Byggjum á gegnsæi

Gegnsær vegur

Í þessum leiðara er farið gegnum þrjú atriði sem verður að hafa í huga við ákvarðanatöku um uppbyggingu íslensks samfélags. Gegnsæi og einfaldleiki er lykillinn að velgengni í starfi ríkisins, líkt og víðast hvar annars staðar.

Í endurreisnarstarfi Íslendinga verður að horfast í augu við gallana á samfélagi okkar. Þjóðarmein geta horfið manni sjónum í amstri dagsins, sérstaklega ef vel virðist ganga.
Mörg verkefni sem Samfylkingin hefur þó reynt að koma á kortið hafa ekki notið athygli enda ekki virst brýn á uppgangstímum. Nú eru þessi málefni brýn og nauðsynlegt að forysta Samfylkingarinnar missi ekki sjónar á þeim þótt starfsorkan fari að mestu í tiltektir.

1) Gegnsæ stjórnmál

Varla þarf að eyða mörgum orðum í rökstuðning við þetta atriði í kjölfar fjármálahneykslis Sjálfstæðisflokksins. En það er vert að hnykkja á því að Samfylkingin hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um fjármál stjórnmálaflokka við litlar undirtektir. Stjórnmálin hér á landi þarfnast einskis meira en að fólk treysti því að ákvarðanir séu teknar á heilbrigðum, óspilltum grundvelli.

2) Gegnsætt stjórnkerfi

Í tíð Samfylkingarinnar í R lista samstarfinu voru gerðar róttækar breytingar á öllu starfsumhverfi Reykjavíkurborgar. Þar sem áður þrifust spillt og óeðlileg viðskipti fyrir luktum dyrum urðu til fyrirmyndar starfshættir sem allir gátu skilið. Vendir félagshyggjuaflanna sópuðu kröftuglega út gamla rykinu, borgarbúum öllum til hagsbóta. Nú er átakanlega þörf á slíkri tiltekt í stjórnkerfi landsins. Matarholurnar eru að líkindum óþægilega margar eftir langdvalir Sjálfstæðisflokksins í ráðuneytum landsins. Þar nægir að nefna sem dæmi lýsingar skattstjóra á sinnuleysi ráðamanna við að sækja þá skatta sem þeim ber. Daglegur rekstur ríkisins og stofnana þess á að vera skýr og gegnsær.

3) Einfaldað stjórnkerfi

Það á að vera aðalsmerki Samfylkingarinnar við allar sínar ákvarðanir að búa til notendavænt kerfi. Það hentar sérlega vel sérstökum hagsmunum spillingaraflanna að búa til kerfi sem enginn skilur nema sá innmúraði. Því miður er margt í okkar samfélagi þessu marki brennt. Tvístruð umsjón ríkisins með fjármálakerfinu er eitt sorglegasta dæmi um þetta. Búið var til kerfi sem var svo flókið að kerfið skildi varla sjálft sig. Eitt merkilegasta framlag Davíðs Oddssonar til að leggja stein í götu almennings var að leggja af „one-stop-shop“ með upplýsingar um hagkerfið, Þjóðhagsstofnun. Víða eru til dæmi um hræðilega flókin og niðurlægjandi ferli í heilbrigðiskerfinu sem gera mætti manneskjulegri og um leið mun skilvirkari.

Einfaldara stjórnkerfi krefst yfirsýnar og vandaðra en um leið djarfra vinnubragða sem Samfylkingin hefur sýnt að hún á til, bæði í borgarstjórn og landsmálum.
Ekki er hægt að byggja upp nýtt og betra Ísland ef drifkrafturinn er hatur á því sem er í allra þágu, líkt og frjálshyggjan gerir. Til þess að taka að sér umbætur og uppbyggingu kerfisins þarf flokk sem nálgast sameignir þjóðarinnar af umhyggju og festu. Sá flokkur er Samfylkingin.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand