Í lok október voru kappræður milli UJ og SUS í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna. Hreyfingarnar tvær fylktu sér bak við sitt hvorn frambjóðandann. Við töluðum máli Kerry og SUSarar vildu sjá meira af því sama, áfram Bush! Í lok október voru kappræður milli UJ og SUS í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna. Hreyfingarnar tvær fylktu sér bak við sitt hvorn frambjóðandann. Við töluðum máli Kerry og SUSarar vildu sjá meira af því sama, áfram Bush!
Í þessum kappræðum talaði fulltrúi okkar, Einar Örn, m.a. um frammistöðu Bush í efnahagsmálum. Þá staðreynd að nú séu 4 milljónir fleiri Bandaríkjamanna án heilbrigðistrygginga en fyrir fjórum árum. Að 1,6 milljón störf hafi tapast í einkageiranum (eitthvað sem hefur ekki gerst síðan í kreppunni miklu) og að fjórum milljónum fleiri Bandaríkjamenn búi nú við fátækt en fyrir fjórum árum.
En hvað þýðir þetta í raun? Þetta eru náttúrlega þessar venjulegu heimsendaspár vinstri manna –er þaggi? Þetta hlýtur nú allt að lagast bara ef hinir últra-ríku fá aðeins fleiri skattalækkanir?
Það er sjálfsagt ekki hægt að gefa einhlíta skýringu á því hvað sé að gerast hér en nú þegar maður er búinn að ferðast í nokkra daga um Florida-fylki fer þessi tölfræði að fá sig öllu mannlegri og sorglegri blæ.
Hér í Orlando, þaðan sem þessi pistill er skrifaður, verður maður var við mikið af tómum verslunarrýmum í ,,mollunum” og nokkuð af útigangsfólki. Það er fremur sorglegt að ráfa um fámennar verslunarmiðstöðvar þar sem annað hvert verslunarrými er lokað, myrkvaðir gluggar eða stálgirðing mætir vegfaranda, líkt og ráfað sé um vafasamt öngstræti seint að kvöldlagi. Og í þeim búðum sem enn eru opnar ræðst starfsfólkið á mann líkt og hrægammar. Viðskiptavinurinn upplifir sig sem geirfugl í miðri Sahara (greinarhöfundur leitar eftir betri samlíkingu.)
Á sumardvalarstaðnum Daytona, þar sem ég var um helgina, var stemmingin fremur róleg. Um þessar mundir eru menn oftast að búa sig undir ferðamannatíðina og Daytona 500 kappaksturinn 20. febrúar.
Í stað þess að keyra í gegnum bæ sem er að skríða úr vetrarhíðinu voru þar aðallega búðar- og hóteleigendur að byrgja glugga og yfirgefa svæðið. Og nei, það tengist ekki fellibyljum. Í Orlando eru milli 20 og 30 þúsund fleiri atvinnulausir en í byrjun árs 2001 og ástandið öllu verra í Daytona.
Og þar sem maður er nú staddur í miðju fylkinu sem Jeb Bush stýrir, í landinu sem bróðir Bush stýrir, getur maður ekki annað en velt fyrir sér hvað kjósendur hér séu að pæla? Fyrir um þrem mánuðum síðan hafði fólk hér tækifæri til að breyta fengnum hlut. Úrslitin í Florida höfðu í raun sömu úrslitaáhrif og árið 2000. Ef Kerry hefði sigrað í Florida og fengið kjörmennina 27 væri hann nú forseti landsins.
Reyndar er hræðilegasta tölfræðin yfir þá sem ákváðu að neyta ekki atkvæðisréttar, sitja heima og gefa skít í þetta allt. Á landsvísu voru um 100 milljónir sem slepptu því að kjósa á meðan um 116 milljónir kusu annaðhvort Bush eða Kerry.
Það er því ekki nema vona að maður spyrji hvað fólk hér sé að pæla?