[Ályktun] Réttlát námslán

Ungir jafnaðarmenn krefjast réttlátra námslána á erfiðum tímum. Ríkisstjórnin verður að gera námsmönnum erlendis kleyft að kaupa gjaldeyri og breyta reglum LÍN þannig að lán séu greidd út mánaðarlega. Þá verður tryggja að lánin haldi í við verðbólguna.

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að ríkisstjórn og yfirmenn banka landsins geri námsmönnum og öðrum sem staddir eru erlendis kleift að kaupa gjaldeyri og að námslán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna verði greidd út mánaðarlega.

Fjölmargir einstaklingar og fjölskyldurnar erlendis lenda nú í miklum erfiðleikum sökum skorts á gjaldeyri. Komið hefur verið á greiðslumiðlun fyrir Nýja Landsbankann með aðstoð Seðlabankans, en mikilvægt er að sambærileg aðstoð verði tafarlaust veitt í öðrum bönkum landsins og að greiðslumiðluninni verði tryggður nægur gjaldeyrir. Miðlunin verður að komast í gagnið strax svo að námsmenn og aðrir erlendis geti keypt sér mat og aðrar nauðsynjar.

Vegna veikingar íslensku krónunnar er dýrt fyrir íslenska námsmenn að búa erlendis. Í janúar verða námslánin greidd út í mynt þess lands sem námsmaður dvelur í og verða lánin væntanlega mun lægri en sú upphæð, í íslenskum krónum talið, sem námsmaður hefur notað til þess að kaupa gjaldeyri. Mikið óöryggi og álag fylgir núverandi fyrirkomulagi á greiðslu námslánanna, sökum þess að lánin eru greidd eftir á. Ungir jafnaðarmenn skora á stjórnvöld að skoða kosti þess að greiða námslán út mánaðarlega til þess að sporna við ósanngjörnum vaxtakostnaði og gengisáhættu sem námsmenn sitja uppi með. Fjárhagslegt óöryggi á námsárunum er síst til þess fallið að auka ásókn í nám á háskólastigi.

 Ungir jafnaðarmenn gera jafnframt þá kröfu að námslánin haldi í við verðbólgu. Ljóst er að námslán munu lækka að raunvirði verði ekkert að gert. Við gerð næstu úthlutunarreglna Lánasjóðs íslenskra námsmanna í vor er lykilatriði að námslánin hækki að minnsta kosti til jafns við verðhækkanir í landinu.

 Háskólamenntað fólk mun gegna lykilhlutverki við uppbyggingu landsins og nauðsynlegt er að hvetja góða námsmenn í háskólanám, nú sem endranær. Sérstaklega mikilvægt er að áfram verði eftirsóknarvert að fara í nám erlendis því þannig byggjum við upp tengsl Íslands og flytjum inn nýja þekkingu til landsins.

 

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand