Ásgeir Runólfsson var kjörinn fyrsti formaður félagsins. Á fundinum voru samþykktar tvær ályktanir þar sem annarsvega þverpólitísku samkomulagi um afnám fyrningarfrests í kynferðisbrotum gagnvart börnum er vagnað fagnað og hinsvegar varað er við afturhaldssamri stefnu Vinstri grænna í Evrópumálum.
Félag Ungra jafnaðarmanna í Garðabæ og Álftanesi, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, var stofnað 18. mars í safnarheimili Vídalínskirkju. Ásgeir Runólfsson fyrrverandi framkvæmdstjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands var kjörinn formaður félagsins. Einnig voru Arnór Bjarki Svarfdal, Bergdís Inga Brynjarsdóttir, Dagbjört Vésteinsdóttir, Guðbjörg Runólfsdóttir, Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir, Pétur Grétarsson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson kjörin í stjórnina.
Árni Páll Árnason frambjóðandi Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi ávarpaði fundinn.
Á stofnfundinum voru samþykktar tvær ályktanir. Annarsvegar var þverpólitísku samkomulagi um afnám fyrningarfrests í kynferðisbrotum gagnvart börnum fagnað og hinsvegar varað við afturhaldssamri stefnu Vinstri grænna í Evrópumálum.
_____________
Varað við afturhaldssamri stefnu Vinstri grænna
Stofnfundur Ungra jafnaðarmanna í Garðabæ og Álftanesi varar við afturhaldssamri stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Evrópumálum. Stefna VG hefur árum saman verið að binda endi á samstarfi Íslands við nágrannaríkin innan Evrópska efnhagssvæðisins og leita þess í stað tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu við Evrópusambandið. Ávinningur þjóðarinnar af EES-samningnum hefur verið gríðarmikill og höfum við haft aðgang að sameiginlegum markaði EES-ríkjanna sem hefur nýst okkur í útflutningi á vörum og þjónustu. Segja má að EES-samningurinn hafi verið og sé forsenda útrásarinnar.
Fagna nýsamþykktum breytingum á almennum hegningarlögum
Stofnfundur Ungra jafnaðarmanna í Garðabæ og Álftanesi fagnar því að fyrningarfrestur kynferðisafbrota gegn börnum hafi verið afnuminn með lögum og samræðisaldur hækkaður upp í 15 ár. Þetta framfaraskref má að miklu þakka ötulli baráttu Ágústs Ólafs Ágústssonar, varformanns Samfylkingarinnar, og þingflokki Samfylkingarinnar sem hefur ítrekað lagt þetta mál fram.
Þó verður að harma að sænska leiðin sé ekki farin í nýsamþykktum breytingum á almennum hegningarlögum. Breytingarnar virka líkt og viðurkenning á lögmæti vændis, enda kaup á vændi ekki gerð refsiverð, eins og fjölmargir höfðu farið fram á. Það er von Ungra jafnaðarmanna í Garðabæ og Álftanesi að umbætur eigi sér stað sem fyrst á nýju kjörtímabili – vonandi með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar frelsis og jafnaðar.