Áskorun Ungra jafnaðarmanna til Alþingis um viðurkenningu á þjóðarmorði Tyrkja á Armenum

Þann 24. apríl 2021 varð Joe Biden fyrstur Bandaríkjaforseta til að lýsa því formlega yfir að fjöldamorð tyrkneska hersins á Armenum á árunum 1915 til 1917 hafi verið þjóðarmorð. Þar með hefur forseti Bandaríkjanna loks viðurkennt mat Alþjóðasambands fræðimanna um þjóðarmorð (IAGS) og efnt loforð sem margir forverar hans hafa gefið en svikið í þágu pólitískrar hentisemi. Áður hafa Bandaríkjaþing og Evrópuþingið ályktað um að ódæðisverkin hafi verið þjóðarmorð.

Ungir jafnaðarmenn skora á Alþingi að samþykkja þingsályktun þar sem þjóðarmorð Tyrkja á Armenum eru viðurkennd.

***

Þöggun um þjóðarmorð

Þjóðarmorð Tyrkja á Armenum var framið á tíma fyrri heimsstyrjaldar, þegar Tyrklandi var stjórnað af svokölluðum Ungtyrkjum, sem studdu framgang tyrkneskrar þjóðernishyggju innan þessa aldna og fjölþjóðlega stórveldis. Hugmyndafræði þeirra hafði í för með sér auknar ofsóknir gegn minnihlutahópum innan veldisins og þegar stríðsgæfan snerist gegn Tyrkjum varð minnihlutahópur Armena að blóraböggli þeirra. Frá 1915 til 1917 drap tyrkneski herinn um eina milljón Armena og hrakti álíka marga á vergang.

Upp frá því að hugtakið þjóðarmorð varð til hafa stjórnvöld Tyrklands hafnað því að hugtakið eigi við um gjörðir þeirra í fyrra stríði þrátt fyrir fjölda sönnunargagna og vitnisburða. Staða Tyrklands innan Atlantshafsbandalagsins (NATÓ) hefur í seinni tíð gert þeim kleift að þagga þetta niður meðal flestra aðildarríkja þess, þar á meðal Íslands. Árin 2015 og 2016 var þingsályktunartillaga lögð fram á Alþingi um viðurkenningu Íslendinga á þjóðarmorðinu en skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir þverpólitískan hóp flytjenda náði tillagan ekki fram að ganga.

Fegrum ekki söguna

Öfgamenn á þýska þinginu gagnrýna Helfararminnismerkið í Berlín og vilja að Þjóðverjar séu stoltir af framgöngu þýska hersins í seinni heimsstyrjöld. Hinum megin Atlantshafs reyna íhaldsmenn í stjórnmálum að viðhalda hetjuljóma yfir herforingjum Suðurríkjasambandsins og hafna því að minnisvarðar þeirra séu táknmyndir kynþáttahyggju. Hvort tveggja eru tilraunir til að þagga niður gömul voðaverk svo auðveldara verði að breiða út sama hatursboðskapinn og leiddi þau upphaflega af sér.

Engan skal því undra að Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseti, sem nú beitir sér af hörku fyrir þöggun á armenska þjóðarmorðinu, sé um margt kominn af sama meiði og þeir sem frömdu það. Erdoğan hefur á síðustu árum leitt Tyrkland í átt að þjóðernissinnuðu einræði og staðið fyrir ofsóknum gegn minnihlutahópi Kúrda í Tyrklandi. Raunar varð einn Íslendingur, Haukur Hilmarsson, árið 2018 fyrir barðinu á slíkum ofsóknum þegar Tyrklandsher hélt til atlögu við Kúrda þar sem þeir reyndu að reisa sér eigið þjóðríki í rústum Sýrlands. Sömuleiðis herjaði stjórn Erdoğans við hlið Asera gegn Armenum í Nagornó-Karabak árið 2020 í stríði þar sem um 100 þúsund Armenar voru hraktir frá heimkynnum sínum.

Sannleikurinn ætti ekki að vera falur vegna pólitískra hagsmuna. Íslenskum ráðamönnum ber siðferðisleg skylda til að viðurkenna að þjóðarmorð var framið í Tyrklandi á öðrum áratugi 20. aldar. Tilraunir til að fegra söguna gera fátt nema að auðvelda frekari voðaverk. Það er Íslandi til skammar að Alþingi hafi ekki haft kjark til að viðurkenna armenska þjóðarmorðið árið 2015 án þess að Washington ryddi fyrst brautina.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand