Barist við vindmyllur? Kirkja á krossgötum

Oft festast rótgrónar þjóðfélagsstofnanir í gömlum kreddum þó að slík viðhorf mælist æ verr fyrir. Ef marka má könnun Gallups í maí síðastliðnum eru liðlega 87% þjóðarinnar hlynnt því að samkynhneigðir fái að gifta sig og tæplega 69% vilja að þeir fái að gifta sig í kirkju. Almenningur virðist því ekki lengur ginnkeyptur fyrir fordómum í garð samkynhneigðra. Gjá milli kirkju og þjóðar?
Oft festast rótgrónar þjóðfélagsstofnanir í gömlum kreddum þó að slík viðhorf mælist æ verr fyrir. Ef marka má könnun Gallups í maí síðastliðnum eru liðlega 87% þjóðarinnar hlynnt því að samkynhneigðir fái að gifta sig og tæplega 69% vilja að þeir fái að gifta sig í kirkju. Almenningur virðist því ekki lengur ginnkeyptur fyrir fordómum í garð samkynhneigðra.

Samkynhneigð pör eiga rétt á borgaralegri hjónavígslu en hingað til hefur evangelísk-lúterska kirkjan á Íslandi ekki léð máls á því að gefa slík pör saman við trúarlega vígslu. Ásatrúarfélagið sér hins vegar enga meinbugi á slíku innan sinna vébanda ef það verður heimilað að lögum. Sum trúfélög virðast því umburðarlyndari en önnur.

Kirkjan taki sig á
Kristur sagði fólkinu að koma til sín og höfðu flestir þar erindi sem erfiði. Ef forsvarsmenn evangelísk-lútersku þjóðkirkjunnar vilja fara að dæmi frelsarans ætti þeim líklega að vera sama hvort það er Jón eða séra Jón sem gengur í heilagt hjónaband í þeirra húsum.

Sjálfur á ég engra hagsmuna að gæta en spyr nú samt: Ætla menn virkilega að halda í arman ósið aftan úr myrkustu (ó)öldum og leggja stein í götu þeirra sem vilja vera eitt fyrir Guði og mönnum? Ætti það ekki að vera aðal góðra manna að geta unnt öðrum hamingjunnar án þess að vera með vífilengjur? Hver eru þau hin gildu guðfræðirök fyrir því að ekki megi gifta samkynhneigð pör í kirkjum lúterstrúarmanna? Heldur kirkjan kannski að samkynhneigðir fari að leita sér að lífsförunauti af gagnstæðu kyni ef hún neitar að gifta þá? Eða að það sé heilög skylda hvers manns að auka kyn sitt? Er þjóðkirkjan ekki bara að berjast við vindmyllur – eigin fordóma?

Í gegnum tíðina hefur íslenska þjóðkirkjan látið margt gott af sér leiða og má því furðu sæta að hún skuli ekki styðja samkynhneigða af heilum hug í réttindabaráttu þeirra. Nú sem sjaldan fyrr stendur þjóðkirkjan á krossgötum; hún þarf að gera upp við sig hvort hún vill vera allra eða aðeins útvaldra. Kannski ætti það að ráða meiru en fyrr um fjárveitingar ríkisins til hennar.

Alþingi láti til sín taka
Alþingi Íslendinga gæti raunar hugsanlega skyldað þjóðkirkjuna til að vígja saman samkynhneigð pör. Eins stendur það upp á Alþingi að leyfa samkynhneigðum að frumættleiða börn; með því mætti eflaust bjarga mörgu barninu frá bágu hlutskipti. Vonandi bera þingmenn gæfu til að rétta hlut samkynhneigðra án þess að gera slíka löggjöf að bitbeini í flokkadráttum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand