Baráttunni er ekki lokið

Natan Þórunnar- Kolbeinsson, miðstjórnarmeðlimur í Ungum jafnaðarmönnum, skrifar:

Hver hefur ekki heyrt það að réttindabaráttu hinsegin fólks sé lokið?

Að allt sé komið, nema þá kannski það að karlmenn sem stundað hafa samfarir við einstakling af sama kyni geti ekki gefið blóð. Ég hef að minnsta kosti oft heyrt þetta og oft frá einstaklingum sem flokka sig sem hinsegin.

Þann 20. apríl átti sér stað ótrúlegur atburður á twitter. Atburður sem var svar við einn einu fordómafullu útspili Gylfa Ægis í garð samkynhneigðra. Þetta mótsvar var #hinseginleikinn, þar sem notendur twitter hrópuðu út alla þá fordóma sem hinsegin fólk verður fyrir dagsdaglega á Íslandi og erlendis.

Þrátt fyrir það ætti ekki að koma neinum á óvart að Gylfi Ægis héldi áfram krossferð sinni gegn samkynheigðum einstaklingum, þá kom það meira segja mér á óvart hversu mikið af fordómum er ennþá í samfélaginu.

Það er nefnilega þannig að þó Ísland sé komið langt í réttindabaráttu hinsegin fólks þá er baráttan langt frá því að vera búin. Eins og margir vilja meina, þá er það ekki þannig að eina baráttan sem eftir er sé baráttan um að geta gefið blóð.

Bróðir eða ástmaður?

Sannleikurinn er sá að hinsegin fólk þarf ennþá að berjast fyrir tilverurétti sínum dagsdaglega. Hinsegin fólk á sér ennþá fáar fyrirmyndir þegar kemur að persónum í sjónvarpi og kvikmyndum. Þar er það nánast undantekning að hinsegin persónur séu túlkaðar og ef þær koma fram þá eru þær oftar en ekki hvítir hommar sem nánast eru orðabókardæmi um staðalímyndina af samkynhneigðum karlmönnum. Sjaldan sjáum við bitastæð hlutverk í þáttum þar sem persónan er transgender eða intersex og hefur meiri tilgang en að vera bara staðalmynd þessara hópa í þáttunum. Aldrei vill það svo til að vondi karlinn í James Bond er trans og að það komi í raun sögunni ekkert við að hann sé það.

Hinsegin fólk getur ennþá ekki ferðast um heiminn án þess að kanna fyrst lagalega stöðu sína í landinu sem það langar til að ferðast til. Oftar en ekki þurfa hinsegin pör að segjast vera systkini, vinir eða frændfólk þegar það ferðast til útlanda vegna þess að það að vera hinsegin er talið vera ósiðlegt eða jafnvel ólöglegt í sumum löndum.

Viltu vera hommavinur minn?

Við sem erum hinsegin fólk þurfum að koma út úr skápnum nánast í hvert einasta skipti sem við kynnumst nýjum einstaklingi því það að vera hinsegin er ennþá ekki eitthvað sem talið er vera fullkomnlega eðlilegt í samfélaginu.

Jafnvel þó við séum komin langt í baráttunni fyrir jafnrétti hinsegin einstaklinga þá þarf almennt að breyta viðhorfinu til hinsegin fólks. Til að mynda finnst sumum það fullkomnlega eðlilegt að spyrja samkynhneigða stráka hvort þeir vilji vera “hommavinir” þeirra. Það er lítislækkandi fyrir alla að vera spurður hvort maður vilji vera “token minority” vinur einhvers. Það er í raun enginn munur á því að vera spurður hvort einhver vilji vera “hommavinur þinn” og að spyrja hvort svartur maður vilji vera “svarti vinur þinn”.

Baráttunni er langt frá því að vera lokið og margir sigrar óunnir, sérstaklega þegar kemur að því að berjast fyrir rétti intersex fólks og þá sérstaklega rétti barna til þess að vera ekki neydd í skurðaðgerðir með það að markmiði að “leiðrétta” kynfæri þeirra svo þau passi inn í ímynd þess að vera með karlkyns eða kvenkyns kynfæri.

Þó við séum komin langt þá er ennþá fullt af fordómum í íslensku samfélagi sem við eigum eftir að vinna bug á, því þótt samfélagið sé svo sannarlega farið að umbera hinsegin einstaklinga þá á samfélagið ennþá eftir að samþykkja þá.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand