Ungir jafnaðarmenn bönkuðu upp á hjá sendiherra Kína á Íslandi klukkan 11, eins og ráðgert var. Starfsmenn sendiráðsins kusu að koma ekki til dyra en fyrir utan sendiráðið fylgdust nokkrir lögreglumenn með.
Ungir jafnaðarmenn bönkuðu upp á hjá sendiherra Kína á Íslandi klukkan 11, eins og ráðgert var. Starfsmenn sendiráðsins kusu að koma ekki til dyra en fyrir utan sendiráðið fylgdust nokkrir lögreglumenn með.
Anna Pála Sverrisdóttir, formaður UJ, límdi bréfið á rauða hurð sendiráðsins og sendi einnig annað eintak í pósti, stílað á sendiherrann sjálfan.
Það er kaldhæðnislegt að sendiráðið hafi kosið að beita þöggunaraðferðinni og hundsa bréf UJ í ljósi þess að fyrsta spurning ungra jafnaðarmanna til sendiherrans fjallar um það hvers vegna kínversk stjórnvöld reyna að koma í veg fyrir fjölmiðlaumfjöllun um Tíbet, en engum fjölmiðlum er hleypt inn í landið.
Tíbetar hafa mátt þola gengdarlaust ofbeldi og misrétti frá því að Kínverjar hernámu landið árið 1950. Nú er lag að beita Kína þrýstingi þegar Ólympíuleikar eru á næsta leiti og efnahagur Kína er háður viðskiptum við vestræn ríki.
Bréf Ungra Jafnaðarmanna má sjá hér að neðan:
Kæri Zhang Keyuan, sendiherra Kína á Íslandi.
Undanfarna daga hefur heimsbyggðin öll fylgst með fréttum af mótmælaaðgerðum í Tíbet og hörðum viðbrögðum kínverskra stjórnvalda við þeim. Fregnir hafa borist af fjöldahandtökum og mannfalli í aðgerðum kínverska hersins gegn óbreyttum borgurum.
Hernám kínverska alþýðulýðveldisins á Tíbet hefur staðið í rúmlega hálfa öld. Á þeim tíma hafa kínversk yfirvöld ekki virt grundvallar mannréttindi Tíbeta og sýna atburðir síðustu daga vel að Tíbetar hafa hvorki tjáningarfrelsi né fundafrelsi.
Ungir jafnaðarmenn óska því svara frá sendiherranum við eftirfarandi spurningum:
Hvers vegna er aðgangur fréttamanna að Lhasa og fleiri stöðum, hindraður? Af hverju er fréttamönnum haldið frá mótmælum í Beijing og víðar? Af hverju fá mannréttindasamtök ekki að fylgjast með því að mannréttindi séu virt í Tíbet?
Hversu margir hafa verið handteknir vegna mótmælanna? Hvernig er farið með fangana og hvernig eru réttindi þeirra tryggð?
Hvernig sérð þú að markmið Ólympíuleikanna um frið og samvinnu fari saman við mannréttindabrot í Tíbet?
Hvernig réttlætir þú áratuga hersetu Kínverja í Tíbet, frá innrásinni 1950? Hvers vegna fær Tíbet ekki sjálfstæði frá Kína?
Svar óskast sent til:
Ungir jafnaðarmenn
Hallveigarstíg 1
101 Reykjavík
Kveðja f.h. Ungra jafnaðarmanna,
Anna Pála Sverrisdóttir, formaður UJ