Aðalfundur Ungra jafnaðarmanna í Kópavogi var haldinn nýverið og ný stjórn félagsins kjörin. Á fundinum voru einnig samþykktar fjórar ályktanir. Aðalfundur Ungra jafnaðarmanna í Kópavogi var haldinn nýverið og ný stjórn félagsins kjörin. Á fundinum voru einnig samþykktar fjórar ályktanir.
1. Af lista hinna vígfúsu
Ungir jafnaðarmenn í Kópavogi (UJK) harma að íslenska þjóðin sé enn beinn þátttakandi í hildarleiknum í Írak. UJK hefur frá upphafi fordæmt þessa aðgerð ríkisstjórnarinnar sem tekin var í laumi, gegn vilja þjóðar og þings, aðgerð sem er einhver stærsti smánarblettur í sögu þjóðarinnar. Nú rúmum fjórum árum eftir að þetta óheillaspor var tekið krefst UJK að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks geri upp skuldir sínar við þjóðina og leiðrétti skömm sín áður en hún hverfur frá völdum þann 12. maí næstkomandi.
2. Kosið á haustinn
Aðalfundur Ungra jafnaðarmanna í Kópavogi (UJK) skorar á stjórnvöld að breyta kosningalöggjöfinni þannig að framvegis verði kosið til þings og sveitarstjórna að hausti. Núverandi fyrirkomulag vinnur mjög gegn hagsmunum þess þjóðfélagshóps sem er að neyta atkvæðisréttar í fyrsta sinn. Stór hluti ungra kjósenda eru námsmenn í próflestri sem hafa lítinn sem engan tíma til að kynna sér menn, konur og málefni flokkanna. Þetta vinnur gegn leikreglum lýðræðisins og hagsmunum þess þjóðfélagshóps sem byggja landið og munu nýta sér opinbera þjónustu hvað mest á komandi árum.
3. BUGL
Ungir jafnaðarmenn í Kópavogi (UJK) kalla á aðgerðir frá stjórnvöldum við aðgerðaleysi undanfarin ár er varða biðlista á Barna- og unglinga- geðdeildina. Eins og staðan er í dag eru 170 börn og unglingar sem bíða eftir plássi og er það algerlega óviðunandi. Þetta er lýsandi dæmi um hvernig núverandi ríkisstjórn hefur vanrækt mikilvæg málefni. Útrýming þessa biðlista er ekki einungis hagsmunamál barna og unglinga heldur snertir þetta þjóðina alla. UJK skorar á Kópavogsbúa og aðra landsmenn að fella sitjandi ríkisstjórn sem hefur enn einu sinni brugðist þjóðinni.
4. Hjónabönd samkynhneigðra
Ungir jafnaðarmenn í Kópavogi (UJK) harma að samkynhneigðir sitji ekki við sama borð og aðrir þegar þeim er neitað um þeirra sjálfsagða rétt til að ganga í hjónaband í kirkjum landsins. Það er ekki í takt við nútíma hugsun og það frjálslyndi sem UJK stendur fyrir. UJK skorar á komandi ríkisstjórn að heimila trúfélögum að gefa saman alla þá sem það kjósa. Þetta dæmi er aðeins eitt af mörgum þar sem svokallaðir boðberar frelsis, Sjálfsstæðisflokkurinn, hefur brugðist skyldum sínum í mannréttindamálum.