ESB Áróður: skólagjöld

Ég elska að vera til. Mér finnst hnattvæðingin grúví og ferðalög flott. Ég vill mennta mig í útlöndum og þykja lífið gott. Með þessu vill ég öðlast meiri mátt en þykir þó verðið heldur hátt.

Ek vil út
Mig langar að fara út í nám og hef verið að velta fyrir mér nokkrum löndum í því sambandi. Ég hef heyrt fólk láta vel af námi í Danmörku og var lengi að spá í að fara þangað. Mér skilst líka að Íslendingar geti sótt í nám, hjá þessari fornu herraþjóð okkar fyrir ,,skid og ingenting!“

Síðan mundi ég allt í einu eftir því að ég svaf í gegn um alla dönskutímana í ,,den“ og er því varla talandi á þeirri fögru tungu. Ég missti því aðeins móðinn, þangað til ég komst að því að hægt væri að sækja fyrirlestra á ensku, í þeim dönsku skólum sem ég hafði augastað á.

Þá mundi ég eftir því að ég hef ekki enn hitt þann Dana sem getur gert sig skiljanlegan á ensku. Aukinheldur þykir mér hálf kjánalegt að sitja fyrirlestra á ensku í Danmörku með Dönum.

Þannig að ég fór að horfa til Bretlands og Írlands. Ég hafði reyndar smá fordóma gagnvart Írlandi í byrjun, eða alveg þangað til ég heimsótti landið. Eftir það hefur Írland verið eitt af mínum eftirlætislöndum. Írar eru nefnilega krútt. Mér leið vel í Dublin og gæti vel hugsað mér að búa þar.

En hvað?
En ég er enn að borga bankalán og aðrar skuldir frá því ég reyndi síðast fyrir mér á skólabekk. Þannig að þessar pælingar hafa blundað aftarlega í heilanum í nokkurn tíma. Þær skutust þó fram með hraði í gærkvöld þegar ég rakst á skýrslu sem breskir háskólar gáfu út í vikunni.

Í skýrslunni er rætt um aukna ásókn í breska háskóla frá nemum innan Evrópusambandsins (ESB). Aukningin nemur 140% á milli ára. Helstu ástæðurnar eru samræmd skólagjöld innan ESB og stækkun sambandsins til Austurs. Reyndar eru nýju aðildarþjóðirnar frekar fámennur hluti hópsins, eða innan við 5%.

Samræmd skólagjöld fela það í sér að allir þegnar sambandsins greiða sömu skólagjöld í tiltekinn skóla. Sem dæmi þá kostar nám í Oxford £ 1.125 (kr. 149.000*) á ári fyrir Breta sem og alla þegna ESB en £ 8.170 (1.082 milljón*) fyrir þá sem standa utan sambandsins, t.d. Ísland.

Skólagjöld í The London School of Economics (LSE**) eru þau sömu og í Oxford fyrir námsmenn í ESB ríkjunum eða £ 1.125 en £ 9.859 (1.305 milljón) fyrir okkur hin sem stöndum utan sambandsins.

Þriggja ára nám í í hagfræði við LSE myndir því kosta Íslending um 3 milljónir en þegna ESB tæpa hálfa milljón. Þá á viðkomandi eftir að halda sér uppi í London allan þennan tíma sem er sjálfsagt aðrar 2 milljónir.

Luck of the Irish
Það er þó mest spennandi fyrir budduna að fara til Írlands, því á dögunum hleyptu Írar af stokkunum kerfi sem gefur öllum þegnum sambandsins kost á að stunda nám frítt þar í landi (e. Free fees scheme.)

Það verður gaman að sjá hvernig til tekst hjá Írum og fróðlegt að bera saman Ísland og Írland, því hagvöxtur og samsetning hagkerfanna var með svipuðu móti fram til ársins 1972, eða þar til Írar gengu inn í ESB. Frá þeim tíma hafa Írar færst úr því að vera ein fátækasta þjóð álfunnar í eina af þeim efnameiri. Hagkerfið blómstrar, viðskiptalífið er framsækið og mörg helstu hátæknifyrirtæki heimsins eru með Evrópubækistöðvar sínar þar í landi.

Ef Útflutningur þessara tveggja ríkja (sem % af VLF) er skoðaður frá árinu 1972 sért að útflutningur okkar hefur staðið í stað á þessu tímabili (um 35%) á meðan Írar hafa þrefaldað þetta hlutfall á þessum sama tíma (úr 35% í 95%.)

Enn og aftur virðumst við vera að færast í átt frá Írum. Nú þegar þeir eru að gera sér grein fyrir samspili menntunar og hagsældar, virðumst við hér á Íslandi vera að ferðast í gagnstæða átt með tillögum um upptöku skólagjalda við Háskóla Íslands og steingelt lánasjóðskerfi.

Staða okkar
Ef við myndum ganga inn í ESB á morgun, stæðum við Íslendingar nokkuð vel, allavega hvað varðar breska og írska háskóla. Enskukunnátta okkar er til fyrirmyndar m.v. mörg önnur ríki álfunnar og það fer gott orð af íslenskum námsmönnum erlendis.

Það er holt fyrir eyjaskeggja að leggjast í víking, sjá heiminn, kynnast annarri menningu og reyna fyrir sér úti í hinum stóra heimi. Maður verður betri manneskja fyrir vikið. Og sýn ferðalangans á eigin þjóð þroskast og breytist. Það ætti því að vera kappsmál fyrir fámenna þjóð eins og okkar að koma sem flestum í nám erlendis. Allir græða, bæði einstaka þegnar sem og þjóðfélagið í heild.

__________________
* Útreikningur miðast við miðgengi 18.07.2004.
** Tölur fengnar af heimasíðu Oxford.
*** Tölur fengnar af heimasíðu LSE.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand