Ályktanir aðalfundar UJH

Á aðalfundi ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði voru nokkrar ályktanir samþykktar, þar á meðal ályktaði félagið um skipulagsmál, auðlindamál, ástandið í Pakistan og Evrópumál.

Ályktun um skipulagsmál

Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði leggja til að stofnuð verði ný óháð þverpólitísk nefnd sem móti framtíðarsýn um uppbyggingu miðbæjarins. Farið verði í heildstæða skipulagsvinnu á miðbænum frá Vesturgötu til Íshúss sem mótist af kjörorði Samfylkingarinnar um samráð og sátt. Öllum framkvæmdum á svæðinu verði frestað þar til sú vinna hefur farið fram.

Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði krefjast þess að staldrað verði við í háhýsavæðingu miðbæjarins. Við höfnum því að Drafnarsvæðið verði lagt undir íbúðabyggð. Við viljum að haldin verði hugmyndasamkeppni um skipulag þess opna svæðis sem myndast þegar Dvergur verður rifinn.

Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði harma þá skipulagsóreiðu sem einkennt hefur uppbyggingu miðbæjar Hafnarfjarðar svo áratugum skiptir. Núverandi miðbæjarskipulag einkennist af hálfkláruðum hugmyndum og skorti á framtíðarsýn.

Ályktun um fund vopnaframleiðenda

Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði harma fund stríðsmangaranna í breska vopnaframleiðslufyrirtækinu BAE Systems á Hilton-Nordica-hótelinu. Þetta fyrirtæki hefur hiklaust selt vopn til allra handa einræðis- og kúgunarstjórna. Má þar nefna sölu á svonefndum Hawk-herþotum til Zimbabwe sem notaðar voru í hinu hörmulega borgarastríði í Kongó, sem og sölu á sams konar þotum til Indónesíustjórnar sem beitt var í þjóðarmorðinu á Austur-Tímor. Það er einstaklega óviðeigandi að þessir menn skuli funda hér í ljósi þess að nýlega var sett upp minnismerki í Reykjavík um hinn mikla og einlæga friðarsinna John Lennon. UJH hvetja til þess að framvegis verði komið í veg fyrir allar ráðstefnur vopnaframleiðenda hér á landi með sama hætti og komið var í veg fyrir ráðstefnu klámframleiðenda fyrr á árinu. Þá krefjast UJH sem endranær tafarlausrar úrsagnar úr kjarnorkuvopnabandalaginu NATO.

Ályktun um auðlindamál

Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði fagna útrás íslenskra fyrirtækja og telja hana góða viðbót við hagkerfi Íslands. UJH vilja þó leggja áherslu á það að auðlindir Íslands verði ekki boðnar upp. Þess vegna hvetja UJH Alþingi til að setja lög um nýtingu og eignarhald auðlinda hið fyrsta.

Málefni Orkuveitunnar sýna nauðsyn gegnsæis og aðhalds í opinberum rekstri. Einnig sýna þau hættuna af því þegar farið er út í einkavæðingu og brask með dýrmætustu eignir þjóðarinnar.

Ályktun um frumvarp til breytinga á áfengislögum

Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði hvetja þingheim til þess að samþykkja frumvarp til breytinga á áfengislögum. UJH telja það óeðlilegt að ríkisvaldið einoki og stýri algerlega allri sölu á fullkomlega löglegri vöru. Mýmörg dæmi eru um það, víða um land, að einkaaðilar hafi tekið að sér rekstur áfengisverslana með góðum árangri. Neyslustýring ríkisvaldsins mun áfram verða til staðar í formi skattlagningar, aldurstakmarkana og ýmissa reglna sem getið er um í frumvarpinu.

UJH leggja þó áherslu á að eftirliti með áfengisverslun verði sinnt eins vel og mögulegt er og að viðurlög við brotum á lögum þessum verði mjög ströng.

UJH vilja einnig vekja athygli á því ósamræmi sem felst í því að sjálfræðisaldur, með öllum þeim réttindum sem honum fylgja, sé ekki sá sami og þarf til áfengiskaupa.

Ályktun um ástandið í Pakistan

Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði fordæma þá ákvörðun Pervez Musharraf að setja neyðarlög í Pakistan. Musharraf hefur tekið sér alræðisvald, lokað fyrir útsendingar einkasjónvarpsstöðva og nú eru vopnaðar sveitir á verði í byggingum ríkissjónvarpsins og útvarpsstöðva í höfuðborg Pakistans, Islamabad.

Þess er nú beðið í Pakistan að hæstiréttur landsins kveði upp úrskurð sinn um það hvort endurkjör Musharrafs í embætti í síðasta mánuði hafi verið löglegt þar sem hann hafði ekki afsalað sér æðstu yfirstjórn hersins. Samkvæmt fjölmiðlum telja háttsettir embættismenn í landinu að úrskurðurinn falli Musharraf í óhag.

UJH lýsa yfir fullum stuðningi við Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans sem sneri fyrir nokkru úr sjálfskipaðri útlegð. Hún hefur sagt að með neyðarlögunum vilji Pervez Musharraf seinka kosningum í að minnsta kosti tvö ár. Aðgerðir Musharrafs eru með öllu ólíðandi enda einræðistilburðir og aðför að lýðræðinu.

Ályktun um Evrópumál

Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði skora á Samfylkinguna að halda hátt á lofti stefnu sinni um ESB-aðild í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi og láta ekki öfl innan Sjálfstæðisflokksins drepa þá umræðu niður.

Ályktun um hjólabrettaaðstöðu

Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði fagna því að Hafnarfjarðarbær ætlar að taka forystu í aðstöðu hjólabrettaiðkenda á landsvísu. Þótt íþróttin sé ekki viðurkennd af ÍSÍ þá rýrir það ekki gildi hennar. Hafnarfjarðarbær á sem fyrst að hefja framkvæmdir við steypta, upphitaða hjólabrettaaðstöðu miðsvæðis í bænum. UJH leggja áherslu á að aðstaðan verði opnuð hjólabrettaiðkendum á afmælisári bæjarins 2008.

Ályktun um landbúnaðarmál

Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði skora á ríkisstjórn Íslands að afnema innflutningstolla af landbúnaðarvörum í áföngum og hefjast handa við það hið fyrsta. UJH minna á stefnu Samfylkingarinnar í þessum málum, en í fréttatilkynningu frá þingflokki Samfylkingarinnar í september 2006 segir að flokkurinn vilji fella niður innflutningstolla af matvælum með öllu á tæplega tveimur árum.

UJH skora jafnframt á ríkisstjórnina að hætta ríkisstuðningi við landbúnaðarframleiðslu og hefja undirbúning að því og aðlögun sem fyrst í samráði við hagsmunaaðila.

Það er mikið hagsmunamál fyrir mörg af fátækustu ríkjum heims að fá aðgang að mörkuðum Vesturlanda með landbúnaðarvörur og fá að keppa þar á samkeppnisgrundvelli. Hnattvæðingunni á ekki einungis að vera stýrt af hagsmunum Vesturlanda, líkt og raunin hefur verið hingað til, heldur eiga allir íbúar jarðar að geta notið hennar. Það er ekki siðferðislega verjandi að Vesturlönd, sem hafa knúið fram fjárfestingafrelsi og frjálsa verslun með iðnaðarvörur sem víðast í heiminum, skuli samhliða því neita fátækustu ríkjum heims um að selja vörur sínar á vestrænum mörkuðum.

Í þessu samhengi er rétt að benda á að velfarnaður Íslendinga byggist að stórum hluta á því að við höfum getað selt fiskafurðir okkar á erlenda markaði. Jafnframt hafa íslensk stjórnvöld barist fyrir frjálsri verslun með fiskafurðir á alþjóðavettvangi. Við getum rétt ímyndað okkur stöðu Íslands ef önnur lönd hefðu verndað sinn sjávarútveg með sama hætti og við verndum okkar landbúnað.

Þar að auki er þetta mikið hagsmunamál fyrir íslenskan almenning enda er viðbúið að matvælaverð myndi lækka til muna við þessar aðgerðir.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand