Markmið um framhaldsskóla fyrir alla næst ekki nema tryggt verði náið samband skólanna og þeirra umhverfi. Mikilvægt skref í þá átt væri að gera framhaldsskólana að sjálfseignastofnunum þar sem sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins gegna lykilhlutverkum. Þannig tel ég góðar líkur á að framhaldsskólarnir yrðu eitt mikilvægasta hreyfiafl samfélags í átt að raunverulegu jafnrétti til náms. Í næst viku kemur Alþingi saman, þá fara fram umræður um stefnuræðu forsætisráðherra og fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2004. Þessar umræður munu marka meginlínur næstu missera hvað varðar hlut ríkisvaldsins í framvindu samfélagsins.
Því miður mun engin breyting verða á stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem nú er að hefja sitt þriðja kjörtímabil. Ekki verður tekið á vanda þeirra sem minna mega sín í samfélaginu og ríkisútgjöld munu áfram vaxa stjórnlaust. Þær ríkisstofnanir sem sinna mikilvægri samfélagsþjónustu munu áfram eiga við fjárhagsvanda að etja, hvorki stefnumörkun né forgangsröðun munu fara fram. Áfram verður treyst á guð og lukkuna.
Í ríkisrekstrinum hefur á undanförnum árum heyrst mest um fjárhagsvanda ríkisstofnana í heilbrigðis- og menntageiranum. Sífelld endurtekning ár eftir ár hefur líklega gert stóran hluta almennings ónæman fyrir umræðunni. Á sama tíma á hverju ári heyrist það sama; skerða þarf þjónustu þessara stofnana ef ekki verður bætt úr.
Smám saman verður almenningur þreyttur á sama söngnum og tekur undir með frjálshyggjuliðinu um einkavæðingu til að bæta þjónustuna. Allt of lengi hafa hægri menn leitt þessa umræðu og jafnaðarmenn hrakist undan í vörninni. Við höfum byggt upp rangar varnarlínur og á stundum gleymt grundarvallaratriðum í ákafanum við að verja fornar sannfæringar sem urðu til við allt aðrar aðstæður en nú eru í samfélaginu.
Jafnrétti til náms
Tökum dæmi. Við höfum sagt ,,aldrei skólagjöld í ríkisreknum háskólum“ en erum við viss um að það sé besta leiðin til að tryggja eitt okkar grundvallarmála um jafnrétti til náms? Því miður held ég að þetta eigi ekki lengur við og geti í raun snúist upp í andstöðu sína og þannig auðveldað hægriöflunum að grafa undan ríkisháskólunum.
Í dag virðist mér mikilvægast að tryggja að allir háskólar sitji við sama borð og jafnrétti til náms verði best tryggt í gegnum námslána- og námsstyrkjakerfi. En hvernig má þetta verða?
Runólfur Ágústsson rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst kom fram með þá hugmynd við skólaslit sl. vor að allir ríkisháskólarnir verði gerðir að sjálfseignastofnunum. Hugmyndin er afar athyglisverð og verði hún framkvæmd gæti það tryggt jafna stöðu allra háskóla.
Þetta hljómar trúlega nær guðlasti í eyrum margra t.d. þeirra sem kalla alla háskóla sem ekki eru ríkisháskólar ,,einkaskóla“ (og neikvæðni heyrist jafnan í röddinni) þrátt fyrir að þeir séu reknir sem sjálfeignastofnanir og hafi ekki arðsemismarkmið. Vita allir að Listaháskólinn er sjálfseignastofnun? Ég heyri mjög sjaldan talað um hann sem ,,einkaskóla“.
Framhaldsskólar mikilvægt hreyfiafl
En þessi hugmynd Runólfs Ágústssonar rektors um sjálfseignastofnanir á við á fleiri skólastigum og í mínum huga er framkvæmd hennar ekki síður þörf á framhaldsskólastigi. Í öllum alþjóðlegum samanburði komum við verst út á framhaldskólastigi og þegar betur er að gáð er staða okkar hvað slökust þegar kemur að starfsmenntun á framhaldsskólastigi.
Vanda framhaldsskólastigsins má annarsvegar rekja til fjárhagsvanda framhaldsskólanna til margra ára og hinsvegar til skorts á tengingu skólanna við atvinnulífið. Þjónusta framhaldsskóla í dag flokkast undir nærþjónustu og á því ekki heima undir miðstýrðu valdi menntamálaráðuneytisins.
Markmið um framhaldsskóla fyrir alla næst ekki nema tryggt verði náið samband skólanna og þeirra umhverfi. Mikilvægt skref í þá átt væri að gera framhaldsskólana að sjálfseignastofnunum þar sem sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins gegna lykilhlutverkum. Þannig tel ég góðar líkur á að framhaldsskólarnir yrðu eitt mikilvægasta hreyfiafl samfélags í átt að raunverulegu jafnrétti til náms.