Auknar álögur ríkisstjórnarninnar á einstaklinga

Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, Birgir Ármannsson, svarar 3. mars grein minni í Morgunblaðinu frá 27. febrúar um stöðu skattamála eftir 12 ára stjórnartíð forsætisráðherra. Grein Birgis er um margt einkennileg. Í tíð Davíðs Oddssonar hefur tekjuskattbyrði einstaklinga aukist og ekki eru efasemdir hjá neinum um það. Birgir telur hins vegar að það sé fullnægjandi skýring að tekjur hafa aukist og því sé aukin skattbyrði í góðu lagi. Því er ég ósammála. Hina auknu skattbyrði má fyrst og fremst rekja til þeirrar aðgerðar ríkisstjórnarinnar að rjúfa vísitölubindingu persónuafsláttar sem var áður en Davíð Oddsson komst til valda.

Ríkið fær stærri sneið af kökunni en áður
Það sem er þó mikilvægast í þessu sambandi er að ríkisvaldið tekur nú stærri sneið af kökunni en áður. Þetta þýðir að ríkið tekur meira af hverjum 100.000 krónum sem verða til í þjóðfélaginu árið 2001 en það gerði árið 1995. Sú staðreynd stendur óhögguð.
Skattbyrði er lykilhugtak en það er sá hluti tekna sem er greiddur í skatt. Skattbyrði einstaklinga hefur aukist hvernig sem litið er á það þrátt fyrir lækkun á prósentuhlutfalli tekjuskattsins. Því til sönnunar að prósentubreytingar á skatthlutfalli segi alls ekki alla söguna staðfestu kollegar Birgis hjá Samtökum atvinnulífsins í 4. tbl. fréttablaðs síns árið 2001 að þrátt fyrir talsverða lækkun á tekjuskattshlutfalli hjá fyrirtækjum á síðasta áratugi hafi raunvirði tekjuskatt lögaðila farið hækkandi á þeim áratug vegna aðgerða ríksstjórnarinnar.
Önnur sláandi staðreynd stendur óhögguð. Samneyslan, sem er neysla hins opinberra sem hlutfall af landsframleiðslu, hefur aukist um rúm 13% frá 1995 til 2001. Með öðrum orðum hefur báknið aukist um rúm 13% í tíð núverandi ríkisstjórnar og því mótmælir Birgir ekki.

Afrekin eru ekki glæsileg gagnvart barnafólki
Birgi Ármannssyni finnst það vera í góðu lagi að láglaunafólk og lífeyrisþegar með laun og bætur undir 90.000 krónum á mánuði greiði um 1 milljarð króna í tekjuskatt og útsvar sem það gerði ekki fyrir tíma Davíðs Oddssonar. En það er ekki í góðu lagi og sýnir vel mismunandi hugmyndafræði frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Við mælum ekki bót skattlagningu á þá sem minnst mega sín í samfélaginu eins og Sjálfstæðismenn gera.
Birgir er sannfærður um að barnabætur hafi ekki verið skertar vegna aukinna útgjalda ríkisins til þeirra frá árinu 1999. Barnabætur eru nú um 36.000 kr. á ári en á sambærilegu verðlagi í janúar 2003 voru þær hins vegar um 40.000 krónur þegar núverandi ríkisstjórn tók við árið 1995. Árið 1988 voru barnabætur 46.000 kr. á sama verðlagi. Á þessu sést að barnabætur voru skertar frá því sem var og hér tala tölurnar sínu rétta máli.
Barnabætur hafa verið skertar um rúma 10 milljarða króna í tíð núverandi ríkisstjórnar með því að láta viðmiðunarfjárhæðir ekki fylgja verðlagsþróun og vegna tekjutengingar á barnabótum. Fólk fékk hærri barnabætur árið 1995 en það fær árið 2002 og fleiri fengu þær. Nú fá aðeins 11,3% foreldra óskertar barnabætur og liðlega 3% hjóna.
Eftir standa afrek ríkisstjórnar forsætisráðherrans eftir 12 ára setu að meiri skattbyrði er á einstaklingum, engar tekjuskattslækkanir urðu að raunvirði á fyrirtæki allan 10. áratuginn, báknið er stærra en nokkurn tíma áður, áður óþekkt skattheimta er lögð á láglaunafólk og bótaþega, barnabætur eru lægri, tryggingargjöld eru hærri, stórauknir skattar voru lagðir á áfengi og tóbak, loforð um 900 milljóna króna lækkun stimipilgjalda var svikið, þjónustugjöld stórjukust, síaukinn lyfjakostnaður heimilanna liggur fyrir og eitt hæsta matvælaverð heims. Þetta er reynslan af meira en áratugavaldatíð forsætisráðherrans.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand