Ályktun vegna ástandsins við byggingu Kárahnjúkavirkjunar Ungir jafnaðarmenn harma það ástand sem nú er tilkomið við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Vegna sinnuleysis íslenskra stjórnvalda hafa fjölmargir verkamenn þurft að líða misrétti og kúgun af hálfu vinnuveitenda sinna. Hið ítalska verktakafyrirtæki Impregilo hefur ásamt sínum undirverktökum komist upp með vítaverða meðferð á vinnuafli sínu og slík vinnubrögð eiga ekki að fyrirfinnast í íslensku atvinnulífi við upphaf 21. aldarinnar.
Ungir jafnaðarmenn skora á stjórnvöld að gangast við sinni ábyrgð í þessu máli og grípi nú þegar inn í til að koma málunum í mannsæmandi horf. Það er ólíðandi að félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, hafi á engan hátt brugðist við af þeirri festu sem nauðsynleg er.