Í viðtali við Viðskiptablaðið í gær fer Davíð Oddsson með tómar fleipur. Hann segir ekki satt. Þetta er ekki fyrsta sinn sem hann segir þjóðinni ósatt. En nú er farið að bera í bakkafullan lækinn með þennan blessaða mann að mínu mati. Hann er allt of sjaldan leiðréttur eða krafinn raka sem er að sjálfsögðu alvarlegt mál þegar að um er að ræða mann sem gegnir jafn mikilvægri trúnaðarstöðu. Forsætisráðherra hefur komið sér upp tjáningarstíl sem byggist á að skrumskæla sannleikann og bera hann á borð fyrir þjóðina með skætingi, hroka og yfirlæti. Stundum gengur hann alla leið og lýgur blákalt. Þetta sýnist mér liggja ljóst fyrir og ætla ég hér að nefna nokkur dæmi máli mínu til stuðnings. Í viðtali við Viðskiptablaðið í gær fer Davíð Oddsson með tómar fleipur. Hann segir ekki satt. Þetta er ekki fyrsta sinn sem hann segir þjóðinni ósatt. En nú er farið að bera í bakkafullan lækinn með þennan blessaða mann að mínu mati. Hann er allt of sjaldan leiðréttur eða krafinn raka sem er að sjálfsögðu alvarlegt mál þegar að um er að ræða mann sem gegnir jafn mikilvægri trúnaðarstöðu. Forsætisráðherra hefur komið sér upp tjáningarstíl sem byggist á að skrumskæla sannleikann og bera hann á borð fyrir þjóðina með skætingi, hroka og yfirlæti. Stundum gengur hann alla leið og lýgur blákalt. Þetta sýnist mér liggja ljóst fyrir og ætla ég hér að nefna nokkur dæmi máli mínu til stuðnings.
Hagræðir sannleikanum í viðtali við Viðskiptablaðið
Davíð segir t.d. ekki rétt frá þegar hann segir í viðtali við Viðskiptablaðið að mikill efi leiki á því hvort Forseti Íslands hafi rétt til að vísa lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann segir ekki rétt frá þegar að hann segist vera yfir forsetann settur í þeim efnum. Ekki er það heldur rétt, sem Davíð heldur fram í þessu sama viðtali, að sú staða gæti komið upp að ef þátttaka í atkvæðagreiðslunni yrði aðeins 10% og ef rúm 5% segðu nei þá þýddi það að þetta sama lága hlutfall þjóðarinnar yrði þá til að kollvarpa lögum sem notið hefðu tilstyrks þings sem 85% þjóðarinnar hefði kosið. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Minna atkvæðamagn er á bakvið þá þingmenn sem sögðu já en hina sem gerðu það ekki. Líklega eru aðeins rúm 40% atkvæða þjóðarinnar á bakvið þá sem greiddu ritskoðunarlögunum atkvæði. Og miklum mun minna ef aðeins eru talin atkvæðin á bakvið þá þingmenn sem greiddu atkvæði með frumvarpinu samkvæmt eigin sannfæringu.
Rökþrot Davíðs ber vott um örvæntingu
Að Davíð skuli yfirleitt nefna slíkar lágar tölur sem dæmi um líklega þátttöku í fyrstu þjóðaratkvæðisgreiðslu sem farið hefur fram hér í tæp 60 ár er náttúrulega út í hött. Ekki síst þegar kannanir hafa sýnt að þorri þjóðarinnar er andvígur frumvarpinu samkvæmt skoðanakönnunum. Svona hugarleikfimi og útúrsnúningar er auðvitað ekkert nema alvarleg afbökun á sannleikanum.
Könnun sem ætlað er að varpa ryki í augu fólks
Nú segjast Sjálfstæðismenn vera komnir með aðra könnun sem sýni að lítið eða ekkert sé að marka andstöðu þjóðarinnar við ritskoðunarfrumvarp Davíðs Oddssonar.
En tökum þá fyrri þessa furðulegu skoðanakönnun sem pöntuð var að Vefþjóðviljanum, vefritinu fúllynda sem þykist vera á móti frumvarpinu en gerir allt til að láta líta út fyrir að enginn sé á móti því. Ekki er annað hægt að sjá af basli þeirra við að sýna fram á að andstaða þjóðarinnar við frumvarpið hljóti að vera óupplýst. Slík aum og gervileg andstaða við mál sem menn hljóta að telja að stríði í bága við hugsjónir sínar , sé e-ð að marka fyrri yfirlýsingar, er í raun kapítuli út af fyrir sig. En geymum það aðeins og skoðum hvernig þessi pantaða könnun sem Davíð Oddsson vitnar til var sett upp. Spurt var þriggja spurninga:
Fyrsta villandi spurningin
„Ert þú fylgjandi eða andvíg/ur því að fyrirtæki sem talin eru markaðsráðandi, til dæmis olíufélög, tryggingafélög eða matvörukeðjur, megi eiga ráðandi hlut í fjölmiðlum sem reka fréttastofur.“
Hvers konar spurning er þetta eiginlega? Mér sýnist augljóst að tilgangurinn með því að nefna þarna matvörukeðjur, tryggingarfélög og olíufélög í miðri spurningunni sé að hafa með því skekkjandi áhrif á svör fólks. Afhverju er annars verið að nefna ákveðna geira sem hlotið hafa afar neikvæða umfjöllun á undarförnum misserum og sem hið opinbera hefur verið að rannsaka hvort brotið hafi af sér. Ekki er minnst sérstaklega á þessa geira í lögunum umtöluðu. Aðeins er talað um markaðsráðandi fyrirtæki. Og hver er tilgangurinn með því að nefna sérstaklega fjölmiðla sem reka fréttastofur? Það virðist einnig einungis vera gert til að auka líkurnar á því að menn svari neitandi því ekki er gert upp á milli fjölmiðla hvað þetta varðar í ritskoðunarlögunum. Fyrir utan það þá fjallar þessi spurning alls ekki um það sem andstaða þjóðarinnar snýst um. Andstaðan snýst ekki um umræðuna um það hvort hægt sé að setja leikreglur sem tryggja eigi sjálfstæði fréttastofa og fjölbreytileika á fjölmiðlamarkaði. Andstaða þjóðarinnar er við illa dulbúin tilgang forsætisráðherra að ritskoða skoðanir andstæðar sínum eigin og koma höggi á ímyndaða eða raunverulega andstæðinga sína. Afhverju spurðu menn ekki um það? Þá hefðu þeir fengið sömu tölur og aðrir sem kannað hafa þá afstöðu þjóðarinnar sem skiptir hér máli. Andstöðu hennar við ÞETTA frumvarp, og það með hvaða hætti það er sett fram af forsætisráðherra.
Önnur villandi spurningin
„Hversu vel eða illa hefur þú kynnt þér fyrirliggjandi fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar?“
Rúmlega 45% segjast hafa kynnt sér sjálft fjölmiðlafrumvarpið frekar illa eða mjög illa samkvæmt niðurstöðum pantaðrar könnunar Vefþjóðviljans. Davíð Oddsson og meðreiðarsveinar hans hafa haldið þessari niðurstöðu á lofti eins og hún sé stórmerkileg og leiði í ljós einhvern sannleika. Því fer víðs fjarri. Fólk hefur séð bræðisköst forsætisráðherra í sjónvarpsviðtölum. Það skynjar einbeitt hatur Davíðs á Jóni Ásgeiri. Landsmenn þurfa ekki að kynnast haturshugverkum Davíðs nánar en það til að mynda sér afstöðu.
Er Davíð eins og skipið Titanic sem siglir að óþörfu á ísjakann Baug? – vill Jón Ásgeir kannski bara fá að vera í friði?
Jón Ásgeir sem Davíð ku hata svo heitt virðist vera almennt vel þokkaður meðal almennings samkvæmt því sem kom fram í viðtölum við 10-15 manns sem valdir voru af handahófi í miðbæ Reykjavíkur og spurðir álits á manninum. Hver einn og einasti sem þarna var spurður af Sigmundi Erni á Skjá einum talaði um Jón Ásgeir sem duglegan og kláran bissnessmann. Sjálfsagt hafa þessir álitsgjafar götunnar ekki hitt Jón Ásgeir í eigin persónu frekar en sá sem þetta skrifar enda skilst manni að hann sé meira og minna í útlöndum og að árásir forsætisráðherra á fyrirtækisins sé ein af ástæðum þess að Baugur sé að fara í auknum mæli úr landi með fé sitt og fjárfestingar. Ekki þurftum við nú á því að halda í þessu landi þar sem ríki og sveitarfélög auka í sífellu fjárfestingar sínar og umsvif á kostnað einkageirans. Ríkið sem hefur meira en tvöfaldast í umsvifum í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar gerist sífellt frekara til fjársins og skattalækkanir sem lofað var fyrir kosningar hafa breyst í skattahækkanir eftir kosningar. Það væri kannski þess virði að kanna hversu vel eða illa fólk hafi kynnt sér efndir ríkisstjórnarflokkana á kosningaloforðum sínum.
Mögulegar ástæður þess að hafa ekki áhuga á kynna sér ritskoðunarfrumvarpið nánar en hægt er að gera með því að fylgjast með fjölmiðlum
Ég skil vel þessi fjörtíu og eitthvað prósent sem ekki hafa lagt sig eftir því að kynna sér þennan óskapnað sem ritskoðunarfrumvarp Davíðs Oddssonar. Sjálfsagt hefur þeim hluta af þessum rúmu 45% sem sögðust hafa kynnt sér frumvarpið illa eða frekar illa en eru samt andvígir lagasetningunni þótt nóg að heyra Davíð í sjónvarpsviðtölum réttlæta lögin með gífuryrðum, atvinnuróg og dylgjum um þorra íslenskra blaðamanna. Kannski finnst þeim hann bara ekki sannfærandi í hlutverki fórnarlambsins, maður sem þekktur er fyrir að lítillækka og atyrða andstæðinga sína. Kannski þarf ekki langan lestur á Lögbirtingablaðinu eða Alþingisvefnum til að skilja fyrr en skellur í tönnum. Að skynja þegar fiskur liggur undir steini. Að Davíð þoli ekki gagnrýni og telji sig umkomin að reyna að drepa hana niður með beitingu ríkisvaldsins.
Þriðja spurningin er svo sem ekki villandi
„Ef gengið yrði til alþingiskosninga á morgun, hvaða flokk myndir þú kjósa?“
Útkoman úr þriðju spurningunni í könnun Vefþjóðviljans sýnir hvernig kvarnast sífellt meira úr fastafylgi Sjálfstæðisflokksins. Hann er hér kominn niður í 30% sem hlýtur að teljast sterk vísbending um það hvernig kjósendum hans líður gagnvart þeim aðgerðum sem forystan stendur nú fyrir. Afstaða forystunnar með ritskoðunartilburðum Davíðs gefur því miður ekki til kynna að nokkur þar inanborðs hafi það sjálfstæði eða kjark til að storka foringjanum. Vonin um að formanninum verði velt úr sessi er því sjálfsagt enn harla veik. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins þurfa þó ekki að örvænta því valdníðsla formannsins mun án efa halda áfram að draga flokkinn niður í fylgi ef hann fer ekki frá. Kannski er hér loks von um að flokkurinn detti niður í það fylgi sem hæfir stefnu hans en það er að vera 15-20% hægri íhaldsflokkur líkt og þeir eru yfirleitt á Norðurlöndunum.
Andfúla Andríki
Skrýtið þetta vefrit sem í senn reynir með nafngiftinni að sverta minningu þess ágæta blaðs Þjóðviljans og um leið einbeitir sér helst að því að særa fram drauga til að koma höggi á andstæðinga Sjálfstæðisflokksins, þegir þunnu hljóði þegar að formaður flokksins þverbrýtur allar kenningar og hugmyndafræði sem vefritið þykist annars vilja halda í heiðri. Pistlahöfundar Vefþjóðviljans hafa búið um sig í dýpstu skotgröf þjóðmálaumræðunnar og skjóta þaðan reglulega svo súrum fýlubombum að enginn nennir að lesa þær nema kannski ég og nokkrir aðrir sem erum hinum megin við víglínuna. Þeir sannfæra engan með skítkasti sínu og aðferðir þeirra eru í besta falli vafasamar. Heilsíðuauglýsingar sem birtar voru í nafni vefritsins fyrir síðustu kosningar voru eitt það lúalegasta vopnabragð sem sést hefur í kosningabaráttu um langa hríð. Miðað við það hversu ósmekklegar árásirnar á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir voru í þessum auglýsingum þá töldu margir að þær væru fjármagnaðar af Sjálfstæðisflokknum sem vildi koma þeim á framfæri en hafi ekki þorað að fara fram með þær í eigin nafni og léti þessvegna hina vönu og jafnframt viljugu skítadreifara á Vefþjóðviljanum sjá um verknaðinn fyrir sig.
Eru ásakanir um áhrif á fréttaflutning sannar í tilfelli Ríkisútvarpsins en ekki Stöðvar 2?
Í grein sem síðan birtist í gær reynir pistlahöfundur Vefþjóðviljans að gera lítið úr könnun Rannsóknarþjónustu Háskólans á Akureyri á fréttaflutningi í fréttatímum Ríkisjónvarpsins og Stöðvar 2. Varla þarf að taka fram að fyrrnefndur rannsóknaraðili er einn sá virtasti á landinu og ekki er hægt að sjá annað en að allar forsendur og aðferðir við gerð skýrslunnar hafi verið gagnsæjar og gildar. Hitt er svo annað mál að málflutningur forsætisráðherra og ýmissa annarra sem tilheyra hirð hans gagnvart fjölmiðlum sem fjallað hafa um málið er auðvitað algjörlega út í hött. Engin haldbær rök eru fyrir því að fréttaflutningur af málinu sé á nokkurn hátt óeðlilegur. Auðvitað getur maður skilið að þeim gremjist að þjóðin kokgleypi ekki óskapnaðinn en ef maður sneri röksemdafærslu þeirri sem þeir beita einfaldlega við og velti því upp hvort ástæðan fyrir örlítið minni umfjöllun Ríkissjónvarpsins um málið en Stöðvar 2 séu pólitísk tök og inngrip ríkisstjórnarinnar á stofnuninni þá getur maður alveg eins fengið út að þjóðin sé ef til vill ekki að heyra nógu mikið um hversu hræðilegt þetta frumvarp er… frekar en of mikið.
Ég vil Davíð burt – valdníðslunni verður að linna
Í þessari grein hef ég að sönnu haft uppi stór orð um forsætisráðherra. En tilefnið er ærið. Allt of mörg dæmi eru um grófa misbeitingu hans á valdi sínu. Nú síðast með ritskoðunarlögunum skelfilegu sem hann hefur með sértækum hætti beint gegn meintum andstæðingum sínum. Það er grafalvarlegt mál að forsætisráðherra skuli leyfa sér slíkt. Ég mun því fljótlega fjalla hér á Pólitík.is frekar um þær fleipur sem Davíð Oddsson hefur farið með í þessu máli og öðrum og sem hann hefur leyft sér að bera á borð fyrir þjóðina.
Ekki veitir af að fara að tala upphátt um hvernig þessi maður hagar sér.