Betri heimur

Ég gerist nú ekki líkleg til að leysa lífsgátuna í einu vetvangi og koma á heimsfriði einn tveir og bingó, en ég er ekki frá því að breyting á umræðu og fréttaflutningi geti haft áhrif á viðhorf manna þannig að draga megi úr reiðinni og hatrinu sem að elur svo mikla ógæfu af sér. Ég held nefnilega að þó peningar og hagsmunir séu stundum aðalástæðan fyrir því að menn og þjóðir ráðast á menn og þjóðir, þá geri virðingarleysi slíkt ofbeldi kleift. Virðingarleysi fyrir skoðunum fólks, menningu þess eða jafnvel litarhætti. Virðingarleysi fyrir lífi annars fólks. Það er mikla sorg að finna á síðum heimspressunnar nú um stundir, og mikla reiði. Anna Lindh, utanríkisráðherra Svíþjóðar hefur verið myrt, Bandaríkjamenn og öll heimsbyggðin minnist hryðjuverkaárásarinnar 11. september fyrir tveimur árum, Ísralear og Palestínumenn berjast og Írak er hersetið. Hvarvetna í heiminum er fólk að látast af mannavöldum, óréttlætið virðist algert og okkur finnst við hafa lítið með þetta allt að gera. Við sitjum hérna á eyjunni okkar og horfum í kringum okkur, -þetta virðist allt svo fjarlægt. Því nær sem hörmungarfréttirnar eru því meiri áhrif hafa þau á okkur -kannski helst vegna fréttaflutningsins- en samt er þetta útlandið, -svona gerist ekki hér. En við verðum samt líka sorgmædd, og reið, og hrædd sjálfsagt. Getum við eitthvað gert í þessu?

Þegar betur er að gáð

Ég gerist nú ekki líkleg til að leysa lífsgátuna í einu vetvangi og koma á heimsfriði einn tveir og bingó, en ég er ekki frá því að breyting á umræðu og fréttaflutningi geti haft áhrif á viðhorf manna þannig að draga megi úr reiðinni og hatrinu sem að elur svo mikla ógæfu af sér. Ég held nefnilega að þó peningar og hagsmunir séu stundum aðalástæðan fyrir því að menn og þjóðir ráðast á menn og þjóðir, þá geri virðingarleysi slíkt ofbeldi kleift. Virðingarleysi fyrir skoðunum fólks, menningu þess eða jafnvel litarhætti. Virðingarleysi fyrir lífi annars fólks. Ég er ekki á því að þetta virðingarleysi sé manninum eðlislægt eins og sumir halda fram, -hann þurfi að passa upp á sitt. Flest trúarbrögð sem ég þekki til boða einmitt hið gagnstæða -að menn skuli virða hver annan og koma fram við náunga sína eins og þeir vildu að komið væri fram við þá- í einni mynd eða annarri. En þetta virðingarleysi gegnumsýrir samskipti manna víðast hvar og hefur áhrif á líf og dauða okkar allra.

Dansinn stiginn

Þetta undarlega misræmi í mati okkar á lífsrétti annars fólks endurómar í allri umræðu og fréttaflutningi af heimsmálunum. Það virðist augljóst af umfangi frétta og orðalagi í fjölmiðlum að sumt fólk er einfaldlega merkilegra en annað, -sumir eiga meira að segja skilið að deyja, segja blöðin mér.

Í netútgáfu Politiken er að finna tilvísun í grein í Jerusalem Post þar sem skorað er á Ísraelsstjórn að drepa Arafat, leiðtoga Palestínumanna. Þetta kemur manni kannski ekki svo undarlega fyrir sjónir miðað við fréttir síðustu mánuða og ára frá þessu svæði, -það þykir sjálfsagt að lýðræðislega kjörin ríkisstjórn sendi leyniskyttur á hina og þessa menn sem taldir eru vera ógn lýðræðisríkinu. En þessi frétt minnti mig hins vegar á morð sem framin voru í sumar og fréttaflutninginn í kringum þau. Þá birtust myndir um allan hinn vestræna heim, og líka í Morgunblaðinu, af sundurskotnum, rotnandi líkum sona Saddams undir fyrirsögnum eins og „Synir Saddams felldir“ og er það ein sú blíðasta sem ég man eftir. Tilfinningin sem maður fékk í gegnum þann fréttaflutning var að nú bæri að gleðjast yfir dauða þessara manna, -dansa á gröfum þeirra. Og ekki virtist skipta ýkja miklu máli að ungur sonur annars þeirra var skotinn í leiðinni.

Hverjir skipta máli?

Þetta er augljóst dæmi um það hvernig líf fólksins í heiminum er mis mikils virði samkvæmt fréttaflutningi. Þá var mér bent á nokkuð í sambandi við 11. september. Fyrir tveimur árum síðan var gerð hryðjuverkaárás á Bandaríkin og líklega muna allir í hinum vestræna heimi nákvæmlega staðinn og stundina sem þeir fengu fregnir af þessu óhæfuverki. Ég var heima hjá mömmu og pabba að tína hitt og þetta úr ísskápnum, óvart var sjónvarpið í gangi og búmm! Allt breyttist og varð skrýtið. Ég fór í skólann og allir voru felmtri slegnir. Og núna tveimur árum seinna er komin út sjónvarpsmynd og heimildaþættir og búið að gera boli og ísskápasegla og það er höfð mínútuþögn og flaggað í hálfa stöng um allan heim. En hver man daginn sem ráðist var inní Afghanistan? Eða Írak? Eða Júgóslavíu? Var fólkið sem dó þar eitthvað minna merkilegt? Í málum sem þessum getur fréttaflutningur haft gífurleg áhrif.

Eins og ég sagði er erfitt að ætla að breyta viðhorfi allrar heimsbyggðarinnar á einu bretti, en það er með þetta eins og annað að maður getur byrjað á garðinum heima. Okkur sjálfum, landinu okkar, fjölmiðlunum okkar. Meðan að við berum ekki virðingu hvert fyrir öðru getum við ekki lifað í friði, og meðan fréttaflutningur og umræða gæta ekki jafnræðis í málum sem þessum þá munu þau halda áfram að ala á hatri, ótta, skilnings- og virðingarleysi. Megum við öll líta í eigin barm og gæta orða okkar og æðis!

Heimildir:
http://politiken.dk/VisArtikel.iasp?PageID=285255

http://politiken.dk

www.mbl.is

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand