BUGL hvað? Sjálfstæðisflokkurinn kennir lélegum uppalendum um og boðar fyrirbyggjandi aðferðir

,,Sú staða sem nú er fyrir hendi á áðurnefndum stofnunum eru ekki einsdæmi í íslensku samfélagi, og allir gera sér grein fyrir því. Hitt er annað mál að vandinn er misstór í augum þingflokka. Guðlaugur Þór verður að gera sér grein fyrir því að ummæli hans voru ekki aðeins óviðeigandi, heldur til þess fallin að veikja trú okkar á því að áðurnefndur vandi sé tiltökumál í hans augum.” Segir Dagbjört Hákonardóttir í grein dagsins.

Biðlistar virðast ætla að tröllríða íslenska velferðarkerfinu þessa dagana. Virðist það sama gilda um Húð- og kyn, barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL), öldrunarheimili eða hárgreiðslustofuna mína – allt smekkfullt og ekki sér fyrir endann á biðinni. En hvað er til ráða?


Að mínu mati er tvennt í stöðunni:

  1. Kjósa Samfylkinguna þann 12. maí og fá sérfræðinga í útrýmingu biðlista í velferðargeiranum til valda.
  2. Fyrirbyggjandi aðferðir.


Augljóslega er kostur númer 1 vænlegri en sá seinni. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, virðist ekki vera á sama máli. Í kosningasjónvarpi Ríkissjónvarpsins í gærkvöld, lét hann allt tal um brýn úrræði fyrir börn á biðlistum sem vind um eyru þjóta. Virðist það sama eiga við um þau sem bíða eftir aðstoð frá BUGL eða greiningar- og rannsóknarstöð ríkisins. Í fljótu bragði mátti skilja orð hans á einn veg – biðlistavandann á að leysa með uppeldisnámskeiði.


Já, uppeldisnámskeiði.


Það er til skammar að þingmaður Sjálfstæðisflokksins skuli gera svo lítið úr þeim alvarlega vanda sem tugir, jafnvel hundruðir barna standa frammi fyrir í dag. Forgangsröðun, fjárskortur og rekstrarvandi velferðarkerfisins í boði ríkisstjórnarinnar er orsök þess vanda sem sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir, en ekki kunnáttuleysi foreldra barnanna sem eiga í hlut!


Til stuðnings máli sínu nefndi Guðlaugur það ágæta starf sem á víst að eiga sér stað í Reykjanesbæ og hefur gefið góða raun. Gott og vel – ekki skal gera lítið úr þessu frumkvæði sem á sér stað innan þess sveitarfélags og er eflaust til fyrirmyndar. En það veit sérhver maður að þessi samanburður er afar varhugaverður.


Ætlar Guðlaugur að fullyrða, að biðlistavandi BUGL leysist með tilkomu alhliða uppeldisnámskeiða fyrir foreldra á landsvísu, og það sama gildi um vanda greiningarstöðvar?


Einhversstaðar finnur maður lykt af patentlausnum. Þessi ummæli eru í raun grátbrosleg, og minna óneitanlega á fullyrðingar trúarofsamanna um ágæti afhommunarnámskeiða. Heldur maðurinn því virkilega fram, að lesblindu megi lækna með uppeldisnámskeiði? Hvað með sjálfsvígshneigð 10 ára barna – er þar uppeldistækni um að kenna? Hvað þá með misþroska, ofvirkni og athyglisbrest? Eru þetta samfélagsleg vandamál?


Sú staða sem nú er fyrir hendi á áðurnefndum stofnunum eru ekki einsdæmi í íslensku samfélagi, og allir gera sér grein fyrir því. Hitt er annað mál að vandinn er misstór í augum þingflokka. Guðlaugur Þór verður að gera sér grein fyrir því að ummæli hans voru ekki aðeins óviðeigandi, heldur til þess fallin að veikja trú okkar á því að áðurnefndur vandi sé tiltökumál í hans augum.


Samfylkingin hefur einn stjórnmálaflokka komið fram með heildstæðar lausnir í málefnum velferðarstjórnunar og þá sérstaklega þegar kemur að málefnum barna og unglinga. Slíkar aðgerðir yrðu síður en svo kostnaðarsamar, ef litið er til þess ávinnings sem fengist af því að forða fjölda einstaklinga frá viðjum geðrænna vandamála og námsörðugleika. Með því að leysa slíkan vanda hið snarasta, búum við til virka, heilbrigða og sjálfstæða þjóðfélagsþegna sem munu sjá sér farborða í framtíðinni. Af því er ávinningur, hvar sem frá er litið.


Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki boðað úrræði í málefnum barna á biðlistum BUGL eða greiningarstöðvar. Þessi börn skipta hundruðum og glíma þau sum hver við lífshættuleg vandamál. Ef Sjálfstæðisflokkurinn leysir ekki umræddan vanda núna, hvenær mun það eiga sér stað?


Og nei, uppeldisnámskeið eru ekki svarið.


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand