Baráttan um Bretland

Boðað hefur verið til kosninga í Bretlandi 5. maí næstkomandi. Þrátt fyrir að ríflega eitt ár sé eftir af kjörtímabilinu kom fáum á óvart að þing skyldi vera rofið nú; umræða um slíkt hafði verið í gangi í töluverðan tíma. Boðað hefur verið til kosninga í Bretlandi 5. maí næstkomandi. Þrátt fyrir að ríflega eitt ár sé eftir af kjörtímabilinu kom fáum á óvart að þing skyldi vera rofið nú; umræða um slíkt hafði verið í gangi í töluverðan tíma.

Einmenningskjördæmi
Kosið er í einmenningskjördæmum í Bretlandi; sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði í sínu kjördæmi verður þingmaður þess. Þetta leiðir til þess að flokkur getur fengið verulegan meirihluta þingsæta, jafnvel þótt fylgi hans meðal þjóðarinnar sé umtalsvert innan við 50%.

Verkamannaflokkurinn sterkur í síðustu kosningum
Í síðustu kosningum, sem haldnar voru í júní 2001, fékk Verkamannaflokkurinn til dæmis 413 af 659 þingsætum þrátt fyrir að hljóta aðeins 40,7% atkvæðamagnsins, Íhaldsflokkurinn hreppti 166 þingsæti með 31,7% fylgi, Frjálslyndir demókratar nældu sér í 51 sæti með 18,3%, en aðrir fengu minna, samtals 29 sæti og restina af fylginu. Þó svo að 167 þingmanna meirihluti Verkamannaflokksins virðist mjög traustur, þarf því ekki nálægt því eins mikla fylgissveiflu og ætla mætti í fyrstu, til að gera hann að engu.

Þingmönnum fækkað fyrir kosningarnar nú
Ein mikilvæg breyting var samþykkt á kosningakerfinu á yfirstandandi kjörtímabili. Til að draga úr misvægi atkvæða var ákveðið að fækka þingmönnum Skotlands úr 59 í 46, og þar með þingmönnum í neðri deild breska þingsins úr 659 í 646. Talið er að hefði verið stuðst við nýju reglurnar í síðustu kosningum, hefði Verkamannaflokkurinn fengið 10 þingsætum minna en raunin varð, en Íhaldsflokkurinn, Frjálslyndir demókratar og skoskir þjóðernissinnar hefðu orðið að sjá á eftir einu þingsæti hver flokkur.

Meiri spenna en áður
Þær skoðanakannanir sem birtar hafa verið að undanförnu benda til þess að munurinn á milli Verkamanna- og Íhaldsflokksins verði ekki eins mikill nú og í undangengnum tvennum kosningum. Algengt er að þær sýni íhaldsmenn með 32-34%, Verkamannaflokkinn með 36-37% og frjálslynda demókrata með 19-21%. Stöku kannanir hafa þó gefið aðra mynd af stöðu mála – mælt íhaldsmenn með 2-5% forskot á höfuðandstæðinga sína.

Persónulegar vinsældir Tony Blair hafa líka minnkað mikið hin síðari ár, og er það næsta örugglega til þess fallið að veikja stöðu Verkamannaflokksins í kosningunum. Þrátt fyrir þetta búast flestir spekúlantar við að Verkamannaflokkurinn haldi meirihluta sínum í kosningunum, en með töluvert minni þingmeirihluta en áður; hugsanlega á bilinu 70-100 sæti. Telja spekingarnar það renna stoðum undir spár sínar, að kjördæmaskipting er íhaldsmönnum í óhag.

Helstu stefnumál kynnt
Flokkarnir keppast nú við að kynna frambjóðendur sína og stefnumál fyrir kjósendum.

Verkamannaflokkurinn, sem Tony Blair er í forsvari fyrir, leggur áherslu á árangur sinn í efnahagsmálum í kosningabaráttunni. Flokkurinn vill meiri þjónustu við barnafólk, betri árangur í skólum, styttri biðlista á sjúkrahúsum og aukna landamæragæslu.

Íhaldsmenn, undir forystu Michaels Howards vilja lægri skatta, hagræðingu í rekstri hins opinbera, meiri aga í skólum, þrifalegri sjúkrahús með styttri biðlistum, aukna löggæslu (eins og reyndar allir flokkar) – og hafa til viðbótar boðað harðari afstöðu í málefnum innflytjenda.

Frjálsyndir demókratar, sem Charles Kennedy leiðir, lofa að fasteignaskattur (local council tax) verði lagður af, en í staðinn verði sveitarfélögum tryggðar tekjur með hærri tekjuskatti (local income tax). Þeir vilja líka efla stuðning við aldraða, taka upp hátekjuskatt og standa vörð um borgaraleg réttindi.

Söguleg úrslit – hver sem þau verða
Verkamannaflokkurinn hefur aldrei unnið þrennar kosningar í röð. Ef íhaldsmenn ynnu yrði það stærsti kosningasigur þeirra frá upphafi. Ef frjálsyndir demókratar kæmust í oddaaðstöðu þá væri það í fyrsta skipti svo áratugum skipti sem þeir hefðu raunverulegt tækifæri til að hafa áhrif á landsmálin.

Það er því ljóst að hver sem niðurstaðan verður í kosningunum 5. maí næstkomandi – þá hlýtur hún að verða söguleg.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand