Minningarathöfn Ungra jafnaðarmanna -Ræða Ingu Auðbjargar

Hvar varst þú þegar Kennedy var skotinn?  Hvar varst þú þegar tvíburaturnarnir hrundu?  Hvar varst þú 22. júlí, 2011?  Þetta eru spurningar sem oft hafa verið spurðar.  Ég man hvar ég var 22. júlí, 2011.  Ég var á útimóti fyrir ungmenni í Skandinavíu, aðeins 500 kílómetra suð-suðaustur af Útey.  Rétt eins og skoðanasystkini mín í AUF, hreyfingu Ungra jafnaðarmanna í Noregi, var ég í eins konar sumarbúðum fyrir ungt fólk sem hefur það að aðalmarkmiði sínu að gera heiminn að örlítið betri stað.  Í Útey voru 650 pólitískir ungliðar, á heimsmóti skáta voru 40.000 skátar.  Ég man hvernig ég fylltist angist þegar norskur vinur minn bar mér fréttirnar.  Ég hef farið í margar sumarbúðir og útilegur ungra jafnaðarmanna og á óteljandi skátamót.  Þessir viðburðir eru þannig að manni er kippt út úr raunveruleikanum í smá stund og býr í allt öðru samfélagi, þar sem umhyggja og umburðarlyndi er grundvöllurinn og sköpunargleðin og hugsjónirnar eru skemmtunin.  Svona viðburðir eru eins konar útópía, frí frá amstrinu í borginni og heimsfréttum sem draga mann niður.  Um stund er aðeins markmiðið að kynnast fólki og njóta lífsins með því, -í náttúrunni í öryggi og kærleika.  Ísraelar og Palestínubúar búa í tjöldum, hlið við hlið, í trúartjaldborginni er bæði prestur og uppblásin moska. Tungumál skipta ekki lengur máli, heldur bros og virðing.

Atburðirnir voveiflegu á Útey kipptu því undan mér fótunum.  Ég leit í kring um mig og sá allt fólkið sem var að keppast við að búa til dagskrá, setja upp trébyggingar og undirbúa svæðið til þess að búa til vettvang fyrir unga skáta til að læra að verða betri útgáfur af sér sjálfum.  Fyrir mér voru skátarnir alla tíð undirbúningur undir framtíðina og gildin sem mér voru innrætt þar voru svo mikið í takt við jafnaðarstefnuna sem ég slóst seinna í lið með.  Hvað eru jafnaðarmenn annað en sjálfstæðir, glaðværir, hjálpsamir náttúruvinir, sem vilja með tillitssemi, nýtni, heiðarleika og samvinnu bæta heiminn?

Ég fékk ekki skilið hvernig nokkurri manneskju gæti mislíkað eitthvað svona fallegt.  Hvernig nokkurri manneskju gat fundist þetta ógna öryggi sínu.  Hvernig nokkurri manneskju gat dottið í hug að breyta þessu í blóðugan vígvöll.

Flokksystkini mín í Noregi voru ekki bara ungmenni, mörg þeirra voru börn.  Yngsta fórnarlambið var hin 14 ára og 5 daga gamla Sharidyn Svebakk-Böhn.  Þau voru á Útey til að fræða hvort annað um jafnaðarstefnuna, réttlæti og hugsjónir sínar og blása hvoru öðru baráttuanda í brjóst.  En öfgamaðurinn sá ekki fegurðina.  Hann sá ekki fallega framtíðarmöguleika.  Hann sá ekki ungt fólk sem vildi bæta heiminn.  Hann sá fólk sem ógnaði öryggi hans.  Hann var kristinn hægrimaður á móti alþjóðavæðingu.  Unga fólkið á Útey var ekki bara andstæðan við það, vinstrisinnað fólk með fjölbreyttan menningarlegan bakgrunn, heldur einnig fólk sem barðist með öllum sínum mætti á móti viðhorfum öfgamannsins.  Ungt fólk sem sá framtíðina speglast í fjölbreytileikanum og trúfrelsi sem grundvallaratriði í samfélagi sem virðir hverja lífsskoðun.

Við þekkjum öll söguna af atburðinum.  Hvernig þau földu sig.  Hvernig þau þóttust vera dauð.  Hvernig þau syntu burtu syngjandi.  Ég gerði ráð fyrir að nú myndi heimurinn breytast.  Að Norðurlöndin tækju skref í áttina að Ameríku þar sem allir virðast sekir þar til sakleysi er sannað.  Ég gerði ráð fyrir að nú yrði úti um útilegur íslenskra Ungra jafnaðarmanna, að brátt myndu há öryggishlið og vígreifir verðir vernda skátamót.

Það er ekki svo.  Norska þjóðin tókst á við þessa hræðilegu atburði með æðruleysi og auðmýkt.  Rétt eins og flugvélarnar fljúga núna smekkfullar frá Keflavík, fullar af skátum að fara á næsta heimsmót skáta sem haldið er í Japan, halda norskir Ungir jafnaðarmenn bráðlega til Úteyjar á sumarmótið sitt, í fyrsta skipti í fjögur ár.  Eyjan sem margir sáu vafalaust fyrir sér að yrði að eyðieyju fyllist á ný af mörghundruð ungmennum sem ætla að ræða saman um þema ársins, -alþjóðlega samstöðu.

Í Íslandi er alþjóðleg samstaða einmitt í brennideplinum núna.  Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið hafa samið við Evrópulöndin um að deila 32.000 flóttamönnum á milli sín.  Ísland hefur samþykkt að taka á móti 50 flóttamönnum frá Sýrlandi, Eritreu, Írak og Sómalíu.  Það er hlutfall á pari við Þýskaland miðað við íbúafjölda og er að sönnu skref í rétta átt.  Að mínu mati gæti þó Ísland hæglega gert betur.  Vissulega er hér víða pottur brotinn og við enn að jafna okkur eftir efnahagskreppu, en aðstæður hér eru langt um betri heldur en aðstæður fólksins heimafyrir.  Hér fær það tækifæri.  Hér fær það öryggi.  Hér fær það möguleika á lífi.  Ég myndi vilja taka á móti miklu fleirum!

Margir hafa brugðist ókvæða við á athugasemdakerfum vefmiðlanna.  Þetta fólk er hrætt við að lífskjör þeirra verði skert vegna kostnaðar, að íslensk gildi muni glatast og að fólkið muni ekki aðlagast, kasta trú sinni og verða umsvifalaust að ljóshærðum, bláeyðgum Íslendingum sem elska svið og skyr.  Sumir, ekki allir, en sumir; setja þessa hræðslu sína fram í orðum sem enginn maður ætti að hugsa, hvað þá skrifa á opinberan vettvang. Einn segir “Hvert er þetta land okkar að fara eiginlega, blanda okkar stofni við þetta negrarusl, er ekki nóg að austurevrópuruslið sé komið hingað til að nauðga og stela” og óskar í kjölfarið þess að sá sem andmælir honum hefði verið á Útey þegar Anders Breivik gekk þar um.

En ljósi punkturinn í þessu öllusaman er að þetta vekur fólk upp af værum doða.  Rasískum viðhorfum er andmælt og umburðarlyndir einstaklingar keppast við að reyna að útskýra kosti og nauðsyn þess að flóttamenn séu boðnir velkomnir til Íslands.

Og það eru þessar raddir sem eru mikilvægar.  Það eru raddir jöfnuðar, raddir víðsýni og raddir frelsis.  Frelsis fyrir allt mannkyn, ekki bara það sem var svo heppið að fæðast á réttum stað á réttum tíma.

Það eru þessar raddir sem Anders Behring Breivik ætlaði að þagga niður í, -ætlaði að tortíma.

Okkar raddir verða aldrei þaggaðar.  Við munum alltaf berjast.  Við munum aldrei gleyma.

 

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand