[Ályktun] Miðbærinn, OR, leikskólar & Vatnsmýrin

Aðalfundur UJR var haldinn 26. september og á fundinum voru samþykktar fjórar ályktanir þar sem m.a. hugmyndum um skertan opnunartíma er hafnað og þess krafist að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Á fundinum var Agnar Freyr Helgason endurkjörinn formaður félagsins. Nýr varaformaður UJR er Guðrún Birna le Sage de Fontenay. Aðalfundur Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík var haldinn fyrr í kvöld. Á fundinum voru samþykktar fjórar ályktanir sem hægt er að lesa hér fyrir neðan. Að auki var ný stjórn félagsins kjörin en Agnar Freyr Helgason, 25 ára hagfræðingur, var endurkjörinn formaður. Guðrún Birna le Sage de Fontenay, 26 ára laganemi, var kjörin varaformaður. Aðrir sem kosnir voru í stjórn eru Ólöf Halldóra Þórarinsdóttir (gjaldkeri), Júlía Margrét Einarsdóttir (ritari), Einar Örn Einarsson, Ásþór Sævar Ásþórsson, Júlía Aradóttir, Guðlaugur Kr. Jörundsson, Erna María Jensdóttir, Ásgeir Runólfsson og Guðfinnur Sveinsson.


Hafna skertum opnunartíma

Aðalfundur Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, haldinn þann 26. september 2007, fagnar frumkvæði lögreglustjórans í Reykjavík að sýnilegri löggæslu í miðbænum um helgar. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa enda hefur Lögreglusamþykktinni verið fylgt eftir af meiri einurð en oft áður, umgengni hefur batnað og íbúar í mikilli nálægð við skemmtistaði hafa lýst því yfir að ónæði sé minna og merkjanlega meiri virðing borin fyrir þeirra nánasta umhverfi. Hvetur aðalfundurinn til þess að áfram verði haldið á sömu braut, en ekki gripið til róttækra aðgerða á borð við aukna skerðingu á opnunartíma skemmtistaða eða tilfærslu þeirra í úthverfi borgarinnar. Slíkum hugmyndum, sem sprottið hafa upp í kjölfar ofsafengins málflutnings af ,,ástandinu“ í miðbænum, ber að hafna með öllu.


Hafna fyrirtækjaleikskólum Sjálfstæðisflokksins

Aðalfundur Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík telur brýnt að leysa mönnunarvanda leikskóla borgarinnar farsællega. Hafna ber öllum hugmyndum borgarstjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokksins um fyrirtækjavæðingu leikskólastigsins og hlúa fremur betur að leikskólum Reykjavíkur, sem byggðir eru upp á mjög sterkum grunni. Vandinn snýr ekki að skorti á faglegu frumkvæði eða fjölbreyttu rekstrarformi leikskólanna, heldur forgangsröðun meirihlutans og algjöru úrræðaleysi.


OR áfram í eigu almennings

Aðalfundur Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík hvetur til þess að stigið verði varlega til jarðar við mögulegar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi Orkuveitu Reykjavíkur. Telur félagið ekki koma til greina að OR verði einkavætt, en að skoða megi hugmyndir um að skipta upp rekstri fyrirtækisins, þannig að samkeppnisrekstur og einokunarrekstur verði aðskilinn. UJR leggst alfarið gegn sölu á Gagnaveitu Reykjavíkur, sem rekur ljósleiðaranet Reykjavíkurborgar, enda er starfsemi veitunnar á einokunarmarkaði.


Völlinn úr Vatnsmýrinni

Framtíð höfuðborgarinnar er ungu fólki í Samfylkingunni í Reykjavík sérstaklega hugleikin. Aðalfundur Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík telur það eitt brýnasta úrlausnarefni borgaryfirvalda í dag að finna Reykjavíkurflugvelli heppilegri stað en í Vatnsmýrinni. Skýrsla samráðshóps Reykjavíkurborgar og samgöngumálaráðherra, sem kynnt var í vor, sýnir, svo ekki verði um villst, að fórnarkostnaður þess að fresta brottför flugvallarins nemi að minnsta kosti 3,5 milljörðum kr. á ári. Skv. sambærilegri úttekt Samtaka um betri byggð nemur fórnarkostnaðurinn 14 milljörðum kr. á ári. UJR telur hagsmunum borgarbúa og landsbyggðarinnar best borgið með því að byggja nýjan flugvöll á Hólmsheiði, en sú staðsetning var talin hagkvæmust af fyrrnefndum samráðshópi. Til þess að svo megi verða er hins vegar nauðsynlegt að tafarlaust verði hafnar fullnægjandi veðurfarsathuganir á svæðinu.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand