Eftirfarandi ályktun barst frá Ungum jafnaðarmönnum í Reykjavík: Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík lýsa yfir eindregnum stuðningi við 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi sem stendur yfir um þessar mundir. Markmið átaksins er að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindabrot, en það veldur milljónum kvenna andlegu og líkamlegu heilsutjóni á ári hverju og hindrar eðlilega og nauðsynlega þátttöku þeirra í samfélaginu. Mikill fjöldi heimsókna og tilkynninga til Stígamóta, Kvennaathvarfsins og barnaverndaryfirvalda á undanförnum árum sýnir að átakið eigi ekki síður brýnt erindi á Íslandi en annars staðar.
Í ár leggur átakið sérstaka áherslu á að stjórnvöld grípi til aðgerða gegn mansali, sem á rót sína meðal annars að rekja til vaxandi kynlífsiðnaðar á Vesturlöndum og ber Ísland, líkt og aðrar vestrænar þjóðir, mikla ábyrgð við að stemma stigu við slíku.
Samhliða átakinu fer nú fram undirskriftasöfnun fyrir áskorun til stjórnvalda á vefnum http://www.humanrights.is um að grípa til aðgerða gegn mansali. Hvetur UJR alla til að kynna sér áskorunina og taka þátt.