Þegar Alþjóðaviðskiptastofnunin úrskurðaði um lögmæti niðurgreiðslna til handa amerískum stáliðnaði, eftir að Evrópusambandið lagði fram kæru, ákvað George Bush Bandaríkjaforseti að fella niður niðurgreiðslurnar í stað þess að hætta á að teknar yrðu upp viðskiptaþvinganir. Hinar stálframleiðsluþjóðirnar eru ríkar þjóðir sem flytja mikið inn af bandarískum vörum og hefðu getað skaðað útflutningsgreinar í Bandaríkjunum. Þetta á ekki við um hinar fátæku þjóðir í Afríku og S-Ameríku, sem geta lítið gert á móti efnahagslegu stórveldi eins og Bandaríkjunum. Höfum þetta í huga næst þegar talað er um Bandaríkin sem boðbera lýðræðis, mannréttinda og frjálsra viðskipta. Nýverið féll mikill áfellisdómur yfir Bandaríkjunum þegar Alþjóðaviðskipta- stofnunin (WTO) úrskurðaði um réttmæti bandarískra stjórnvalda til að niðurgreiða innlenda bómullarframleiðslu. Alþjóðaviðskiptastofnunin komst að þeirri niðurstöðu að niðurgreiðslurnar, sem námu um 800 milljörðum íslenskra króna á um 7 ára tímabili, brytu í bága við alþjóðlegar viðskiptareglur.
Frjáls viðskipti; handa öllum eða bara handa sumum?
Niðurgreiðslurnar gerðu bandarískum bændum kleift að selja framleiðslu sína á lægra verði en ella. Vegna þessa hefur bómullariðnaðurinn í Bandaríkjunum um 40% heimsmarkaðshlutdeild. Niðurgreiðslurnar hafa haft í för með sér mikla tekjuskerðingu fyrir þúsundir fátækra bænda í Afríku og Suður-Ameríku og jafnvel leitt til sárrar fátæktar og oft á tíðum hungursneyðar. Þessar niðurgreiðslur ganga þvert á þá hugmyndafræði í alþjóðaviðskiptum sem Bandaríkin segja sig standa fyrir, þ.e. frjálsum viðskiptum. Þetta sýnir og sannar að það sem Bandaríkjamenn þvinga aðrar þjóðir til að gera, í gegnum ítök í alþjóðlegum stofnunum á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, er ekki látið ganga yfir bandarískan iðnað þegar það skaðar hann.
Stéttarskipting heimsins
Þegar Alþjóðaviðskiptastofnunin úrskurðaði um lögmæti niðurgreiðslna til handa amerískum stáliðnaði, eftir að Evrópusambandið lagði fram kæru, ákvað George Bush Bandaríkjaforseti að fella niður niðurgreiðslurnar í stað þess að hætta á að teknar yrðu upp viðskiptaþvinganir. Hinar stálframleiðsluþjóðirnar eru ríkar þjóðir sem flytja mikið inn af bandarískum vörum og hefðu getað skaðað útflutningsgreinar í Bandaríkjunum. Þetta á ekki við um hinar fátæku þjóðir í Afríku og S-Ameríku, sem geta lítið gert á móti efnahagslegu stórveldi eins og Bandaríkjunum.
Höfum þetta í huga næst þegar talað er um Bandaríkin sem boðbera lýðræðis, mannréttinda og frjálsra viðskipta.
Við berum einnig ábyrgð
Niðurgreiðslur til hins íslenska landbúnaðarkerfis kosta Íslendinga marga milljarða á ári hverju. Samt sem áður lifa margir íslenskir bændur á mörkum fátæktar og verðið sem íslenskir neytendur greiða fyrir landbúnaðarvörur, s.s. grænmeti, er með því hæsta sem gerist í heiminum í dag. Niðurgreiðslur hvetja til offramleiðslu, sem er mætt með kvótakerfi. Tollmúrum og öðrum viðskiptaþvingunum er síðan beitt gegn innflutningi landbúnaðarafurða til varnar innlendum landbúnaði.
Núna gætu sumir sagt að hlutur okkar Íslendinga sé svo smár að hann hafi engin áhrif. Gleymum því hins vegar ekki að margt smátt gerir eitt stórt. Íslendingar eiga að fara fram með góðu fordæmi með hag okkar fátækustu bræðra og systra í heiminum fyrir brjósti. Breytum landbúnaðarkerfinu og afnemum tollamúra svo fátækar þjóðir heims geti selt sínar framleiðsluvörur og vaxið og dafnað á eigin forsendum. Íslendingar geta orðið hinir alvöru boðberar lýðræðis, mannréttinda og frjálsra viðskipta.