Í grein dagsins fjallar Agnar Freyr Helgason, formaður Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, um breytingar breytinganna vegna. Segir meðal annars í greininni: ,,Vissulega má draga það í efa hvort heppilegt sé að sömu flokkarnir sitji við völd svo mörgum kjörtímabilum skiptir. Forsenda þess hlýtur að vera hæfni til gagnrýninnar hugsunar – að stefna og áherslur flokks séu lifandi fyrir breyttum og nýjum aðstæðum. Að flokkur festi sig ekki í viðjum kreddna og fordóma.“
Núverandi ríkisstjórn hefur setið í tólf ár. Stjórnarandstæðingum er tíðrætt um þá staðreynd enda fullt tilefni til. Fyrir tólf árum var undirritaður til dæmis rétt ný orðinn þrettán ára, safnaði NBA-myndum af krafti og hlustaði í laumi á Waterfalls með stúlknabandinu TLC. Það er semsagt orðið mjög mjög langt síðan!
Þegar bent er á þessa staðreynd bregðast ýmsir ókvæða við og hefja útúrsnúninginn. Gjarnan er haft á orði að þeir sem bendi á þetta hafi sér ekki málefnalegar ástæður fyrir því að vilja að nýtt fólk komist til forystu – að málflutningur þeirra grundvallist í rauninni bara á því að breytingarnar séu æskilegar breytinganna vegna.
Vissulega má draga það í efa hvort heppilegt sé að sömu flokkarnir sitji við völd svo mörgum kjörtímabilum skiptir. Forsenda þess hlýtur að vera hæfni til gagnrýninnar hugsunar – að stefna og áherslur flokks séu lifandi fyrir breyttum og nýjum aðstæðum. Að flokkur festi sig ekki í viðjum kreddna og fordóma.
Kosningarnar á morgun snúast líka um lýðræðið. Þær snúast um tvo menn sem gerðu Ísland aðila að árásarstríði hinum megin á hnettinum og þingflokkana sem þeir skýldu sér á bakvið. Þær snúast um vafasamar skipanir hæstaréttardómara, útlendingalögin og Falun Gong. Þær snúast um fjölmiðlafrumvarp sem var beint gegn einu fyrirtæki og hið farsakennda sumar 2004. Þær snúast um sætustu stelpuna á ballinu og hvort jafnréttislögin séu barns síns tíma.