Atkvæðaveiðar á kostnað mannréttinda

Heiða Björg Pálmadóttir segir í framhaldi á umræðu seinustu daga um viðhorf forystumanna Frjálslynda flokksins til fólks af erlendum uppruna að lausnin felist ekki í að loka landamærum Íslands. Staðreyndin sé sú að fólk sem kemur annars staðar að kemur hingað til þess að sinna störfum sem annars væru ekki unnin. Heiða Björg segir einnig að orðið einstaklingur ber með sér viðurkenningu á þeirri staðreynd að hver maður er sérstakur og ólíkur öðrum (=einstakur). Og þeir sem telja heppilegra að íslenskt samfélag standi saman af kristnum einstaklingum ættu ef til að kynna sér boðskap kristinnar trúar og fylgja eftirfarandi orðum Krists: „Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“.

Umræður og fréttir undanfarinna daga í kjölfar ummæla Magnúsar Þórs þingmanns Frjálslyndaflokksins í Silfri Egils um helgina hafa vakið mig til umhugsunar. Hér er á ferðinni tilraun flokksins til að koma í veg fyrir að hann þurrkist út, en skoðanakannanir hafa gefið til kynna að fylgi hans fari minnkandi. Hér er um að ræða atkvæðaveiðar á kostnað mannréttinda, því staðreyndin er sú að svona ummæli hafa í för með sér að upp blossar rasismi og fólk finnur réttlætingu á því að brjóta gegn rétti fólks til að vera til og búa í því samfélagi sem það býr án þess að verða fyrir aðkasti og neyðir fólk til að þurfa að réttlæta sig og tilverurétt sinn í tíma og ótíma.

Þegar ég var að útskrifast úr lögfræðinni fór ég í nokkur atvinnuviðtöl hjá opinberum stofnunum. Þegar ég mætti í eitt þeirra tók starfsmannastjórinn á móti mér en svo liðu nokkrar mínútur áður en þeir sem tóku viðtalið með honum mættu. Á meðan við biðum spurði starfsmannastjórinn mig að því hvort ég væri útlensk. Það kom örlítið á mig, ég var búin að undirbúa mig vel undir viðtalið, kynna mér stofnunina og verkefnin sem lýst var í auglýsingunni um starfið, en ég var ekki alveg tilbúin undir að þurfa að útskýra uppruna minn. Ekki það að ég skammist mín fyrir það að vera ættleidd eða finnist það sérstakt tiltökumál en ég sá, og sé ekki enn, hvað starfsmannastjóranum kom það við. Til gamans má geta þess að í umsókninni hafði ég tekið fram hvað foreldrar mínir heita og nöfn þeirra (Soffía og Pálmi) gefa ekki beint tilefni til umræddrar spurningar. En spurningin hefði í sjálfu sér verið jafn óviðeigandi þó nöfn foreldra minna hefðu verið exótískari en raun ber vitni. Hvernig gat uppruni minn skipt máli fyrst umsóknin og spjall okkar báru augljóslega með sér að færni minni í íslensku var ekki áfátt (eðlilegt í ljósi þess að í auglýsingu um starfið var skilyrði um góða íslenskukunnáttu) og skírteini frá Háskóla Íslands sannaði ég uppfyllti þær menntunarkröfur sem gerðar voru til starfsins í auglýsingunni? Starfsmannastjórinn skoraði að minnsta kosti ekki mörg stig við þetta.

Fyrir nokkrum árum þurfti ég að fara með leigubíl frá heimili mínu á BSÍ og eftir að ég hafði sagt leigubílstjóranum hvert ég var að fara fannst honum hann knúinn til að spyrja mig hvort ég væri íslensk. „Jú, jú“, svaraði ég, „ég er íslensk“. Og þá spurði hann: „ertu alveg viss um að þú sért íslensk, þú lítur ekki þannig út“. Honum fannst þetta greinilega eitthvað sem ég gæti ruglast á. Ég svaraði aftur játandi. „Ég trúi þér ekki“ voru þá viðbrögð hans og þar sem ég hafði svo sem ekki mikinn áhuga á að rökræða við hann um málið eða en hafði ekki áhuga á að deila því með manni sem ég vissi ekki hvað hét að foreldrar mínir gætu ekki getið barn saman urðu samræðurnar ekki lengri. Hvernig er líka hægt að rökræða um svona, átti ég að sýna honum stimplað vottorð um ríkisfang eða vottað afrit úr Íslendingabók máli mínu til sönnunar? Það seinna hefði líklega ekki gengið upp þar sem ég er samkvæmt Íslendingabók ekkert skyld minni fjölskyldu.

Á menntaskólaárum mínum vann ég á kvöldin og um helgar í kvikmyndahúsi. Eitt skiptið þegar mikið var að gera og nánast uppselt í hvert sæti í húsinu fékk ég það verkefni að hleypa fólki út úr sölum og tryggja að allir færu út réttu megin þar sem mikill fjöldi beið eftir næstu sýningu og ekki var hægt að komast út öfugum megin. Þegar ég var að hleypa út af einni sýningunni þurfti ég að stöðva miðaldra konu sem vildi ekki fara út um réttan útgang eins og aðrir sýningargestir. Konan var vel tilhöfð, með lagt hár, í síðum pels og með skartgripi sem voru örugglega ekki keyptir í Skarthúsinu. Hún var ekki hress þegar henni var bent á að það væri ekki hægt að komast út uppi vegna þess hversu margir biðu eftir að vera hleypt inn. Konan nálgaðist mig en hrökklaðist svo skyndilega í burtu. „Ertu arabi?“ spurði hún, „þú ert ógeð“. Áður en ég náði að koma upp orði hafði hún snúið við og farið út um sömu dyr og aðrir sýningargestir. Það er naumast hvað 17 ára stúlka sem er rétt tæpir 160 cm á hæð getur verið skelfileg.

Svona rasismi fær byr undir báða vængi í mjög svo sérkennilegum orðum þingmanna og forsvarsmanna Frjálslynda flokksins um útlendinga hér á landi. Hræðsluáróður um hættu á sæmdarmorðum og að verið sé að taka störf af Íslendingum eru ekki til þess fallinn að vekja upp málefnalega umræðu um útlendinga. Fordómar og vanvirðandi framkoma særir og er eingöngu til þess að minnka líkurnar á að þeir sem hingað koma aðlagist íslensku samfélagi.

Múhameðstrú er ein útbreiddasta trúin á hnettinum. Almennt eru múslimar ekki hættulegri en fólk sem aðhyllist önnur trúarbrögð. Auðvitað eru til múslimar sem fremja afbrot, en það er ekkert alltaf hægt að tengja afbrotin við trúna, ekki einu sinni þegar um er að ræða afbrot gegn konum eða sjálfsmorðsárásir. Ég veit ekki betur en að kristnir karlmenn á Íslandi myrði, nauðgi og lemji konur án þess að afbrot þeirra séu beintengd við íslensku þjóðkirkjuna. Sjálfsmorðsárásir Palestínumanna gegn Ísraelum koma trú þeirra ekkert við heldur eru þær nánast eina leið þeirra til að berjast gegn ríki sem hefur haldið palestínsku þjóðinni í heljargreipum með gríðarsterkum her og stuðningi Bandaríkjanna.

Öfgatrú er aftur á móti alltaf hættuleg, alveg sama hvort um er að ræða múslima, kristna eða önnur trúarbrögð. Bush er öfgakristinn sem lætur kenna sköpunarsögu Biblíunnar til jafns við þróunarkenningu Darwins, ber ábyrgð á skelfilegum mannréttindabrotum í Guantanamo búðunum og leynilegum fangelsum víða um heim og hefur nýverið staðfest lög sem heimila pyndingar á þeim sem bandaríski herinn og leyniþjónustan telja að gætu verið hryðjuverkamenn. „Smáatriði“ eins og meginreglan um að maður teljist saklaus uns sekt er sönnuð og sú staðreynd að rannsóknir hafa sýnt að pyndingar eru ekki til þess fallnar að afla áreiðanlegra upplýsinga eru ekki mikið að flækjast fyrir honum. Bush hefur mun fleiri líf á samviskunni í tengslum við krossför sína (hans orð, ekki mín) gegn hryðjuverkum en höfuðpaurar Al-Kaeda og sambærilegra samtaka, og er mun meiri ógn við heimsfriðinn. Samt verður maður ekki mjög var við umræðu um það hér á landi eða í öðrum vestrænum ríkjum hversu hættulegir kristnir menn geti verið samfélaginu.

Lausnin felst ekki í að loka landamærum Íslands, sem er hreinlega ekki raunhæfur kostur. Staðreyndin er sú að fólk sem kemur annars staðar að kemur hingað til þess að sinna störfum sem annars væru ekki unnin. Fiskvinnslan er gott dæmi um það. Ef ekki væri fyrir erlent vinnuafl þá væri íslenska þjóðin í mjög slæmum málum. Það vantar fleiri vinnufærar hendur hér en við höfum. Að sjálfsögðu er mikilvægt að það fólk sem hingað kemur aðlagist íslensku samfélagi en þá hvílir það líka á okkur, íslensku þjóðinni, að gefa þeim sem hingað koma möguleika á að aðlagast. Hið opinbera þarf að taka sig á og bjóða upp á íslenskunám og námskeið um íslenskt samfélag, og íslenskur almenningur þarf að koma fram við þá sem verða á vegi þeirra af kurteisi og virðingu. Það er ekkert hættulegra en að draga fólk saman í hópa og gera engan greinarmun á þeim einstaklingum sem hópurinn stendur saman af. Ef íslenska þjóðin væri sett í einn hóp væru æði fáir sem hefðu flest eða öll þeirra persónueinkenna sem hópnum væru gefin. Orðið einst aklingur ber með sér viðurkenningu á þeirri staðreynd að hver maður er sérstakur og ólíkur öðrum (=einstakur). Og þeir sem telja heppilegra að íslenskt samfélag standi saman af kristnum einstaklingum ættu ef til að kynna sér boðskap kristinnar trúar og fylgja eftirfarandi orðum Krists: „Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand