Í kvöld var Steindór Örn Gunnarsson kjörin forseti Hallveigar – Ungs jafnaðarfólks í Reykjavík á aðalfundi félagsins. Hann tekur við af Soffíu Svanhvíti Árnadóttur sem hefur gegnt embættinu frá árinu 2023. Aðrir fulltrúar kjörnir í stjórn eru Agla Arnars Katrínardóttir, Agnes Lóa Gunnarsdóttir, Árni Dagur Andrésson, Hildur Agla Ottadóttir, Kári Freyr Kane og Oddur Sigþór Hilmarsson
Í sigurræðu sinni talaði Steindór um að þó að flokkurinn væri að mælast í hæstu hæðum þá væri mikilvægt að sofna ekki á verðinum og hversu mikilvægt ungliðastarfið væri fyrir flokkinn.
Hann sagði einnig að Samfylkingin hefur sýnt að hún sé eini flokkurinn sem getur stýrt meirihluta í Reykjavík, en á sama tíma tapað fylgi í hverri einustu kosningu síðan 2014, lausnin við því væri að ná betur til ungs fólks. „Staðreyndin er sú að enginn í borgarstjórnarflokknum er undir fimmtugt og þau hafa ekki sýnt Hallveigu mikinn áhuga á þessu ári.“ sagði Steindór í ræðu sinni.
„Við verðum að passa að mál sem snerta ungt fólk séu efst á baugi fulltrúa okkar, hvort sem það er borgarlína eða leikskólamálin, grunnskólar eða djammið, grænu svæðin eða húsnæðismarkaðurinn.
Ungt fólk þarf að vera í forystu innan Samfylkingarinnar í Reykjavík af því að framtíðin er okkar.“ Sagði Steindór í sigurræðu sinni.
Sem forseti aðildarfélags tekur Steindór einnig sæti í miðstjórn Ungs jafnaðarfólks.
Við óskum Steindóri og nýrri stjórn hjartanlega til hamingju og hlökkum til að fylgjast með Hallveigu á komandi starfsári!