Evrópumál á dagskrá

,,Lýst eftir Sjálfstæðismönnum. Að lokum er vert að benda á að samkvæmt könnununum eru 50% kjósenda Sjálfstæðisflokksins fylgjandi viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið en einungis þriðjungur andvígur. Óskandi væri að hinn þögli meirihluti Sjálfstæðismanna stigi fram og léti skoðun sína í ljós. Frelsið er ætíð af hinu góðu. Líka málfrelsi.“ Segir Magnús Már Guðmundsson formaður Ungra jafnaðarmanna.

Í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks er kveðið á um að skipuð verði samráðsnefnd stjórnmálaflokka á Alþingi í Evrópumálum og er sú nefnd í burðarliðnum. Mikil þörf er á opinskárri umræðu um Evrópumál hvort heldur innan eða utan Alþingis. Seinustu misseri hefur lífleg umræða átt sér stað í málaflokknum og því ber að fagna. Staða krónunnar hefur mikið verið í umræðunni en sífellt fleiri eru fylgjandi upptöku evrunnar. Ýmsir sérfræðingar og áhrifamiklir aðilar í atvinnulífinu og stjórnmálum ásamt meirihluta þjóðarinnar eru fylgjandi nánari samstarfi við nágrannaþjóðir okkar í Evrópu. Samkvæmt nýjustu könnunum eru 53% landsmanna hlynntir því að taka upp evru og 48% vilja ganga í Evrópusambandið.


Hálf milljón á ári

Óstöðugleiki og smæð krónunnar sem gjaldmiðils veldur heimilunum, almenningi í landinu, og fyrirtækjum miklum óþörfum kostnaði. Samtök iðnaðarins telja að miðað við núverandi skuldir má gera ráð fyrir að hver íslensk fjölskylda greiði rúmlega hálfri milljón krónum meira í vexti á ári hverju heldur en það sem hún myndi gera ef notast væri við evru. Það eru miklir peningar.


Full þátttaka í innri markaði

Ýmsir hafa velt upp möguleikanum á upptöku evrunnar án aðildar að ESB. Ungir jafnaðarmenn, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, telja það ekki vera fýsilegan kost. Þátttöku í hinu sameiginlega myntbandalagi verður að fylgja full þátttaka í innri markaði Evrópusambandins með öllum þeim kostum sem því fylgja. Með fullri þátttöku og upptöku evrunnar lækkar ekki einungis matvælaverð og vaxtakostnaður heldur einnig mun langþráður stöðugleiki myndast sem bæði atvinnulíf og heimili munu hagnast á. Viðskiptakostnaður myndi lækka og erlendar fjárfestingar ykjust en það er vert að muna að ESB er stærsta viðskiptablokk í heimi. Þetta hefði í för með sér tugmilljarða króna ávinning.


Hafna einangrunarhyggju

Frá stofnun fyrir sjö árum hafa Ungir jafnaðarmenn viljað að stjórnvöld beiti sér að fullum þunga fyrir inngöngu Íslands í ESB. Hreyfingin telur að Evrópusambandsaðild geti fært þjóðinni efnahagslegan stöðugleika sem einstaklingar og fyrirtæki hafa kallað eftir. Af þeim sökum hafnar ungliðahreyfingin þeirri einangrunarhyggju sem birtist í stefnu annarra stjórnmálaflokka og vilja að Ísland hefji aðildarviðræður við ESB hið fyrsta og að aðildarsamningurinn verði að lokum borinn undir þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem íslenska þjóðin mun eiga síðasta orðið.


Lýst eftir Sjálfstæðismönnum

Að lokum er vert að benda á að samkvæmt könnununum eru 50% kjósenda Sjálfstæðisflokksins fylgjandi viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið en einungis þriðjungur andvígur. Óskandi væri að hinn þögli meirihluti Sjálfstæðismanna stigi fram og léti skoðun sína í ljós. Frelsið er ætíð af hinu góðu. Líka málfrelsi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. september 2007.


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand