Aukin lífsgæði með breyttu neyslumynstri

,,Fyrsta skrefið hjá okkur er þó að skoða neyslumynstrið okkar og skoða með gagnrýnum augum hvort að við forgangsröðum rétt“. Segir Sölmundur Karl Pálsson ritstjóri politik.is í grein dagsins. 

 

Í síðasta ritstjórapistli spurði ég þeirrar spurningar hvernig  best væri að mæla hagsæld. Ein af niðurstöðum mínum var að helsta verkefni íslenskra stjórnmála væri að ýta undir styttri vinnutíma hjá fólki en samt sem áður að viðhalda háum lífsgæðum. Þetta verkefni er mjög erfitt, krefst mikillar hugafarsbreytingar hjá okkur öllum – en að sama skapi er verkefnið ekki ómögulegt. Það er ekki nóg að líta einungis á verga þjóðarframleiðslu sem viðmið á lífsgæði, eða verga þjóðaframleiðslu á mann. Það þarf alltaf að meta hversu mikla möguleika einstaklingar hafa til að öðlast menntun og skapa sér önnur tækifæri án tillits til fjárhags. Það þarf einnig að skoða hversu margar vinnustundir liggja að baki þjóðarframleiðslu. Eru það raunveruleg lífsgæði að þurfa að vinna miklu meira en aðrar þjóðir til að viðhalda sömu lífsgæðum? Nú þegar samdráttur er að eiga sér stað í efnahagslífi Íslendinga er fólk kannski loksins farið að átta sig á að efnisleg gæði eru ekki allt.

 

Börnin hafa gleymst. Eitt af því sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið sig vel í eru málefni barna. Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar þegar hún tók við var að bæta stöðu barna í samfélaginu. Hins vegar er annað sem þarf nauðsynlega að bæta því miður ekki á verksviði alþingismanna heldur okkar allra. Íslendingar vinna mjög mikið og erum við afar stolt af því hversu dugleg við erum. Á síðustu árum höfum við því miður gleymt okkur aðeins í lífsgæðakapphlaupinu. Sumir vinna mikið bara til að ná endum saman en all margir þurfa að vinna mjög mikið bara til þess að eiga fyrir afborgunum af flottum jeppum eða annarri lúxusvörum sem það hefur fest kaup á í ,,góðærinu”.

 

Í lífsgæðakapphlaupinu höfum við  gleymt börnunum okkar sem eru meira og minna alin upp af stofnunum. Reyndar hafa leikskólakennarar og grunnskólakennarar staðið sig með sóma en við erum ekki að verðlauna þau nóg fyrir það góða starf. Það má ekki heldur misskilja svo að ritstjóri sé á móti því að konur séu virkir þátttakendur í atvinnulífinu heldur tek ég því fagnandi að konur séu farnar að gera sig meira gildandi á vinnumarkaðnum. Öflugt fjölskyldulíf getur reynst góð forvörn sem styrkir börnin okkar sem einstaklingar. Það er ekki hægt að setja verðmiða á samverustundir fjölskyldunnar og sú aukna ánægja með fleiri samverustundum fjölskyldunnar koma ekki fyrir í þjóðhagsreikningum. Að fækka vinnustundum er erfitt ef miðað er við lífgæðakapphlaupið okkar, en spurningin sem ættum að spyrja er sú hvernig getum við fækkað vinnustundum okkar og samt haldið sömu lífsgæðum?

 

 Neyslumynstur endurskoðað

 

Flestir hafa fundið fyrir samdrætti í efnahagslífinu, einstaklingar og fyrirtæki eru farin að halda að sér höndum eftir nokkurra ára ,,neyslufyllerí”. Í dag virðist hagkerfið okkar vera að leita að nýju jafnvægi. Það verður sársaukafullt fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki að hagkerfið sé að leita að nýju jafnvægi, margir munu missa vinnuna og kaupmáttur mun rýrna hjá langflestum. En við getum þó litið á þennan samdrátt sem tækifæri til að breyta neyslumynstri okkar og endurbyggja hagkerfið þannig að það verði raunverulega sterkt. Nú þegar harðnar á dalnum er gott að endurskoða neyslu okkar undanfarin ár. Íslendingar hafa keppst við að festa kaup á rándýrum bílum og húsum þó að þeir hafi í raun ekki átt efni á því. Einnig er gott að senda þau skilaboð til barnanna okkar að lántaka leysi ekki allan vanda og hvað þá að taka lán bara til að sýna nágrönnunum hversu vel okkur gengur. Á þessum tímum er gott að sjá hvað sé mikilvægast í heimi, fjölskyldan. Væri ekki gott að geta eytt meiri tíma með börnunum frekar en í vinnunni eða vera ávallt með magakveisu yfir afborgunum á flotta jeppanum?

 

Eitt af því sem sem við þurfum að ræða næstu mánuðina er hvernig við getum minnkað vinnuna og farið að einbeita okkar af því sem skiptir líklega mestu máli. Það þarf að ræða hlutina alvarlega hvernig við getum bætt lífsgæði Íslendinga. Fyrsta skrefið hjá okkur er þó að skoða neyslumynstrið okkar og skoða með gagnrýnum augum hvort að við forgangsröðum rétt.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand