,,Ekki nóg með það heldur hefur kynbundinn launamunur staðið í stað, biðlistar í heilbrigðiskerfinu lengst og enn eru giftingar samkynhneigðra bannaðar. Vanhæfni ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokkum er augljós. Það sem hefur þó jafnvel vakið meiri athygli er misnotkun ráðamanna á valdinu sem almenningur fól þeim.“ Segir Steindór Grétar Jónsson í grein dagsins.
Núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur setið í 12 ár. Á þessum tíma hefur skattbyrði þeirra sem lægstu tekjurnar hafa aukist, verðbólga rokið upp úr öllu valdi og matvælaverðið orðið eitt það hæsta í heimi. Ekki nóg með það heldur hefur kynbundinn launamunur staðið í stað, biðlistar í heilbrigðiskerfinu lengst og enn eru giftingar samkynhneigðra bannaðar.
Vanhæfni ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokkum er augljós. Það sem hefur þó jafnvel vakið meiri athygli er misnotkun ráðamanna á valdinu sem almenningur fól þeim.
Skemmst er þess að minnast þegar tveir ráðherrar tóku einir síns liðs ákvörðun um að gera Íslendinga meðseka í einu mannskæðasta stríði seinni tíma. Farið var á bak við alþingi og 90% Íslendinga með stuðningnum við óhugnaðinn. Samviska ríkisstjórnarflokkanna er enn flekkuð vegna þessa.
Stuttu seinna var leiðtogi alræmdrar kommúnistastjórnar, Jiang Zemin Kínaforseti, boðinn velkominn til landsins. Maðurinn sá hatar meðlimi Falun Gong hreyfingarinnar og hefur fangelsað þá og pyntað í heimalandi sínu. Til að geðjast honum voru allir sem litu út fyrir að vera kínverskir handteknir í Leifsstöð og læstir inni í heimatilbúnu fangelsi í Njarðvíkurskóla. Ríkisstjórnin studdist við svarta lista frá kínversku leyniþjónustunni við framkvæmd þessara mannréttindabrota.
Í febrúar árið 2003 var Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt og umboðssvik í opinberu starfi. Vinir hans í Sjálfstæðisflokknum nýttu sér svo tækifærið á meðan forseti Íslands var í útlöndum til að veita honum uppreisn æru, svo að hann gæti boðið sig fram til þings á ný. Hann skipar núna 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, en hefur aldrei beðist afsökunar á sannfærandi hátt fyrir það sem hann kallar „tæknileg mistök“ sín.
Listinn er enn lengri – Baugsmálið, eftirlaunamálið, fjölmiðlalögin, Byrgið, brot á jafnréttislögum, pólitískar skipanir sendiherra, hæstaréttadómara og seðlabankastjóra, svo fátt eitt sé nefnt. Viljum við í alvörunni lengja setu þessarar ríkisstjórnar? Hvað næst? Verður Árni Johnsen skipaður formaður fjárlaganefndar?
Við þessu er aðeins eitt ráð, að kjósa ríkisstjórnina burt þann 12. maí. Samfylkingin er lýðræðisflokkur sem er treystandi til að hreinsa til.