Frumkvæði bænda er haldið niðri með gamaldags forsjárpólitík sem viðgengst ekki lengur í öðrum atvinnuvegum. Af hverju eiga bændur einir að búa við opinbera verðstýringu, miðstýrðan ríkisbúskap og framleiðslustýringu? Spyr Anna Pála Sverrisdóttir formaður Ungra jafnaðarmanna.
Ég var ein af þeim sem varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ekki tókst að mynda félagshyggjustjórn í vor. Eftir á að hyggja virðast þó flestir sammála um að ekki hafi verið annað í spilunum. Og ríkisstjórnarsamstarfið er fyrirmyndarhjónaband að því leyti að í því ríkir gagnkvæmt traust.
Ástæður þess að fyrir kosningar vonaðist ég eftir félagshyggjustjórn, voru þær að mér eins og svo mörgum þótti tími kominn til að endurreisa velferðarkerfið. Þess vegna var ég ekki fyrirfram jákvæð á samstarf við hægrimenn í Sjálfstæðisflokknum sem mér þótti kominn tími á að fengju að hvíla sig frá ríkisstjórnarsamstarfi, meðan fólk með réttari forgangsröðun fengi að stjórna.
Þrátt fyrir vonir og væntingar um félagshyggjuríkisstjórn var ég samt meðvituð um að það væri líklegt að næsta stjórnarsamstarf yrði milli Sjálfstæðisflokks og annars vinstriflokkanna. Svo maður fór að leggja niður fyrir sér hvað gæti falist í þess konar samstarfi fyrir minn flokk, Samfylkinguna. Ég hafði fyrst og fremst áhyggjur af því að við myndum láta draga okkur of langt til hægri og að draumurinn um að komast í ríkisstjórn og geta tekið til í velferðarmálunum yrði að einhverri einkavæðingarmartröð.
Auðvitað reyndi maður líka að horfa á hverjir gætu verið kostirnir í svona samstarfi. Mér duttu nokkrir hlutir helst í hug en einn sá stærsti var sá að ef einhver ríkisstjórn einhverra tveggja íslenskra flokka gæti endurskoðað landbúnaðarkerfið okkar, þá væri það ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar.
Fögur fyrirheit í stjórnarsáttmála
Það er svo fyndið að ég get næstum því sagt í stuttu máli að ég sé ánægð með hvernig ríkisstjórnin ætlar að standa að velferðarmálunum, en óánægð með það að einhvern veginn eru engin teikn á lofti um að menn ætli sér að losa landbúnaðinn úr hlekkjum miðstýringar og haftastefnu.
Skoðum aðeins hvað segir um landbúnaðarmál í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í þeim kafla hans sem fjallar um atvinnulífið kemur þetta meðal annars fram: „Mikilvægt er að heilbrigð samkeppni og eðlileg verðmyndun þrífist á öllum sviðum atvinnulífsins og að neytendur njóti góðs af þeirri samkeppni. […] Ríkisstjórnin leggur áherslu á mikilvægi öflugs landbúnaðar og hágæðaframleiðslu á matvælum í landinu. Unnið verði að endurskoðun landbúnaðarkerfisins með það fyrir augum að auka frelsi, bæta stöðu bænda og lækka verð til neytenda.“
Þetta eru fögur fyrirheit. Hins vegar hefur lítið heyrst af því að landbúnaðarráðherra ætli sér að fylgja þeim eftir. Landbúnaðarráðuneytið færðist yfir til Sjálfstæðisflokks frá Framsóknarflokki sem hafði farið með það ráðuneyti í tíð ríkisstjórnar þeirra flokka. Þegar nýr ráðherra tók við málaflokknum hefði verið kjörið tækifæri til þess að gefa það út að nú myndu áherslurnar breytast, eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Meðan aðrir nýir ráðherrar gættu þess að strax yrði ljóst að skipt hefði verið um manninn í brúnni, heyrðist fátt um svoleiðis frá landbúnaðarráðherra. Vissulega eiga breytingar sér ekki stað með yfirlýsingunum einum saman, en þær eru nauðsynlegar svo kjósendur viti hvaða stefnu er verið að fylgja.
Enginn græðir
Á Íslandi borgum við heimsins hæsta verð fyrir matvæli út úr búð en ekki bara það, heldur eru ríkisstyrkir okkar til landbúnaðarins þeir hæstu í heimi samkvæmt nýrri skýrslu OECD. Það er risahagsmunamál heimila í landinu að innflutningskvótar og -tollar verði felldir niður, af því það er algjörlega óþarfur kostnaður sem fylgir þess konar kerfi. Þetta gildir líka um einhliða niðurfellingu tolla – það er neytendum alltaf í hag að aðgangur innlendra sem erlendra framleiðenda að markaðinum sé óhindraður.
Það er ekki hægt að réttlæta núverandi landbúnaðarkerfi með því að það tryggi bændum viðunandi kjör. Engir kvótagreifar í bændastéttinni. Frumkvæði bænda er haldið niðri með gamaldags forsjárpólitík sem viðgengst ekki lengur í öðrum atvinnuvegum. Af hverju eiga bændur einir að búa við opinbera verðstýringu, miðstýrðan ríkisbúskap og framleiðslustýringu? Auðvitað á þó ekki að gera róttækar breytingar á mettíma og kippa fótunum undan bændafjölskyldum – þær miklu breytingar sem þarf að gera krefjast aðlögunartíma.
Ég vona að með tímanum muni það koma í ljós að ég hafi haft rétt fyrir mér með það að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks yrði sú sem kæmi landbúnaðarmálum á réttan kjöl. Ef nýr landbúnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins ætlar sér ekkert í þessum málum vil ég biðja flokkssystkini mín í Samfylkingunni að beita sér fyrir að það verði gert. Það er löngu tímabært að aðskilja ríki og landbúnað. Það græðir nefnilega enginn á núverandi kerfi.
Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag, 6. nóvember 2007