Ungir jafnaðarmenn skora á Gunnar Braga Sveinsson að segja af sér sem utanríkisráðherra vegna ófaglegra og ólýðræðislegra vinnubragða.
Ákvörðun núverandi ríkisstjórnar um að stöðva aðildarviðræður við Evrópusambandið var tekin án þess að leggja hana fyrir atkvæðagreiðslu á Alþingi eða í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún er í óþökk meirihluta landsmanna ef marka má fjölmargar skoðanakannanir undanfarna mánuði, sem sýna allar að meirihluti landsmanna vill sjá aðildarsamning og kjósa um hann í þjóðaratkvæðagreiðslu. Bæði fyrir og eftir kosningarnar talaði Framsóknarflokkurinn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna. Ríkisstjórnin gengur nú á bak orða sinna með orðhengilshætti og útúrsnúningi.
Sem utanríkisráðherra ber Gunnar Bragi pólitíska ábyrgð á þessari ólýðræðislegu ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
Þar fyrir utan hefur Gunnar Bragi sýnt hræsni og vanþekkingu í umfjöllun sinni um utanríkismál. Hræsnin birtist m.a. í þeim mótsagnakennda málflutningi að segja vinnubrögð Evrópusambandsins forkastanlega í IPA styrkjamálinu, þegar það var ríkisstjórnin sem í raun afþakkaði alla frekari IPA styrki með því að stöðva viðræður og lýsa því yfir að Ísland sé ekki á leiðinni inn í Evrópusambandið. Þá hefur Gunnar Bragi gagnrýnt Evrópusambandið fyrir lýðræðishalla, á meðan ríkisstjórnin hefur talað fyrir auknum viðskiptum og samstarfi við ríki sem seint teljast til fyrirmyndar í lýðræðismálum, eins og Kína, Rússland, Ungverjaland og Kakastan[sic].
Segja má að Gunnar Bragi haldi ESB umsókn Íslands í gíslingu. Hvorki þjóð né þingi er leyfð aðkoma að ákvörðun um umsókn, hann vill ekki draga umsóknina formlega til baka, en lýsir því ítrekað yfir að Ísland eigi ekkert erindi inn í ESB og leysir samninganefndina frá störfum.
Ungir jafnaðarmenn telja þessi vinnubrögð skaðleg fyrir trúverðugleika Íslands og skora því á Gunnar Braga Sveinsson að axla sína pólitísku ábyrgð og stíga til hliðar sem utanríkisráðherra.
Hann getur þá kannski notað tækifærið og farið í sína langþráðu Benidorm ferð.