Fjallað er um þær tímabundnu ráðningar sem hafa átt sér stað innan stjórnarráðsins. Greinarhöfundur heldur því fram að ekkert óeðlilegt sé við þær ráðningar sem hafa átt sér stað enda ljóst að þessir aðilar sem innan ráðuneytanna starfa tímabundið, munu hverfa á braut með þeim ráðherrum sem þá skipuðu. Þó svo að Davíð Oddsson þvaðri yfir þessu í sínum aðkeypta einkamiðli og telji þetta bera vott um skort á virðingu fyrir gagnsæi og opinni stjórnsýslu, þá vitum við öll betur. Þeir sem kasta steinum úr glerhúsi geta vel hitt í mark, en það á ekki við hér.
Enginn neitar því að Ísland er í mjög sérstakri stöðu. Efnahagur landsins nánast hrundi með bönkunum síðastliðið haust og lítið mátti útaf bera ef greiðslumiðlunarkerfi landsins legðist ekki sömuleiðis af, með enn skelfilegri afleiðingum fyrir landið.
Í dag eru Íslendingar enn í björgunarleiðangri. Enn er unnið að því að endureisa fjármálakerfið og þar með koma atvinnulífinu í eðlilegra horf; aðgerðir til aðstoðar við að leysa skuldastöðu heimilianna eru nú kominn til framkvæmda; og núverandi stjórnarflokkar hafa, t.a.m. með breytingum á ráðningarferli hæstaréttardómara og faglega ráðnum seðlabankastjóra, reynt að auka tiltrú almennings á stjórnkerfinu.
Ýmsir urðu þó reiðir þegar spurðist að yfir 40 manns hefðu verið ráðnir tímabundið án undangenginna auglýsinga í hin ýmsu ráðuneyti. Töldu ýmsir þetta bera þess merki að nýjir tímar væru ekki framundan í stjórnsýsluhefð Íslendinga.
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins – annarhvor þeirra tveggja, þó maður þykist nú vita hvor þeirra þetta var – býsnast mikið yfir þessu í Staksteinum blaðsins sl. miðvikudag, og telur þetta einmitt merki um hversu litla virðingu stjórnarflokkarnir beri fyrir opinni og gegnsærri stjórnsýslu. Fyrrum forsætisráðherra landsins, Davíð Oddsson, er sem kunnugt er annar ritstjóri blaðsins, en ríkisstjórnir hans voru frægar með endemum fyrir að koma vinum og vandamönnum stjórnarflokkanna í hinar ýmsu stöður í stjórnkerfinu og viðskiptalífinu. Einna frægastur verður að teljast briddsfélagi og trúnaðarvinur Davíðs sem skipaður var í hæstarétt gegn niðurstöðu hæfnisnefndar, að ógleymdri einkavinavæðingu Landsbankans. Verður þetta seint talið bera með sér virðingu fyrir opinni og gengsærri stjórnsýslu.
Nú gætu menn samt talið að þó svo að Davíð sé að kasta steinum úr glerhúsi þá skipti það nú ekki öllu, þar sem steininn hittir beint í mark. Veltum þessu aðeins fyrir okkur: Verkefnalisti ríkisstjórnarinnar er þannig, að varla verður talið að eðlilegur sé. Slíkt er einfaldlega ástandið í landinu. Ráðuneyti eru nú í mjög sérstæðum verkefnum sem nauðsynlegt er að vinna að. Þessi vinna er með þeim hætti að vart verður talið óeðlilegt þó kölluð séu sértækar björgunaraðgerðir við að koma Íslandi uppúr þeim hjólförum sem landið endaði í, þegar bankakerfið hrundi.
Ráðherrar þurfa við slík störf að hafa sér innan handar einstaklinga sem þeir treysta. Það er sömuleiðis alveg ljóst að aukin verkefnaþungi innan stjórnarráðsins kallar á aukinn mannskap. Er eðlilegt að slík verkefni séu unnin af fastráðnum embættismönnum að undangengnum auglýsingum, sem þýðir þá væntanlega að hverfi ráðherra úr starfi þá sitji þessir sömu einstaklingar eftir í ráðuneytunum, með öllum þeim réttindum sem slíkum embættisstörfum fylgir. Semsagt æviráðnir embættismenn með öllum þeim kostnaði sem því fylgir fyrir ríkissjóð.
Bent hefur verið á að við gerð þjóðarsáttasamninga fyrir 1990 hafi ýmsir ráðgjafar komið að vinnu og gerð þeirra samninga. Allir þessir aðilar hurfu síðan úr ráðuneytunum þegar stjórnarskipti urðu og ráðherrarnir sem réðu þá til starfa hurfu á braut. Var það óeðlileg stjórnsýsla?
Ég ætla því að leyfa mér að halda því fram að ekkert óeðlilegt sé við þær tímabundnu ráðningar sem hafa átt sér stað. Slíkt er einfaldlega ástandið í landinu og verkefnin eftir því. Leyfum bifvélavirkjanum með mikilmennskubrjálæðið – sem nú dvelur í Hádegismóunum og skipaði sjálfan sig sem yfirmann hjartaskurðlækninga – bara að þvaðra og fylgjumst frekar með og reynum að stuðla að góðum verkum þessarar ríkisstjórnar. Við vitum öll sem er að eini hjartasjúklingurinn sem Davíð bar ábyrgð á andaðist!