Aukum vægi einkareksturs í heilbrigðisþjónustu

Markmiðið með auknum einkarekstri eða reksturs sjálfseignarstofnana í heilbrigðisþjónustu er að betri þjónusta fáist fyrir sömu eða minni fjármuni. Það er því markmiðið og árangur þjónustunnar sem skiptir máli en ekki leiðin að því. Tryggingaverndin og greiðsluþátttakan er pólitísk ákvörðun en ekki þjónustuformið. Þrátt fyrir að rúmlega fjórðungur fjárlaga ríkisins sé varið til heilbrigðismála hafa heilbrigðismál ekki verið áberandi málaflokkur í íslenskri pólitík.

Stjórnmálaflokkarnir virðast hafa veigrað sér við að móta skýra stefnu í þessum þýðingarmikla máli. Það kom því sér vel þegar flokksmenn Samfylkingarinnar ákváðu á landsfundi flokksins í október 2003 að Samfylkingin tæki forustu í mótun nýrrar heilbrigðistefnu landsmanna. Settar voru fram ákveðnar forsendur fyrir endurbótum á heilbrigðiskerfinu þar sem markmið jafnaðarstefnunnar um jöfnuð og sanngirni stóð óhaggað áfram.

Undirritaður leiddi framkvæmdarhóp verkefnisins og voru haldnir á þriðja tug opinna funda og ráðstefna víða um land um þetta brýna málefni. Afrakstur vinnunar var myndarleg skýrsla sem skilað var á landsfund Samfylkingarinnar síðastliðið vor. Skemmst er frá því að segja að skýrslan var samþykkt lítið breytt sem stefna flokksins í heilbrigðismálum.

Einkarekstur en ekki einkavæðing
Niðurstaða stefnumörkunarinnar var í 10 liðum. Þar var m.a. mælt með að aukið yrði vægi einkareksturs, sjálfeignarstofnana, útboða og þjónustusamninga í heilbrigðisþjónustu þar sem markmið jafnaðarstefnunarinnar væru tryggð. Samfylkingin telur því að skoða eigi breytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni með opnum en gagnrýnum huga. Flokkurinn er þó tryggur sínum hugsjónum um að heilbrigðisþjónusta beri að vera greidd af sameiginlegum sjóðum allra landsmanna og að aðgangur að heilbrigðisþjónustu sé óháður efnahag.

Með einkarekstri er átt við að einkaaðilar, félagasamtök, starfsfólk og fleiri reki umrædda þjónustu en hið opinbera sjái áfram um fjármögnun rekstursins og að greiða fyrir þjónustuna. Ekki er verið að mæla fyrir einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu þar sem einstaklingar eða einkatryggingar eru látnar greiða fyrir heilbrigðisþjónustuna.

Læknafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru meðal þeirra fjölmörgu aðila sem bent hafa á nauðsyn þess að hafa ólík rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni.

Markmiðið skiptir máli en ekki leiðin
Markmiðið með auknum einkarekstri eða reksturs sjálfseignarstofnana í heilbrigðisþjónustu er að betri þjónusta fáist fyrir sömu eða minni fjármuni. Það er því markmiðið og árangur þjónustunnar sem skiptir máli en ekki leiðin að því. Tryggingaverndin og greiðsluþátttakan er pólitísk ákvörðun en ekki þjónustuformið.

Einkarekstur getur verið öflugt tæki gegn biðlistum og aukið valkosti, frumkvæði, hagkvæmni og starfsánægju í heilbrigðiskerfinu, bæði hjá starfsfólki og sjúklingum. Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu má nú finna víða hérlendis og gengur slíkt rekstrarform vel á sviði öldrunarþjónustu, í sérfræðilækningum, lyfsölu, vaktþjónustu, sjúkraþjálfun og tannlækningum. Auka má þó vægi einkareksturs víða t.d. í heilsugæslu, heimaþjónustu, endurhæfingu, rannsóknum, öldrunarþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu og í margvíslegri stoðþjónustu heilbrigðisstofnana s.s. í mötuneytum, ræstingum o.s.frv.
Víða, m.a. á Norðurlöndunum, eru notaðir þjónustusamningar sem eru byggðir á kostnaðargreiningu þarfarinnar t.d. með DRG-kostnaðargreiningu.

Gæta þarf að ýmsu
Einkarekstur og þjónustusamninga um heilbrigðisþjónustu þarf að undirbúa vel og þarf hið opinbera að hafa markmið, skilgreiningar, ábyrgð og skilyrði skýr áður en tekið er upp slíkt fyrirkomulag. Tryggja þarf að allir hafi jafnan aðgang að þjónustunni, hvort sem leitað er til opinberra stofnanna eða einkaaðila. Sömuleiðis þarf að tryggja að ekki sé hægt að kaupa sér fram fyrir röðina og biðlistana. Efla þarf eftirlit í heilbrigðiskerfinu en slíkt eftirlit þarf einnig að taka til opinbers reksturs í heilbrigðisþjónustu. Samkeppnin og ríkt eftirlit þarf að tryggja gæði þjónustunnar og þyrfti opinber aðili að koma að mati á þörfinni fyrir viðkomandi þjónustu.

Með auknum einkarekstri í heilbrigðisþjónustu þarf sömuleiðis ætíð að tryggja aðgang nemanda í heilbrigðisvísindum að þeirri starfsemi sem þar fer fram. Huga þarf einnig að rekstri ríkisins í heilbrigðisþjónustu sem er samhliða rekstri félagasamtaka og einstaklinga sem einnig veita svipaða heilbrigðisþjónustu. Hægt væri hugsa sé að opinberir aðilar léti einkaaðilum algjörlega eftir viss svið heilbrigðisþjónustu þar sem tryggt væri að þjónustan væri bæði hagkvæmari og betri í höndum viðkomandi einkaaðila.

Eftir að þjónusta í glasafrjóvgunum fór í einkarekstur hefur ánægjan með þjónustuna aukist og biðlistar minnkað til muna. Þó virðist vanta enn meira opinbert fjármagn í þessa mikilvægu þjónustu og ég tel að hið opinbera eigi að koma þar inn sem fyrst. Þörfin hefur verið vanmetin og þarf hið opinbera að taka mið af því.

Skipta upp heilbrigðis- og tryggingamálaráðneyti
Hér á landi er ríkisvaldið yfirleitt bæði seljandi og kaupandi heilbrigðisþjónustunnar en það þarf ekki að vera svo. Fjármögnun þjónustunnar á að vera á hendi hins opinbera en rekstur getur verið á vegum einkaaðila, s.s. heilbrigðisstarfsfólks eða félagasamtaka. Þannig verður hið opinbera öflugur kaupandi þjónustu og um leið verjandi sinna umbjóðenda sem þjónustunnar njóta. Til að þetta megi vera mætti skipta heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í tvö ráðuneyti.

Annað ráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, sæi um veitingu heilbrigðisþjónustu með rekstri þeirra heilbrigðisstofnana þar sem t.d. eru ekki forsendur fyrir að aðrir reki. Hitt ráðuneytið, tryggingamálaráðuneytið, hefði almannatryggingar, málefni Tryggingarstofnunar ríkisins og jafnvel félagsmál á sinni könnu. Þetta ráðuneyti sæi um að kaupa fyrir landsmenn þá heilbrigðisþjónustu sem þarf af opinberum eða einkareknum heilbrigðisstofnunum og greiða út bætur og sjúkratryggingar. Eftirlitshlutverk þessa nýja tryggingamálaráðuneytis, eða breytts félagsmálaráðneytis, sem kaupanda þjónustunnar þyrfti að efla til muna.

Við slíkt fyrirkomulag er rekstrarumhverfi heilbrigðisþjónustu fært nær lögmálum markaðarins án þess að færa kostnaðinn á sjúklinginn þar sem hið opinbera borgar áfram fyrir þjónustuna. Þetta hvetur til sparnaðar og hagkvæmni en girt er fyrir að sjúklingum væri neitað um þjónustu, þar sem greitt er fyrir alla meðferð af opinberu fé.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand