks í NV-kjördæmi fer ekki í felur með þá skoðun sína að hann vill slá skjaldborg um kvótakerfið. Hann telur það vera ljóst að byggja eigi áfram á því kerfi sem nú er við lýði og hefur reynst okkur svo vel! Gunnar Bragi vill að þeim sem keypt hafa aflahlutdeildir í kerfinu verði greiddar fullar bætur úr vasa skattgreiðenda vegna þeirra heimilda sem teknar verða til baka samkvæmt tillögum Samfylkingarinnar. Þetta vill hann þrátt fyrir að það hafi verið skýrt í lögum um stjórn fiskveiða (3. málsl. 1. gr.) frá byrjun að aflaheimildirnar myndi ekki eignarréttindi. Tillögur Samfylkingarinnar miða raunar að því að taka tillit til þessara aðila með mjög sanngjörnum hætti á þann hátt að heimildirnar verða teknar til baka á að hámarki 20 árum.

Tilraun til að ræna sameign þjóðarinnar?

Á 135. löggjafarþingi (2007-2008) gerðu Framsóknarmenn svo „heiðarlega“ tilraun til þess að skilgreina eignarhaldið á kvótanum þannig að hann teldist eign handhafanna og væri þar með varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Lögðu þingmenn flokksins fram frumvarp til stjórnskipunarlaga (stjórnarskrárbreytingar) undir þeirri yfirskrift að náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti væru þjóðareign. Það er vissulega eitthvað sem stærstur hluti þjóðarinnar vill sjá gerast. Hins vegar var ekki allt sem sýndist, enda stóð í athugasemdum við frumvarpið:

„Rétt er að leggja áherslu á það, til þess að fyrirbyggja misskilning, að með samþykkt þessa frumvarps yrði ekki hróflað við stjórnarskrárvörðum eignarrétti eða atvinnuréttindum þeirra sem öðlast hafa slík réttindi nú þegar á grundvelli 1. mgr. 72. gr. og 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Þvert á móti yrði því slegið föstu, svo sem fram kemur í 3. málsl. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins, að þegar fengin heimild til afnota eða nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum í þjóðareign teldist til óbeinna eignarréttinda sem njóta verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar eins og hver önnur eignarréttindi.“

Sem betur fer var þetta frumvarp ekki samþykkt, enda hefðu aflaheimildirnar með því endanlega verið færðar sægreifunum til eignar! Sumir hafa haldið því fram að þarna hafi verið gerð ein bíræfnasta tilraun til þess að ræna þjóðina sem gerð hefur verið á Íslandi fyrir opnum tjöldum. Og af nægu er þó að taka.

Lokabardaginn um kvótann

Hinu óréttláta kvótakerfi verður ekki breytt ef Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn fá einhverju um það ráðið. Þessi öfl munu aldrei láta af tilraunum sínum til að tryggja hagsmunaöflum eignarrétt yfir auðlindunum, þar er ég ekki eingöngu að tala um sjávarauðlindina. Ég biðla til stuðningsmanna þessara flokka, sem og annarra, sem eru á móti hinu gríðarlega ósanngjarna kvótakerfi að gefa Samfylkingunni tækifæri til þess að koma á þessum breytingum að afloknum kosningum. Það er ólíklegt að annað tækifæri gefist til þess. Lokabardaginn er framundan. Hlustum ekki á hræðsluáróður hagsmunaafla sem hugsa fyrst og fremst um eigin hagsmuni og sjáum til þess að íslenska þjóðin, en ekki einkaaðilar, standi uppi sem eigandi auðlindanna til allrar framtíðar!

Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur, skipar fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand