… ég er fylgjandi framboði okkar til Öryggisráðsins. Það er ekki einungis skylda okkar sem smáþjóðar að taka próaktívan þátt í alþjóðasamstarfi, heldur nauðsyn. Landið er í hraðri endurmótun, útrás íslenskra fyrirtæka og endurskilgrining leiðandi efnahagsþátta gerir alþjóðasamstarf og –samskipti að sífellt mikilvægari tækjum í stjórnun þjóðarskútunnar. En það má vissulega skoða leiðir til draga úr þeim kostnaði sem framboðinu fylgir (þar er ég sammála Geir). Er það þannig með okkur Íslendinga að við erum einungis viljug að taka þátt í alþjóðasamstarfi ef það kostar ekki neitt –eða því sem næst? Allavega ef mark er takandi á nýrri skoðanakönnun sem sýnir að milli 50-60% þjóðarinnar eru andvíg framboði okkar til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og um 27% fylgjandi.
Verður megininntak utanríkisstefnu okkar í framtíðinni: Verum með, gerum góðan díl, borgum ekki rassgat. Alþjóðasamstarf á spott-prís!
Og SUS sannar mál mitt með að álykta gegn framboðinu á landsþingi sínu nú um helgina, að því er virtist einungis á grundvelli kostnaðar.
Það verður því fróðlegt að fylgjast með þeim stjúpfeðgum Geir Haarde, verðandi formanni Sjálfstæðisflokksins og Borgari Þór Einarssyni, nýkjörnum formanni SUS, kýta um þessi mál á komandi vetri.
Ókeypis utanríkisþjónusta?
Það er merkilegt hvað við erum viljug að eyða óheyrilega miklum pening í algjöra þvælu (lesist: Kárahnjúkafíaskó og jarðgöng milli allra bóndabæja á landinu) en breytumst svo í Jóakim aðalönd þegar hagsmunagæsla þjóðarinnar erlendis á í hlut.
Erum við virkilega svo grunnhyggin að við teljum hagsmunum okkar einungis borgið innan alþjóðastofnana eins og SÞ á meðan við þurfum ekki að kosta neinu til? Eða leggja af mörkum?
Hefðum við samþykkt EES saminginn á sínum tíma ef hann hefði ,,kostað” okkur meira? Hefðum við viðhaldið honum síðustu ár ef Norðmenn hefðu ekki borgað um 90% kostnaðarins?
Hefðum við gengið í NATÓ ef við hefðum ekki fengið gratís flugvöll, Reykjanes- og Miklubraut? Hefði þá verið of ,,dýrt” að tryggja varnarhagsmuni þjóðarinnar á kaldastríðsárunum?
Já!
Allavega, ég er fylgjandi framboði okkar til Öryggisráðsins. Það er ekki einungis skylda okkar sem smáþjóðar að taka próaktívan þátt í alþjóðasamstarfi, heldur nauðsyn. Landið er í hraðri endurmótun, útrás íslenskra fyrirtæka og endurskilgrining leiðandi efnahagsþátta gerir alþjóðasamstarf og -samskipti að sífellt mikilvægari tækjum í stjórnun þjóðarskútunnar. En það má vissulega skoða leiðir til draga úr þeim kostnaði sem framboðinu fylgir (þar er ég sammála Geir).
Eftir að stjórnarherrarnir eru búnir að tala fyrir framboði á alþjóðavettvangi, s.s. meðal leiðtoga Norðurlandanna, og eftir að hafa fengið stuðning fjölda ríkja væri bæði óábyrgt og fíflalegt að falla frá framboðinu nú. Það myndi bæði rýra trúverðugleika íslenskra ráðamanna og þjóðarinnar almennt.
Við eigum að sækja fram í SÞ og sækja fram í NATÓ (og sækja um aðild að ESB!) Það er alkunn staðreynd að hagsmunum smáþjóða er betur borgið og gætt innan alþjóðastofnana. Við eigum því að draga úr óþarfa kostnaði tvíhliða utanríkisþjónustu, s.s. fækkun sendiráða og -ráðunauta og nýta þann pening sem þar sparast til að efla styrk okkar í alþjóðastofnunum.
Þjóð eins og Ísland, sem er með þeim menntuðustu og ríkustu í heimi, á ekki að láta það spyrjast að hún tími ekki að taka sæti í stjórn þessarar mikilvægustu alþjóðastofnunar heimsins.