Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um aðstæður eldra fólks. Reglustikan sem var rifin á loft og sýndi innan við tvo tugi sentímetra sem fólk hafði á milli rúma sinna á hjúkrunarheimili einu varð allt í einu táknmynd heimiliaðstæðna eldra fólks. Þarna var skyndilega hægt að sýna með hlutlægum hætti það bága ástand sem aldraðir á þessu ríkisrekna hjúkrunarheimili búa við. Í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir;
1. grein
Hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku, og ber þeim að breyta bróðurlega hverjum við annan.
2. grein
1.Hver maður skal eiga kröfu á réttindum þeim og því frjálsræði, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.
3. grein
Allir menn eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.
Nú hefur ekki farið framhjá neinum umræðan sem hefur verið í þjóðfélaginu um hjónabönd samkynhneigðra. Þjóðkirkjan segir nei en meirihluti þjóðarinnar segir já. Nú hafa verið gerðar fjölmargar rannsóknir á samkynhneigðum til þess að færa sönnur á það að þeir eru alveg eins og gagnkynhneigðir, t.a.m. hvað varðar barnauppeldi. Þessar rannsóknir hafa leitt það í ljós að samkynhneigðir eru hvorki verri né betri heldur en sá sem elskar gagnstætt kyn. Þrátt fyrir það þá er enn komið fram við þann hóp eins og annars flokks. Enn eru dyr lokaðar fyrir þeim sem opnar eru gagnkynhneigðum. Dyr sem ættu að vera öllum opnar en það eru kirkjudyrnar. Þjóðkirkjan vill ekki gefa saman samkynhneigða vegna þess að hjónaband er bara fyrir karl og konu. Hjónabandið er víst heilög framleiðslueining sem á að sjá Íslandi fyrir afkomendum. Eins og ég skil þetta þá getur kirkjan ekki blessað ást samkynhneigðra vegna þess að hún er ekki eins göfug og ást gagnkynhneigðra. Samkynhneigðir myndu spilla hugmyndinni um hjónaband sem heilaga einingu.
Hvað finnst prestum um að ferma samkynhneigða unglinga? Hvaða skoðun hefur þjóðkirkjan á því að jarða homma og lesbíur? Ef þeir ætla að mismuna þeim hvers vegna ekki bara að taka allan pakkann? Ég segi allt eða ekkert. Fyrst að kirkjan hefur tekið þá ákvörðun að fylgja gamla tímanum og halda því fram að hugmyndin um hjónaband myndi eyðast með hjónabandi samkynhneigðra þá legg ég það til að þeir taki skýrari afstöðu, banni alla þá blessun sem samkynhneigðir geta fengið innan kirkjunnar.
Þegar ég var í fermingarfræðslu, sem og í sunnudagaskóla var lögð áhersla á kærleikann í kristinni trú sem og jafnrétti. Eru ekki allir jafnir fyrir guði? Eða erum við mis-jöfn fyrir framan guði? Mér finnst afstaða íslensku þjóðkirkjunnar röng, mér finnst að samkynhneigðir ættu að fá að gifta sig. Mér finnst rök kirkjunnar vera þunn vegna þess að vitnað er í valda kafla í Biblíunni til þess að viðhalda misrétti sem gengur þvert á bak við það sem mér var kennt að væri aðalatriðið í kristinni trú. Var kannski verið að ljúga að mér í fermingarfræðslu?
Í mannréttindasáttmálanum segir að við séum öll jöfn, ekki beri að mismuna okkur á neinum forsendum. Á Íslandi er mannréttindasáttmálinn í hávegum hafður, á þessu litla landi koma reglulega fréttir af Íslendingum sem hafa sótt rétt sinn þangað. Mannréttindi eru okkar mál og þess vegna spyr ég; hvers vegna í ósköpunum látum við þá þjóðkirkjuna komast upp með að greina okkur í fyrsta og annars flokks mannverur fyrir guði?