Afsal auðlindanna kemur ekki til greina!

european-union-flag

Það sem er einna merkilegast er að flestir þeirra sem tala harðast gegn ESB aðild eru að verja margvíslega sérhagsmuni. Þeir sem tala fyrir ESB aðild gera það í nafni þjóðarhags!

european-union-flag

Umræðan um aðild að Evrópusambandinu hefur verið á slíkum villigötum að manni fallast stundum hendur þegar reyndir stjórnmálamenn halda því fram í viðtalsþáttum að með aðild að ESB muni Íslendingar sjálfkrafa afsala sér auðlindum sínum. Þetta er vitaskuld þvílík endemis firra. Það virðist hafa verið sama hversu oft við í Samfylkingunni höfum bent á þessa staðreynd, alltaf halda sömu aðilarnir sig við þessa makalausu fullyrðingu. Hef ég velt því fyrir mér hvort það geti verið að það sé vegna vanþekkingar? Já, ég hef velt því fyrir mér, en niðurstaðan er sú að það hljóti að vera lífsins ómögulegt að margir af þeim aðilum sem halda þessu fram hafi ekki kynnt sér staðreyndir málsins. Því hlýtur að vera um hræðsluáróður þeirra fyrir hönd LÍÚ að ræða, enda virðast öll önnur samtök atvinnulífsins (að bændaforystunni undanskilinni) vera sammála um að aðild að ESB sé lífsnauðsyn fyrir Ísland.

Annað og stærra hrun í vændum?

Benedikt Jóhannesson, góður og gegn Sjálfstæðismaður, skrifaði grein í Morgunblaðið þann 16. apríl síðastliðinn þar sem hann lýsir hrikalegum afleiðingum þess ef Ísland sækir ekki um aðild að ESB. Spáir hann því að verði það ekki gert munum við horfa fram á „seinna hrun“ sem mun verða mun afdrifaríkara en það fyrra. Bjarni Benediktsson og eiginhagsmunabandalag hans eru því ákveðin í því að leiða okkur blindandi inn í næsta hrun. Eiginhagsmunir eru alltaf ofar þjóðarhagsmunum hjá Sjálfstæðisflokknum. Ein stærsta ástæðan fyrir því að Bjarni og félagar hans eru reiðubúnir að gambla með framtíð þjóðarinnar er að núverandi einkaréttarhafar að auðlindum landsins vilja ríghalda í þann einkarétt sinn og forréttindi umfram aðra landsmenn. Ef það tekst (sem ég tel afar ólíklegt) að reisa við efnahag Íslands eftir fáránlegum tillögum Sjálfstæðismanna þá geta þeir endurreist hér samfélag misskiptingar og óréttlætis. Nú sjá þeir fram á byltingu og að við munum reisa hér jafnaðarmannasamfélag að norrænni fyrirmynd. Slíkt hugnast vitanlega ekki þeim sem standa í innsta hring Sjálfstæðisflokksins.

Hræðsluáróður notaður sem vopn
Besta vopn Sjálfstæðismanna til að viðhalda tangarhaldi sínu yfir verðmætum landsins er hræðsluáróður. Hluti af því er að telja almenningi í landinu trú um að ef við göngum í ESB munum við afsala okkur auðlindum okkar. Þetta er vitaskuld argasta firra, enda myndi ekki einn einasti Samfylkingarmaður bjóða þjóðinni upp á slíka kosti. Það hefur alltaf verið takmark Samfylkingarinnar að ganga í ESB, en það hefur einnig verið skýrt frá byrjun að það mun ekki verða gert fyrir hvaða gjald sem er. Stefna Samfylkingarinnar er að ganga til aðildarviðræðna við ESB með skýr markmið er varða landbúnað og sjávarútveg. Þau markmið myndu ganga út á að vernda þessar greinar og yfirráð Íslands yfir þeim, sem og öðrum auðlindum landsins. Ég þekki raunar ekki einn Samfylkingarmann sem myndi leggja aðildarsamning fyrir þjóðina sem ekki fæli í sér að full yfirráð Íslands yfir auðlindunum væru tryggð. Ef samningsmarkmið Íslands í slíkum viðræðum myndu nást þá yrði samningurinn lagður fyrir þjóðina til samþykkis eða synjunar. Sú mýta að Samfylkingin ætli að „troða“ þjóðinni inn í ESB á því alls ekki við rök að styðjast. Þjóðin mun að sjálfsögðu ráða.

Sérhagsmuni eða þjóðarhag?

Við höfum allt að vinna með því að ganga til viðræðna við ESB, enda höfum við ekki marga aðra kosti líkt og Benedikt Jóhannesson bendir á í grein sinni. Það sem er einna merkilegast er að flestir þeirra sem tala harðast gegn ESB aðild eru að verja margvíslega sérhagsmuni. Þeir sem tala fyrir ESB aðild, líkt og Benedikt, gera það í nafni þjóðarhags! Og gleymið ekki að afsal auðlindanna okkar kemur einfaldlega ekki til greina! Því höfum við ekkert að óttast.

Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur, skipar fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi. www.thordurmar.blog.is

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið