Barnapíuríkið

Mikið er rætt um hugtakið atferlisstjórnmál (politics of behaviour) í Bretlandi þessa dagana. Atferlisstjórnmál snúast í raun um það hvenær og hvenær ekki lög og reglugerðir skerða réttindi fólks. Hversu langt ríkið eigi að ganga í afskiptum sínum af einstaklingnum. Þessi umræða er alls ekki ný af nálinni. Stjórnmála- og heimspekingar hafa glímt við þessa spurningu öldum saman. Mikið er rætt um hugtakið atferlisstjórnmál (politics of behaviour) í Bretlandi þessa dagana. Atferlisstjórnmál snúast í raun um það hvenær og hvenær ekki lög og reglugerðir skerða réttindi fólks. Hversu langt ríkið eigi að ganga í afskiptum sínum af einstaklingnum. Þessi umræða er alls ekki ný af nálinni. Stjórnmála- og heimspekingar hafa glímt við þessa spurningu öldum saman.

Fyrir liggur frumvarp á breska þinginu um að banna reykingar á pöbbum sem einnig selja veitingar. Refaveiðar voru nýlega bannaðar og uppi eru hugmyndir um að stemma stigu við offituvandanum með því að banna matvælaauglýsingar sem beint er að börnum. Stjórn Verkamannaflokksins er sökuð um óþarfa stjórnsemi og tvískinnung. Sumir segja jafnvel að gróðasjónarmið ráði þessum ákvörðunum öllum. Benda þeir á í því samhengi að nýlega hafi verið gefin út leyfi fyrir byggingu átta stórra spilavíta og sveigjanlegri opnunartíma öldurhúsa, sem hvort tveggja færi tekjur í kassann. Raunveruleg ástæða reykinga- og auglýsingabannsins sé sá gríðarlegi kostnaður sem hvort tveggja leggi á heilbrigðiskerfið.

En hver eru rök stjórnarliða? Eru þeir reknir áfram af eldheitum draumum um betra samfélag, eða er hagfræðin þeirra eini herra?

Hin klassísku rök eru þau að stundum sé nauðsynlegt að skerða réttindi einstaklingsins í almannaþágu. Að hagsmunir einstaklinga þurfi stundum að víkja fyrir hagsmunum fjöldans. Þannig er refaveiðibannið rökstutt á þann hátt að ekki sé hægt að ala börn upp í samfélagi sem horfir aðgerðarlaust á dýrapyntingar, reykingabannið með því að reykurinn sé ekki aðeins skaðlegur reykingamanninum sjálfum heldur líka þeim sem í kringum hann eru. Það sé samfélagsins vegna og einstaklinganna sem þar búa, en ekki af einskærri illkvittni og stjórnsemi, sem þessar hömlur eru settar á.

Þegar kemur að opnunartíma öldurhúsa og spilavítaleyfunum fara mál hins vegar að flækjast. Þar er nefnilega sömu rökum beitt, nema í hina áttina. Þ.e. að ekki sé hægt að neita fullorðnu fólki um þau sjálfsögðu réttindi að spila póker, bara vegna einhvers minnihluta sem stríðir við spilafíkn. Ekki væri svo sanngjarnt að loka knæpunum snemma, bara vegna einhvers minnihluta sem finnst ekkert skemmtilegra en góður götubardagi, á kostnað hinna sem finnst fátt betra en að súpa hvítvín í góðra vina hópi. Er nema von að Verkamannaflokkurinn sé uppnefndur barnapíuflokkur einn daginn og flokkur spilavítabaróna annan?

Einhverju sinni sagði Davíð Oddsson í Moggaviðtali að hlutirnir þyrftu ekki að vera eins og í Noregi ,,þar sem allt er bannað nema það sé leyft sérstaklega”. Það var hárrétt hjá honum að Norðmenn gangi of langt. Hvergi annars staðar hef ég upplifað að stöðumælaverðir sitji fyrir þér í trjárunna. En þótt við viljum ekki enda eins og Norðmenn, þykir mér ólíklegt að hægt sé að finna einhverja gullna reglu sem segir til um hvenær ávinningur samfélagsins er meiri en tap einstaklingsins. Eina leiðin er líklega að taka afstöðu til hvers máls fyrir sig. Kannski er hagfræðin ekki síðri mælikvarði en hver annar. Reyndar hljóta hagfræðilegar og siðferðislegar ástæður oft að haldast í hendur. Það er nú einu sinni þannig að versnandi heilsa hlýtur að hafa slæm samfélagsleg áhrif hvernig sem á það er litið, hvort sem það er frá sjónarhóli fjármálaráðherra eða fjölskyldu sjúklings með lungnakrabba.

En hvernig snertir þessi vitleysa öll okkur Frónbúa? Jú, við getum fylgst með úr fjarlægð og reynt að læra af mistökum og velgengni nágranna okkar. Mál af svipuðum toga eiga eftir að koma upp hér á landi. Fyrr eða seinna þurfum við að taka afstöðu til reykinga á skemmtistöðum og ekki er offituvandinn mikið minni hér en í Bretlandi. Þá verður að taka á málum með staðreyndir og reynslu annarra í huga. Ekki eftir fyrir fram gefnum, hugmyndafræðilegum kreddum. Að vera uppnefndur barnapía eða frjálshyggjufól er lítið gjald fyrir betra samfélag.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand