Ég tók upp þann sið á sínum tíma… …þegar ég var fyrst kjörinn formaður UJ að rita reglulegan pistil í fréttabréf ungra jafnaðarmanna, SamViskuna. Vegna þess hversu útgáfa SamViskunar hefur verið stopul en vegna þess að ég finn mér jafnan ífríð nóg af umfjöllunarefnum þá hef ég afráðið að senda pistilinn héðan í frá út sér. Stefni ég að því að rita þessar hugleiðingar vikulega í vetur. Ég vonast jafnframt til þess að fá heyra í ykkur líka, ungliðum, bæði í eigin persónu sem og á lokuðum spjallvef ungra jafnaðarmanna www.politik.is/umraedur . Vegna frétta um að fyrsta dagskrármál Alþingis eftir jólafrí verði afnám úrskurðar Kjaradóms frá því í desember er ástæða til að minna á áður framkomna tillögu Ungra jafnaðarmanna um að Kjaradómur sem stofnun verði lagður niður og látið af frekari launahækkunum til æðstu ráðamanna – umfram launahækkanir almennt. Laun æðstu ráðamanna hafa hækkað langt umfram laun venjulegs fólks á undanförnum árum og hafa þeir þannig átt þátt í því að breikka bilið milli hinna hæstlaunuðu og lægstlaunuðu í landinu.
Ekki má gleyma eftirlaununum
Ungir jafnaðarmenn telja að með hækkunum undanfarinna ára og ekki síst í ljósi þess að æðstu ráðamenn hafa úthlutað sjálfum sér bestu lífeyrisréttindum sem þekkjast á Íslandi þá hafi þessi hópur fengið nægar kjarabætur um sinn. Telji menn að nokkrum árum liðnum að laun æðsturáðamanna séu orðin léleg á ný þá er eðlilegast að um það fari umræða áður en ákveðið er að hækka þennan hóp umfram aðra hópa.
Lægri laun greidd fyrir að stjórna Noregi
Bent hefur verið á að laun þeirra sem Kjaradómur hefur ákvarðað virðast vera svipað há eða jafnvel hærri en laun manna í samsvarandi stöðum í nágrannalöndum okkar. Að tengja launahækkanir æðstu ráðamanna við launavísitölu er að mati Ungra jafnaðarmanna einfaldasta lausnin á síendurteknum deilum sem staðið hafa um úrskurði Kjaradóms.