[Ályktun] Ályktanir aukaaðalfundar UJH

Fundurinn var haldinn sl. föstudagskvöld í húsnæði Sf. í Hafnarfirði við Strandgötu. Samþykktar voru ályktanir um herinn og NATO, skólagjöld, vinaleiðina svokölluðu og Rúv. Aukaaðalfundur Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði var haldinn sl. föstudagskvöld, 19. janúar 2007, í húsnæði Samfylkingarinnar í Hafnarfirði við Strandgötu þar sem lokið var við dagskrá aðalfundar sem var haldinn 15. desember 2006. Samþykktar voru ályktanir um herinn og NATO, skólagjöld, vinaleiðina svokölluðu og Ríkisútvarpið.


1. Ályktun varðandi herinn og NATO

UJH fagna því að bandaríski herinn sé nú farinn frá Miðnesheiði og að Ísland sé nú loksins herlaust land. UJH ítreka jafnframt þá skoðun sína að Ísland eigi að segja sig úr hernaðarbandalaginu NATO.


2. Ályktun varðandi skólagjöld við Háskóla Íslands

UJH hafna alfarið öllum hugmyndum um skólagjöld við Háskóla Íslands og fagna einarðri afstöðu Ungra jafnaðarmanna á landsvísu í þá veru sem látin var í ljós í ályktun hinn 16. janúar síðastliðinn. Jafnrétti til náms á öllum skólastigum er lykilatriði í velferðarþjóðfélagi eins og okkar og ber ekki að skerða það svo neinu nemi.


3. Ályktun varðandi vinaleið

UJH harma að starfrækt sé svokölluð vinaleið í grunnskólum. Grunnskólar eiga að vera lausir við áróður af öllu tagi, hvort sem hann er pólitískur, trúarlegur eða annar. Það er ekki siðferðislega verjandi að prestar starfi innan veggja grunnskólans, enda stríðir það gegn grunnskólalögum. Þögn menntamálaráðherra í þessu máli er hreint ekki til fyrirmyndar og lýsir ábyrgðarleysi og óöryggi í erfiðu máli. Menntamálaráðherra virðist ekki sjá ástæðu til þess að standa vörð um trúfrelsi í landinu og kemur það niður á óhörðnuðum grunnskólabörnum.


4. Ályktun varðandi RÚV

UJH hafna því alfarið að RÚV verði breytt í svokallað „opinbert hlutafélag“. Slík breyting verður aðför að réttarstöðu starfsmanna þess, sem og að rétti fólks til að fá upplýsingar um starfsemi þess með vísan til reglna um gagnsæja, opinbera stjórnsýslu. Í stað þess að RÚV starfi sem almannastofnun í samræmi við lýðræðislegar leikreglur verður það að óaðgengilegu bákni og tapar þannig þjónustuhlutverki sínu við almenning. Þar á ofan gefur hlutafélagavæðingin því undir fótinn að RÚV verði selt úr eigu íslensku þjóðarinnar, en við það glatast lýðræðisleg sérstaða þess sem hlutlauss almannaútvarps. Auga leið gefur að slíkt yrði skelfilegt slys fyrir íslenskt menningarlíf og ber að varast það eins og heitan eldinn. UJH krefjast þess að allar hugmyndir, sem leitt geta til slíks, verði lagðar á hilluna og að þetta frumvarp verði dregið til baka þegar í stað. Telji stjórnarliðar sér ekki unnt að verða við þeirri kröfu er þess krafist að í hið minnsta verði gildistökuákvæði frumvarpsins breytt þannig að ný lög um RÚV taki ekki gildi fyrr en eftir kosningar. Í ljósi þess hversu mikil grundvallarbreyting lögð er til með frumvarpinu á starfsemi almannaútvarps Íslendinga er það sjálfsagt réttlætismál.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand