BYRGJUM BRUNNINN – Öflugri forvarnir

BYRGJUM BRUNNINN – Öflugri forvarnir Þegar talað er um forvarnastarf koma forvarnir við misnotkun fíkniefna eflaust strax upp í huga margra. En forvarnarstarf er miklu víðtækara; í því felast líka forvarnir gegn ótímabærri og óhóflegri áfengisnotkun, forvarnir gegn reykingum, einelti og ýmsum sjúkdómum, svo sem kynsjúkdómum og offitu.

Uppbyggileg áhugamál
Ungir jafnaðarmenn telja að eitt af því sem getur hvað best tryggt að börn stígi ekki ógæfuspor sé að þau finni farveg til að þroska og stunda jákvæð og uppbyggileg áhugamál. Þess vegna leggja Ungir jafnaðarmenn ofuráherslu á að hið opinbera greiði fyrir því að ungt fólk geti iðkað áhugamál sín. Í þessu sambandi vilja Ungir jafnaðarmenn að:

a) Nám í grunnskólum sé einstaklingsmiðaðra en er í dag þannig að krakkar fái að fara hraðar yfir og ljúka meira námsefni í þeim greinum sem þeir eru góðir í og hafa áhuga á.
b) Öllum börnum sé tryggður aðgangur að íþróttastarfi, tónlistarnámi, listsköpun, frístundaheimilum og annarri frístundaiðju, þeim að kostnaðarlausu, upp að tíu ára aldri. Kostnaði foreldra við slíka starfsemi verði stillt mjög í hóf eftir að þeim aldri er náð.
c) Að félagsmiðstöðvar og ungmennahús verði sem víðast um landið. Sveitarfélög verði skylduð með lögum til að bjóða ákveðna lágmarksþjónustu á þessu sviði, annaðhvort ein eða í samstarfi við önnur sveitarfélög. Gerðar verði faglegar kröfur til starfsmanna sem vinna í slíkum miðstöðvum. Ungir jafnaðarmenn leggja mikla áherslu á hraða og skjóta uppbyggingu í þessum málaflokki.

Forvarnir gegn reykingum, fíkniefnum og ótímabærri og óhóflegri áfengisneyslu
Markvisst forvarnarstarf gegn notkun fíkniefna, reykingum og ótímabærri og óhóflegri áfengisneyslu er liður í að koma í veg fyrir misnotkun og þá óhamingju sem af henni leiðir, til dæmis glæpi. Ungir jafnaðarmenn vilja:

a) Beita virkri og fjölbreyttri fræðslu, sem ekki verði byggð á einhliða hræðsluáróðri heldur sem mest á jafnræðisgrundvelli. Að ungmennum verði gerð ljós hversu meiri líffræðileg áhrif á þroska heila og annarra líffæra það hefur að byrja snemma á unglingsaldri að neyta eiturlyfja. Rannsóknir hafa einmitt sýnt að minni líkur eru á varanlegum skemmdum ef byrjað er síðar, t.d. um 18 – 20 ára aldur.
b) Að eftir að skyldunámi lýkur verði lögð mikil áhersla á að forvarnastarf nái til þess hóps ungmenna sem kominn er út á vinnumarkaðinn.
c) Að samstarf allra aðila sem starfa að málefnum ungs fólks á tilteknum svæðum verði stóraukið, svo sem skóla, félagsþjónustu, félagsmiðstöðva, ungmennahúsa, íþróttafélaga, lögreglu, trúfélaga o.s.frv.
d) Hvetja til þess að komið verði á samskiptareglum milli foreldra barna á sama svæði og foreldrar almennt virkjaðir til frekari þátttöku í tengslum við skóla og frístundir.
e) Að vinnan sem krakkar geta fengið hjá sveitarfélögum á sumrin (vinnuskólinn) verði gerð fjölbreytilegri og nýtt enn frekar sem vettvangur forvarnarstarfs en nú er.
f) Stórefla meðferðarúrræði fyrir ungt fólk og unglingaheimili. Til þess að ná því marki þarf að leita nýrra leiða til árangurs, meðal annars með því að skoða hvaða úrræði hafa gefist best erlendis, sem og styrkja það starf sem nú þegar er unnið.

Markvissar aðgerðir gegn kynsjúkdómum
Kynsjúkdómar og ótímabærar þunganir eru mikið vandamál í íslensku samfélagi. Ungir jafnaðarmenn telja að markvissar aðgerðir í þessum málaflokki geti aukið lífsgæði og sparað fjármuni, bæði hins opinbera og einstaklinga. Þess vegna leggja samtökin til:

a) Að hið opinbera greiði niður smokka.
b) Að aðgengi að getnaðarvörnum verði aukið, meðal annars með því að tryggja að þær verði seldar í sjálfsölum um land allt.
c) Að hvatt verði til þess að smokkum verði dreift ókeypis til framhaldsskólanema.
d) Að kynfræðsla í skólum á grunn- og framhaldsskólastigi og í félagsmiðstöðvum verði bætt og aukin og fólk sem sérstaklega hefur verið til þess menntað annist hana. Tryggja þarf aðgengi grunn- og framhaldsskólanema að skólahjúkrunarfræðingi eða sambærilegum fagaðila.

Samkvæmt lauslegri athugun sem Ungir jafnaðarmenn gerðu er algengt að smokkar séu seldir á 80 krónur stykkið og smokkapakkinn um og yfir þúsund krónur. Þetta verð telja samtökin alltof hátt og til þess fallið að draga úr áhuga ungs fólks á því að kaupa smokka. Þess vegna telja Ungir jafnaðarmenn skynsamlegt að ríkið niðurgreiði smokka þannig að þeir kosti ekki mikið meira en 30 krónur stykkið út úr búð. Einnig hvetja þeir til þess að hægt verði að kaupa smokka í stykkjatali sem víðast.

Aðgengi að smokkum er því miður alltof takmarkað. Bæði er það svo að margt ungt fólk þorir varla að kaupa slíka vöru ef hún er seld yfir búðarborð og eins er erfitt að nálgast smokkana að næturlagi. Þess vegna hvetja Ungir jafnaðarmenn til þess að smokkar verði seldir sem víðast um landið í sjálfsölum. Einnig hvetja samtökin eigendur veitinga- og skemmtistaða til að selja smokka eins og sumir eru þegar farnir að gera.

Mikilvægur liður í baráttunni gegn kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum er öflug kynfræðsla. Slík fræðsla þarf að fara fram reglulega, aðallega í efstu bekkjum grunnskóla, og að minnsta kosti hluta tímans þarf að skipta kynjunum upp. Kynfræðsla á að vera samstarfsverkefni skóla og félagsmiðstöðva og ekki á hendi bekkjarkennara. Meðal þess sem þarf að fjalla um í kynfræðslunni er hvernig á að nota getnaðarvarnir, þekkja einkenni kynsjúkdóma og hvert á að leita ef grunur leikur á um smit. Einnig þarf að vera fyrir hendi fræðsla á heilbrigðu viðhorfi til kynlífs sem mótvægi við þeirri klámvæðingu sem á sér stað.

Hristum af okkur slenið
Oft er talað um að ungt fólk neyti mikils ruslfæðis og sælgætis og hreyfi sig ekki nægilega mikið. Þetta geti leitt til ýmissa sjúkdóma á borð við offitu og sykursýki auk þess sem það dragi úr námsárangri og einbeitingu. Til að stuðla að betri heilsu ungs fólks vilja Ungir jafnaðarmenn að:

a) Góð mötuneyti sem bjóða hollan, næringarríkan og staðgóðan mat í hádeginu verði í öllum skólum: leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum. Hóflegt gjald verði greitt af hendi fyrir matinn.
b) Að meiri áhersla verði lögð á öflugt íþróttastarf en áður, til dæmis með því að tryggja að börn upp að tíu ára aldri þurfi ekki að borga æfingagjöld og gjöldunum sé stillt mjög í hóf fyrir eldri börn en það, sbr. kaflann hér að framan um uppbyggileg áhugamál.

Útrýmum einelti
Einelti er því miður landlægt vandamál og þekkist ekki einungis meðal barna og ungmenna heldur líka meðal fullorðinna. Afleiðingar þess geta verið skelfilegar og varanlegar. Markvissar forvarnir gegn einelti eru því nauðsynlegar og leggja Ungir jafnaðarmenn áherslu á markvisst forvarnastarf meðal nemenda og foreldra í grunnskólum og félagsmiðstöðvum í samvinnu við frjáls félagasamtök.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand