Áskorun til Alþingis um að leiða Ísland inn í Bandalag handan olíu og gass

Á nýliðinni loftslagsráðstefnu í Glasgow kynntu Danmörk og Kosta Ríka nýtt milliríkjabandalag, Bandalag handan olíu og gass (e. Beyond Oil & Gas Alliance eða BOGA). Bandalagið er samstarfsvettvangur ríkisstjórna til að ákveða lokadag olíu- og gasleitar og leitast við að olíu- og gasframleiðsla verði í samræmi við Parísarsamninginn. Kjarnafélagar í samtökunum skuldbinda sig til að hætta leyfisveitingum til olíu- og gasleitar og setja sér lokadag til að ná fram markmiðum Parísarsamningsins um lok olíu- og gasleitar.

Ísland hefur daðrað við hugmyndina um olíuleit á Drekasvæðinu frá árinu 2009. Var þá litið til olíu sem skammtímalausnar við efnahagskreppunni þrátt fyrir að umhverfisafleiðingarnar til langtíma væru þá þegar vel kunnar. Drekamálið var ekki tekið út af dagskrá stjórnvalda fyrr en árið 2018, og þá einungis vegna þess að erlend ríkisolíufélög höfðu gefið eftir sérleyfi sín til olíuleitar. Íslendingar hafa enn ekki útilokað olíuleit að eigin frumkvæði þrátt fyrir að glapræði slíkra fyrirætlana verði ljósara með hverjum deginum sem líður.

Eins og stendur segir núverandi umhverfisráðherra olíuleit ekki vera á dagskrá ríkisstjórnarinnar og að engin formleg stefna sé til um olíuleit eða leyfisveitingar þess efnis. Það að málefnið sé ekki á dagskrá einmitt núna nægir hins vegar ekki, heldur ætti Ísland að slá möguleikann út af borðinu með varanlegum hætti. Það er ekki viðunandi til langtíma að ríkisstjórn Íslands haldi möguleikanum á olíuleit opnum eins og vonir hennar standi til að höggva aftur í þann knérunn seinna meir.

Olíuleit og -vinnsla á Drekasvæðinu væri aðför að hagsmunum barna, unglinga, ungmenna og allra sem koma til með að lifa út ævi sína við afleiðingar loftslagsbreytinga, sem verða áþreifanlegri með hverjum deginum. Slíkar framkvæmdir kæmu jafnframt eingöngu til með að færa skyndigróða í vasa fámennra sérhagsmunahópa.

Ungir jafnaðarmenn skora því á Alþingi og ríkisstjórn Íslands að leiða Ísland inn í Bandalagið handan olíu og gass. Verði Íslendingar þannig skuldbundnir á alþjóðavelli til að gefa ekki út leyfi til olíuleitar í fyrirsjáanlegri framtíð. Jafnframt ætti Alþingi að setja lög innanlands til að skjóta loku fyrir slíkar fyrirætlanir. Ekki nægir að afstaða Íslendinga til mögulegrar vinnslu jarðefnaeldsneyta felist í þögninni einni, heldur ætti hún að koma fram í afdráttarlausri höfnun.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand