Breytum málefnanna vegna

Í grein dagsins fjallar Agnar Freyr Helgason, formaður Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, um breytingar breytinganna vegna. Segir meðal annars í greininni: ,,Vissulega má draga það í efa hvort heppilegt sé að sömu flokkarnir sitji við völd svo mörgum kjörtímabilum skiptir. Forsenda þess hlýtur að vera hæfni til gagnrýninnar hugsunar – að stefna og áherslur flokks séu lifandi fyrir breyttum og nýjum aðstæðum. Að flokkur festi sig ekki í viðjum kreddna og fordóma.“

Núverandi ríkisstjórn hefur setið í tólf ár. Stjórnarandstæðingum er tíðrætt um þá staðreynd enda fullt tilefni til. Fyrir tólf árum var undirritaður til dæmis rétt ný orðinn þrettán ára, safnaði NBA-myndum af krafti og hlustaði í laumi á Waterfalls með stúlknabandinu TLC. Það er semsagt orðið mjög mjög langt síðan!

Þegar bent er á þessa staðreynd bregðast ýmsir ókvæða við og hefja útúrsnúninginn. Gjarnan er haft á orði að þeir sem bendi á þetta hafi sér ekki málefnalegar ástæður fyrir því að vilja að nýtt fólk komist til forystu – að málflutningur þeirra grundvallist í rauninni bara á því að breytingarnar séu æskilegar breytinganna vegna.

Vissulega má draga það í efa hvort heppilegt sé að sömu flokkarnir sitji við völd svo mörgum kjörtímabilum skiptir. Forsenda þess hlýtur að vera hæfni til gagnrýninnar hugsunar – að stefna og áherslur flokks séu lifandi fyrir breyttum og nýjum aðstæðum. Að flokkur festi sig ekki í viðjum kreddna og fordóma.

Deila má um hvort Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki hafi tekist að fara í slíka naflaskoðun. Forystufólki hefur jú verið skipt út og einkennismerki jafnvel máluð nýjum litum, en engu að síður virðist fortíðarvindar enn leika um málflutning frambjóðenda og stefnu flokkanna.

Látum það hins vegar liggja á milli hluta. Rökin fyrir því hvers vegna nauðsynlegt er að fella ríkisstjórnina næstkomandi laugardag eru nefnilega alls ekki þau að flokkarnir hafa setið við völd síðastliðin tólf ár og að breytingar séu nauðsynlegar breytinganna vegna.

Þær eru nauðsynlegar af svo allt öðrum og veigameiri ástæðum.

Kosningarnar á morgun snúast um aukningu ójafnaðar í íslensku samfélagi undanfarin tólf ár og hvernig ríkisstjórnin hefur meðvitað og markvisst stuðlað að þeirra þróun. Þær snúast um fimm þúsund fátæk börn og leiðir til að bæta hag þeirra og smánarlegt hlutskipti eldri borgara og öryrkja í okkar ríka samfélagi.

Kosningarnar á morgun snúast um biðlista í heilbrigðiskerfinu. Biðlista barna með geðraskanir, biðlista hjartasjúklinga, biðlista þroskaheftra, biðlista öryrkja, biðlista fatlaðra, biðlista eftir hjúkrunarrými, biðlista eftir félagslegum íbúðum og fullkomnu úrræðaleysi stjórnvalda til að koma til móts við þá einstaklinga sem þá verma.

Kosningarnar á morgun snúast um samkeppnishæfara atvinnulíf. Þær snúast um afnám hafta í landbúnaði, framsæknar hugmyndir um hvernig best megi tryggja hagsmuni fyrirtækja í hátækni- og þekkingariðnaði og mikilvægi fjárfestinga í rannsóknum og þróun. Þær snúast um viðurkenningu á því að gengissveiflur minnsta sjálfstæða gjaldmiðilsins á alþjóðamarkaði eru fyrirtækjum í útrás fjötur um fót.

Kosningarnar á morgun snúast um skynsama efnahagsstefnu og ábyrga meðferð á skatttekjum ríkisins. Þær snúast um stýrivexti sem eru tæplega þrisvar sinnum hærri nú en þeir voru við upphaf kjörtímabilsins, viðskiptahalla sem er meiri en nokkru sinni fyrr og ráðherra sem hafa í aðdraganda kosninga skuldbundið ríkissjóð um sem nemur tæplega hálfri billjón króna (468.000.000.000,- kr.) til næstu ára.

Kosningarnar á morgun snúast um jafnrétti kynjanna. Þær snúast um óbreyttan launamun kynjanna í tíð núverandi ríkisstjórnar og hvort endurmeta eigi launakjör hefðbundinna kvennastétta á komandi kjörtímabili. Þær snúast um hvort við sættum okkur við launaleyndina og raunhæfar tillögur um hvernig bæta megi hlut kvenna í stjórnunarstöðum hjá ríkinu.

Kosningarnar á morgun snúast um umhverfið og umgengni okkar Íslendinga um verðmætar náttúruperlur. Þær snúast um hvort við munum ana áfram með engu stoppi og gera okkur ekki grein fyrir því hverju við erum að tapa. Þær snúast um Fagra Ísland.

Kosningarnar á morgun snúast um viðhorf til menntunar og hvaða sess skólakerfið eigi að skipa á 21. öldinni. Hvort að við viljum steypa alla í samræmt mót eða auka frelsi allra til að njóta hæfileika sinna. Kosningarnar snúast um hvort við viljum taka upp skólagjöld við opinbera háskóla eða hvort við viljum áfram standa vörð um rétt allra til æðri menntunar óháð efnahag.

Kosningarnar á morgun snúast líka um lýðræðið. Þær snúast um tvo menn sem gerðu Ísland aðila að árásarstríði hinum megin á hnettinum og þingflokkana sem þeir skýldu sér á bakvið. Þær snúast um vafasamar skipanir hæstaréttardómara, útlendingalögin og Falun Gong. Þær snúast um fjölmiðlafrumvarp sem var beint gegn einu fyrirtæki og hið farsakennda sumar 2004. Þær snúast um sætustu stelpuna á ballinu og hvort jafnréttislögin séu barns síns tíma.

Um þessi mál snúast kosningarnar á morgun . Hvert og eitt þeirra er aðkallandi – saman komin knýja þau á um breytta forgangsröðun á grunni frjálslyndrar jafnaðarstefnu með áherslu á velferð, réttlæti og frelsi.

Þess vegna ætla ég að kjósa Samfylkinguna í kosningunum á morgun .


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand